Að minnsta kosti átta krabbameinslæknar fórust í flugslysinu í Brasilíu á föstudaginn. Læknarnir voru á leiðinni á ráðstefnu í krabbameinslækningum. Meðal þeirra voru margir læknar sem stóðu framarlega á sínu sviði, sérfræðingar í geislameðferð og í krabbameinslækningum barna. Allt í allt létu 62 lífið í slysinu.
„Þetta var fólk sem helgaði líf sitt því að bjarga öðrum,“ sagði Eduardo Baptistella, meðlimur í læknaráðinu á svæðinu.
Fleiri læknar voru að sækja sömu ráðstefnu en höfðu farið með fyrra flugi.
Myndbönd hafa birst af slysinu þar sem má sjá flugvélina falla stjórnlaust til jarðar.
Tíu einstaklingar sluppu með lífið þar sem þau höfðu fyrir misskilning beðið eftir fluginu við rangt hlið. Þau misstu því að flugvélinni.
„Skjárinn sýndi rangt hlið og þess vegna sátum við 10 þarna þegar við áttuðum okkur á mistökunum. Við hlupum að rétta hliðinu og ég spurði einn starfsmanninn hvort hún gæti ekki hleypt okkur um borð því ég yrði að ná fluginu. Hún sagði að ég væri of seinn og það eina sem væri hægt að gera væri að endurbóka flugið,“ sagði einn farþeginn í samtali við CNN.
Rannsókn á tildrögum slyssins stendur enn yfir en fyrir liggur að flugmaðurinn sendi ekkert neyðarkall. Sérfræðingar telja líklegt að ísing hafi safnast á vængi vélarinnar og valdið því að hún hrapaði.
Flugritinn, eða svokallaður svartur kassi, vélarinnar er fundinn, og mun vonandi gefa skýrari svör um ástæður og tildrög slyssins.