fbpx
Þriðjudagur 28.maí 2024
Pressan

Hún datt niður stigann – Ekki var allt sem sýndist

Pressan
Laugardaginn 13. apríl 2024 22:00

Karina og David

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það var rétt fyrir miðnætti þann 12. mars 2011 sem hringt var í neyðarlínuna í bænum Mira Mesa sem er nærri San Diego í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Neyðarvörðurinn var ekki í neinum vafa um að það var örvæntingarfullur maður sem hringdi. Á upptöku af símtalinu heyrist að maðurinn var í miklu uppnámi og gat ekki útskýrt hvað hafði gerst.

„Konan kastaði sér fram af stiganum á annarri hæð. Hún er mikið slösuð og það blæðir úr henni. Getið þið sent sjúkrabíl?“ sagði maðurinn samhengislaust.

Lögreglumaðurinn reyndi að fá nánari upplýsingar um stöðu málsins og spurði um nafn, heimilisfang og símanúmer mannsins. En það skipti engu hvað hann spurði um, maðurinn sagði bara að senda ætti sjúkrabíl. Það var ekki fyrr en eftir margar mínútur sem lögreglumanninum tókst að fá upp úr honum hvert ætti að senda sjúkrabílinn og að maðurinn héti David Ditto og að eiginkona hans, Karina, væri mikið slösuð.

Þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang mætti undarleg sjón þeim. Karina lá lífvana á gólfinu, nokkrum metrum frá stiganum sem David sagði hana hafa dottið niður af. Hún var útötuð í blóði og með áverka um næstum allan líkamann, meðal annars með stóran bláan marblett á innanverðu hægra lærinu.

En það var ekkert blóð nærri stiganum. Einn af lögreglumönnunum, sem var hokinn af reynslu, áttaði sig á að hér væri um dularfullt slys að ræða og sagði við annan lögreglumann að hér væri um morð að ræða.

David, sem var 45 ára, sat á stól í hinum enda stofunnar og fylgdist náið með tilraunum lækna og annarra til að lífga Karina, sem var 38 ára, við. Hann sagði þeim að hann hefði beitt munn við munn aðferðinni til að reyna að endurlífga Karina, en án árangurs.

Ekkert blóð

Lögreglumaður spurði David af hverju það væri ekkert blóð í kringum munn hans eftir að hafa notað munn við munn aðferðina á Karina. David svaraði að hann hefði þvegið blóðið úr andliti sínu áður en viðbragðsaðilar komu á vettvang.

„Af hverju ertu þá enn með blóð á höndunum, ef þú þvoðir andlitið?“ spurði lögreglumaðurinn þá en fékk ekkert svar.

Karina var flutt á sjúkrahús og sérfræðingar lögreglunnar mættu á vettvang til að annast vettvangsrannsókn. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar þá fannst Karina lífvana nokkra metra vinstra megin við stigann sem hún datt niður af samkvæmt frásögn David. Höfuð hennar hafði lent á marmaragólfinu.

Ef Karina hafði í alvöru dottið niður frá stiganum, þá hafði hún svifið nokkra metra í loftinu áður en hún lenti þar sem hún fannst liggjandi í blóðpolli. Það var ljóst að svona gat þetta ekki hafa gerst.

David var með fjölda rispa í andlitinu og sagði að Karina hefði klórað hann þegar hann var að reyna að lífga hana við. Það gat ekki verið rétt miðað við áverkana á Karina. Blóð hafði storknað í hári hennar og það benti til að hún hefði verið látin í góða stund áður en David hringdi í neyðarnúmerið.

David var með áverka í andliti og hálsi.

 

 

 

 

 

 

 

Þegar Karina hafði verið flutt á brott spurði lögreglan David hvort fleiri væru í húsinu. Hann sagði að börn þeirra hjóna, 14 ára sonur og 10 ára dóttir, væru sofandi í herbergjum sínum á annarri hæð. Þau höfðu ekki vaknað við sírenuvæl né lætin í stofunni þegar reynt var að endurlífga Karina.

David sagði skýringuna á þessum djúpa svefni þeirra vera að hann hefði gefið þeim svefnlyf því þau hjónin hefðu viljað eiga huggulega kvöldstund án þess að vera trufluð af börnunum.

Útskýringar David á atburðarásinni voru svo ótrúverðugar að lögreglan gat ekki annað en handtekið hann, grunaðan um að hafa beitt Karina lífshættulegu ofbeldi. Hann neitaði sök og var fljótlega látinn laus gegn tryggingu.

Tveimur dögum síðar breytti lögreglan stöðu hans sem grunaðs úr því að vera grunaður um lífshættulegt ofbeldi, yfir í að vera grunaður um morð en þá hafði Karina látist á sjúkrahúsinu, hún hafði verið úrskurðuð heiladauð. Niðurstaða krufningar var að hún hefði verið kyrkt og að áverkarnir á höfði hennar gætu ekki verið eftir fall niður stigann.

Hún hafði verið beitt hrottalegu ofbeldi og var með margvíslega áverka um allan líkamann. Stóri blái marbletturinn á innanverðu hægra lærinu var líklega eftir spark eða högg.

David var kominn í slæma klípu sem honum tókst ekki að losa sig úr og skipti þá engu þótt hann réði nokkra af dýrustu lögmönnum Kaliforníu til að sjá um málið.

