fbpx
Mánudagur 17.júní 2024
Pressan

Sakamál: Leyndarmál ættleidda sonarins – Vopnaðir menn brutust inn til hjóna í skjóli nætur

Pressan
Laugardaginn 25. maí 2024 21:30

Ted Shaughnessy var myrtur á heimili sínu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ted og Corey Shaughnessy voru hamingjusöm miðaldra hjón sem bjuggu í borginni Austin í Texas-fylki og ráku þar vel metna og vinsæla skartripaverslun í miðborginni. Þau bjuggu í rólegu úthverfi í borginni þar sem heyra mátt heyra mátti saumnál detta í næturþögninni. Það var því harla óvenjulegt þegar hjónin vöknuðu við gelt í hundum þeirra aðfaranótt 2. mars árið 2018.

Hjónin áttu enga óvini, svo vitað væri, en höfðu ávallt varann á sér í ljósi þess að þau voru skartgripasalar og því hugsanleg skotmörk þjófa og ræningja. Ted átti skotvopn, hann fór fram úr rúminu og sótti sér byssu. Stuttu síðar heyrði kona hans skothvelli. Nokkru síðar komu byssumennirnir að hjónaberberginu en Corey hafði þá náð sér í byssu og skaut að þeim. Skömmu síðar flýðu skotmennirnir af vettvangi án þess að hafa hæft hana. Eftir að þeir voru farnir hringdi Corey, skelfingu lostin, í Neyðarlínuna. Þegar lögreglumenn komu á  vettvang var Ted látinn af skotsárum og annar hundur hjónanna hafði líka fallið í skothríðinni.

Rannsókn lögreglu leiddi ýmislegt sérkennilegt í ljós. Fyrir það fyrsta hafði engu verið stolið og ekki virtist hafa verið gerð tilraun til að ræna neinu, en peningaskápur var á heimilinu. Í annan stað leit allt út fyrir að árásarmennirnir hefðu notast við skotvopn og skotfæri sem voru tekin af heimilinu.

Í þriðja lagi hafði þjófavarna- og vöktunarkerfi heimilisins verið tekið af einhvern tíma fyrir innrásina í húsið. Í fjórða lagi höfðu innbrotsmennirnir komist inn um opinn svefnherbergisglugga í húsinu. Það var vægast sagt undarleg inngönguleið við þessar aðstæður.

Grunur beinist að eiginkonunni

Lögregla taldi fljótt að í raun hefði ekki verið um tilraun til ráns að ræða og hún hafði ástæðu til að ætla að einhverjir hefðu verið að verki sem þekktu til fjölskyldunnar. Um tíma beindist grunur að Corey, ekki síst þar sem hún reyndi mjög fljótlega eftir morðið að leysa út líftryggingu Teds, sem hljóðaði upp á 1 milljón dollara. Hún bar því við að hún hafi þurft á fénu að halda inn í rekstur skartgripaverslunarinnar. Corey var mjög reið við lögregluna og sagði við blaðamenn að lögreglan kæmi ekki fram við hana eins og þolanda glæps heldur sem sakborning.

Shaughnessy-hjónin áttu son sem þau höfðu ættleitt 16 mánaða gamlan frá munaðarleysingjahæli í Úkraínu. Hann hét Nick og var 19 ára um þetta leyti. Nick var giftur ungru stúlku að nafni Jacklyn. Hann var til þess að gera nýlega fluttur að heiman en eftir lát Teds fluttu þau aftur inn til móðurinnar, Corey, Nick og Jaclyn. Nick átti sér drauma um að efnast vel af hlutabréfaviðskiptum og braski með rafmynt og vildi vinna heiman frá sér. Foreldrum hans mislíkaði að hann hætti í námi til þess að láta braskdrauma sína rætast.

Smám saman minnkaði grunur lögreglunnar um að Corey hefði átt þátt í glæpnum en athyglin fór að beinast meira að Nick. Í fyrstu yfirheyrslunn hjá lögreglu sagði Nick að hann gæti trúað vini sínum Spencer Patterson til að fremja glæp á borð við þennan. Þetta þótti vera afar sérkennileg yfirlýsing, hvers vegna ætti hann að gruna vin sinn um að myrða foreldra sína? Þegar lögregla ræddi við Spencer sagði hann að Nick hefði boðið honum að myrða foreldra sína gegn hárri greiðslu. Við lát foreldranna ætlaði Nick að leysa út líftryggingu þeirra, eina milljón dollara á hvort, fyrir utan það að hann myndi erfa umtalsverðar eignir eftir þau.

Mæðginin Nick og Corey og heimilishundur á meðan allt lét í lyndi.

