Veiran hefur fengið nafnið „Wetland veiran“ (WELV). Hún uppgötvaðist fyrst í sjúklingi á sjúkrahúsi í Jinzhou í júní 2019. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem hefur verið birt í vísindaritinu The New England Journal of Medicine.
Sjúklingurinn, sem var 61 árs, var með hita, höfuðverk og uppköst í um fimm daga eftir að hafa verið á stóru votlendissvæði í Innri Mongólíu. Hann sagðist hafa verið bitinn af mítli þar. Sýklalyf höfðu engin áhrif á sjúkdómseinkennin en það benti til að ekki væri um bakteríusýkingu að ræða.
Rannsókn á DNA og RNA í blóði mannsins leiddi í ljós að hann var með áður óþekkta orthonairo-veiru en þetta eru skyldar veirur sem geta borist með mítlum.
WELV hafði ekki fundist í dýrum eða fólki áður. Eftir að veiran uppgötvaðist fóru vísindamenn að leita að henni í mítlum og dýrum í norðurhluta Kína, þar á meðal í votlendinu sem maðurinn hafði heimsótt.
Um 14.600 mítlar voru fangaðir og flokkaðir eftir staðsetningu og tegund og þannig skipt í hópa. Í rúmlega 2% af þessum hópum fannst WELV. Veiran fannst einnig í kindum, hrossum og svínum og nokkrum nagdýrum.
Einnig var leitað að veirunni í blóði fólks og fannst hún í um þrjátíu manns.