Hittust á veitingastað

Það sem gerðist þetta örlagaríka kvöld var algjör andstæða við það sem gerðist þegar David og Karina hittust í fyrsta sinn. Það var 18 árum áður í baðstrandarbænum La Paz í Mexíkó. Læknaneminn David hafði ekið þangað frá San Diego og ætlaði að vera þar í fríi í eina viku. Á fyrsta frídeginum sat hann utandyra á veitingastað og var að borða hádegismat þegar falleg tvítug mexíkósk kona settist við næsta borð og pantaði kaffi.

Hún hét Karina Benitez og talaði aðeins spænsku. Hann talaði bara ensku en þrátt fyrir þetta þá byrjuðu þau að tala saman og tókst ágætlega upp. Þau sátu saman í eina klukkustund en þá þurfti Karina að fara aftur í vinnu en hún  starfaði á snyrtistofu móður sinnar. Þau ákváðu að hittast aftur um kvöldið.

Silvia Benitez, móðir Karina, man vel eftir deginum sem dóttir hennar hitti myndarlega Bandaríkjamanninn. Hann virðist hafa verið táknmynd draumaprinsins sem Karina hafði dreymt um allt frá unglingsárunum. „Þetta var ást við fyrstu sýn. Karina var gjörbreytt þegar hún kom aftur á snyrtistofuna eftir hádegismatinn. Ég vissi að hana dreymdi um að kynnast Bandaríkjamanni og flytja til Bandaríkjanna. Því miður rættist sá draumur hennar,“ sagði Silvia.

Unga ástfangna parið hélt sambandi eftir að David sneri aftur til Bandaríkjanna. Mánuði síðar fór Karina til San Diego til að heimsækja hann. Hún sneri ekki aftur til Mexíkó nema til að heimsækja ættingja og fara í frí þar til lík hennar var flutt þangað og jarðsett í La Paz.

Karina og David á brúðkaupsdaginn.

 

 

 

 

 

Þau gengu í hjónaband ári eftir að þau kynntust og 1996 eignuðust þau son. Fjórum árum síðar fæddist þeim dóttir. Ekki var annað að sjá en fjölskyldan væri hamingjusöm, að minnsta kosti fyrstu árin.

David fékk vinnu við Kaliforníuháskóla í San Diego en Karina var heimavinnandi. Þau höfðu lítið á milli handanna en fyrstu árin yfirvann ástin öll vandamál þeirra. En 2008 var öll hleðsla að verða búin af ástarrafhlöðunum.

Hjónabandserfiðleikar

Það voru erfiðleikar í hjónabandinu og heima í Mexíkó fékk Silvia fjölda bréfa frá Karina þar sem hún skýrði frá sífellt óhamingjusamara hjónabandi sínu. Hún skrifaði að David stjórnaði öllu á heimilinu og að henni liði eins og þræl. Hann réði öllu, allt frá því hvaða skeið hún mátti nota til að borða súpu, til þess hvaða vinkonur hún mátti eiga. Hún fékk enga peninga og síma hennar hafði verið lokað til að hún gæti ekki hringt neitt en það var hægt að hringja í hana. Hún mátti ekki einu sinni hringja í móður sína á afmælisdaginn hennar til að óska henni til hamingju.

Hjónabandið varð sífellt erfiðara fyrir Karina. 2009 ákvað hún að fara að vinna í stórmarkaði til að fá sína eigin peninga en David var því mótfallinn. Hann sakaði hana um að hafa haldið framhjá og fyrir að sinna ekki börnunum eða heimilinu.

Í ágúst 2010 sendi Karina móður sinni bréf og sagðist vilja skilnað frá David. „Ég má ekki einu sinni ráða hverju ég klæðist. Hann ræður hvenær ég borða og hversu mikið vatn er sett á blómin. Ég get þetta ekki lengur,“ skrifaði hún.

Karina með börnum sínum.

 

 

 

 

 

Þetta hlaut að enda illa og það gerði það laugardaginn 12. mars 2011. David sagði lögreglunni að þau hjónin hefðu ætlað að eiga notalega kvöldstund saman þrátt fyrir hjónabandsvandræðin. „Við höfðum ákveðið að gefa hjónabandinu nýtt tækifæri,“ sagði hann.

Þau borðuðu kvöldmat með börnunum og síðan fór hann út á vídeóleigu og leigði uppáhaldsmynd Karina. Þau ætluðu að horfa á hana saman og borða poppkorn og drekka rauðvín. En þetta endaði með morði.

Dómurinn

David var ákærður fyrir að hafa myrt Karina og það tók kviðdóm tæpar fjórar klukkustundir að komast að þeirri niðurstöðu að hann hefði myrt hana. Hann var dæmdur í ævilangt fangelsi en getur sótt um reynslulausn eftir 25 ár eða árið 2037.

Börnunum var komið fyrir í fóstri hjá systur hans og eiginmanni hennar þrátt fyrir að Silvia hafi gert kröfu um forræði yfir þeim.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Fundu nestisbox frá 1951 í kjallaranum– Innihaldið kom þeim mjög á óvart

Fundu nestisbox frá 1951 í kjallaranum– Innihaldið kom þeim mjög á óvart
Pressan
Fyrir 2 dögum

Undir sama þaki – Bærinn þar sem allir búa í sömu blokkinni

Undir sama þaki – Bærinn þar sem allir búa í sömu blokkinni