Ekki sonurinn sem hún þekkti

Spencer sagðist hafa hafnað tilboði vinar síns. En einhverjir aðrir höfðu bitið á agnið. Eftir nokkrar vendingar hafði lögreglan samband við tvo menn sem höfðu þegið tilboð Nicks um að myrða foreldra hans gegn vænni greiðslu. Þrátt fyrir að hafa gengið að tilboðinu leið öðrum manninum illa yfir áformunum og þegar á hólminn var komið og Ted Shaughnessy lá í valnum ásamt hundi sínum þá höfðu mennirnir ekki í sér að myrða Corey líka og hurfu af vettvangi áður en verkinu var lokið.

Corey átti erfitt með að trúa því að sonur hennar hefði skipulagt þennan hræðilega glæp. Lögreglan hafði áður gert þau mistök að gruna hana, alsaklausa, um græsku í málinu, og í fyrstu virtist henni þetta vera í stíl við þau vinnubrögð. En ekki leið á löngu þar til Nick játaði allt í yfirheyrslu lögreglunnar og þá þurfti Corey að horfast í augu við það að ástkær sonur hennar væri morðingi af kaldrifjuðustu sort. Kom einnig fram að það var Nick sem hafði tekið þjófavarnarkerfið af húsinu í aðdraganda innrásarinnar og séð til þess að glugginn var opinn sem árásarmennirnir fóru inn um.

Nick og leigumorðingjarnir hans tveir játuðu allir greiðlega og gerðu samning við ákæruvaldið um refsingu. Hlaut hver þeirra um sig 35 ára fangelsisdóm. Jaclyn, eiginkona Nicks, hlaut mjög væga refsingu, aðeins nokkurra mánaða fangelsi, þrátt fyrir að hún hafi vitað um áformin og tekið þátt í að skipuleggja morðin.

Eins og áður var greint frá fluttu Nick og Jaclyn inn til Corey eftir dauða Teds. Þau bjuggu þar mánuðum saman, allt þar til þau voru handtekin. Það var óhugnanleg tilhugsun fyrir Corery að hún hafi búið undir sama þaki og morðingjar ástkærs eiginmanns hennar í marga mánuði.

Enn sérkennilegra var að horfast í augu við glæp sonar hennar. Einu sinni spurði blaðamaður hana hvort hún elskaði enn Nick. Hún sagðist elska þá manneskju sem hann hefði verið sem barn en ekki þann mann sem hann væri í dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Rúmlega 50.000 Kaliforníubúar létust ótímabærum dauða á áratug vegna reyks frá gróðureldum

Rúmlega 50.000 Kaliforníubúar létust ótímabærum dauða á áratug vegna reyks frá gróðureldum
Pressan
Í gær

Víkingasverð með „mjög sjaldgæfri“ áletrun fannst á norskum sveitabæ

Víkingasverð með „mjög sjaldgæfri“ áletrun fannst á norskum sveitabæ
Pressan
Fyrir 2 dögum

Renndi kærastanum í ferðatösku þar sem hann kafnaði – Búin að stórmóðga 7 verjendur og þarf líklega að skipta núverandi út líka

Renndi kærastanum í ferðatösku þar sem hann kafnaði – Búin að stórmóðga 7 verjendur og þarf líklega að skipta núverandi út líka
Pressan
Fyrir 2 dögum

Dularfullt andlát lögreglumanns vekur upp spurningar – Drap kærastan hann eða er lögreglan að hylma yfir með sínum eigin?

Dularfullt andlát lögreglumanns vekur upp spurningar – Drap kærastan hann eða er lögreglan að hylma yfir með sínum eigin?
Pressan
Fyrir 3 dögum

Fundu sjö stjörnur þar sem mögulega eru vísbendingar um vitsmunalíf

Fundu sjö stjörnur þar sem mögulega eru vísbendingar um vitsmunalíf
Pressan
Fyrir 3 dögum

Vanstilltur tölvupóstur Donald Trump vekur upp spurningar um geðheilsu hans – „Hann mun gera allt til að vinna kosningarnar“

Vanstilltur tölvupóstur Donald Trump vekur upp spurningar um geðheilsu hans – „Hann mun gera allt til að vinna kosningarnar“
Pressan
Fyrir 4 dögum

71 árs Legoþjófur handtekinn – Stal rúmlega 2.800 kössum af sjaldgæfu og dýru Lego

71 árs Legoþjófur handtekinn – Stal rúmlega 2.800 kössum af sjaldgæfu og dýru Lego
Pressan
Fyrir 4 dögum

Meiri upplýsingar um 12 ára morðingjann líta dagsins ljós – Sagður snarruglaður

Meiri upplýsingar um 12 ára morðingjann líta dagsins ljós – Sagður snarruglaður