fbpx
Föstudagur 19.júlí 2024
Pressan

Blekktur til dauða eins og svín fært til slátrunar- „Það virtist sem að hann hefði verið heilaþveginn að vissu marki“

Pressan
Mánudaginn 17. júní 2024 18:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dennis Jones var ástríkur faðir, hamingjusamur og jákvæður. Allt þar til hrottalegt netsvindl rændi hann sálarrónni og eftir sitja afkomendur hans í sárum.

Fyrir þremur mánuðum síðan svipti Dennis sig lífi eftir að hann varð fyrir barðinu á svokölluðum svínaslátur-svikum (e. pig butchering scam). Svikin fengu þetta viðurnefni þar sem þau byggja á því að fita fórnarlömbin upp áður en svikarinn sviptir þau aleigunni. Þessi svik eru helst þekkt í Asíu en hafa þó verið að dreifa úr sér.

Svikarinn býr til aðgang að samfélagsmiðlum undir fölsku nafni og kemst þannig í samband við skotmark sitt. Svikarinn eyðir svo heilu mánuðunum í að fá fórnarlambið til að treysta sér áður en hann lætur svo til skara skríða. Svikin felast í því að selja fórnarlambinu hugmynd um fjárfestingu, gjarnan í rafmynt. Þegar peningarnir hafa þó verið millifærðir kemur á daginn að um svik var að ræða en þá er of seint að grípa inn í aðstæður.

Jessie kom til sögunnar

Dennis Jones hafði gaman að því að skokka og var áhugaljósmyndari. Hann var dýrkaður af afkomendum sínum sem lýsa honum sem eins konar aktívista sem varði stórum hluta af eftirlaunaárum sínum í að vinna með flóttamönnum og að rökræða stjórnmál á netinu.

Síðustu mánuðina lokaði hann sig þó af eftir að hann kynntist konu sem kallaði sig Jessie á Facebook. Þau töluðu mikið saman og áttu í nánum vinskap. Dag einn stakk Jessie upp á því að Dennis fjárfesti sparnað sinn í rafmynt. Dennis féllst á það. Hann eyddi öllum sparnaðinum sínum en Jessie heimtaði alltaf meira. Loks átti Dennis ekkert eftir.

Börn Dennis ætluðu í mars að hjálpa föður sínum að koma fótunum aftur undir sig. Hann gæti flutt til yngstu dóttur sinnar og fjölskyldu hennar.

„Við vildum að hann vissi að við myndum sjá fyrir honum,“ segir sonur hans Matt í samtali við CNN. En faðir þeirra kom ekki til fundar við börn sín. Og enginn náði í hann í síma. Klukkutíma síðar bankaði lögreglan uppá hjá Matt til að láta vita að Dennis hefði svipt sig lífi.

Svik sem þessi eru orðin svo algeng að alríkislögreglan í Bandaríkjunum, FBI, er farin að tala um að eignatilfærsla sé að eiga sér stað frá millistéttinni yfir til glæpahópa. Fórnarlömb í bara Bandaríkjunum hlaupa á þúsundum og hafa hundruð milljarða tapast á undanförnum árum.

Aldrei séð jafn mikla eyðileggingu

Saksóknarinn Erin West hefur helgað sig baráttunni gegn svínaslátrunar-svikum.

„Ég hef verið saksóknari í rúmlega 25 ár og tekist á við allskonar glæpi. Ég helgaði mig kynferðisbrotum í níu ár. En ég hef aldrei séð jafn mikla eyðileggingu og þá sem svínaslátrunin veldur í lífi fólks.“

Þessir svikarar herja á góðviljað fólk, gjarnan einmana heldri borgara sem eru fráskildir, hafa misst maka eða hafa einangrast frá vinum og fjölskyldu.

Svikararnir eru gjarnan sjálfir þolendur mansals sem hafa verið lokkaðir til suðaustur asíu með loforðum um góð laun. Þess í stað eru svikararnir sendir til Myanmar, Kambódíu, Laos eða annað og þar settir fyrir framan tölvur og látnir vingast við skotmörk og sannfæra þau um að fjárfesta í rafmynt í gegnum gervisíður. Svikararnir verða fyrir barðinu á ofbeldi ef þeir ná ekki árangri og beittir hrottalegum refsingum.

Eftir að Dennis svipti sig lífi sátu afkomendur hans eftir í sárum. Þau komust á snoðir um „Jessie“ með því að fara í gegnum Facebook-skilaboð.

„Ég hef átt myrkar hugsanir um að lífi mínu sé lokið. Það virðist vera að fjárhagurinn minn sé ónýtur,“ sagði Dennis við svikarann nokkrum mánuðum áður en hann lést. „Og versti sársaukinn er að hafa brotið traustið sem fjölskylda mín bar til mín. Þetta er óbærilegt.“

Dóttir Dennis segir að það hafi verið sárt að lesa þessi skilaboð. Hann hafi treyst svikaranum fyrir þessum erfiðu tilfinningum frekar en börnum sínum. Það sé ótrúleg staðreynd að þessum svikurum tekist að byggja upp slíkt traust við fórnarlömb sín. Þetta sé í raun sálfræðilegur hernaður.

„Hann var ekki að tala við bara eina manneskju. Þetta eru glæpasamtök sem velta milljörðum sem eru með handbók um hvernig sé hægt að spila á tilfinningar. Það virtist sem að hann hefði verið heilaþveginn að vissu marki.“

Börn Dennis vilja deila sögu föður síns til að vara aðra við. Faðir þeirra hafi látið lífið niðurlægður, gjaldþrota, hryggbrotinn og í óbærilegri skömm. Vonandi geti saga hans verið örðum víti til varnaðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Er leitinni að Plánetu níu að ljúka?

Er leitinni að Plánetu níu að ljúka?
Pressan
Fyrir 4 dögum

Átti erfitt með þvaglát – Ástæðan kom læknum gríðarlega á óvart

Átti erfitt með þvaglát – Ástæðan kom læknum gríðarlega á óvart
Pressan
Fyrir 6 dögum

Færð þú frið í sumarfríinu? Fyrirtæki hafa samband við þriðja hvern starfsmann í sumarfríinu

Færð þú frið í sumarfríinu? Fyrirtæki hafa samband við þriðja hvern starfsmann í sumarfríinu
Pressan
Fyrir 6 dögum

Grimmdarleg slagsmál í dýragarðinum í Edinborg kostuðu Rene lífið

Grimmdarleg slagsmál í dýragarðinum í Edinborg kostuðu Rene lífið
Pressan
Fyrir 1 viku

Ítalskur bær neyðist til að vísa ferðamönnum á brott vegna vatnsskorts

Ítalskur bær neyðist til að vísa ferðamönnum á brott vegna vatnsskorts
Pressan
Fyrir 1 viku

Sjö ávanar sem gera tannlækninn þinn ríkan

Sjö ávanar sem gera tannlækninn þinn ríkan