Hún heitir Jennifer Jacobs og var einn af helstu blaðamönnum Bloomberg. The New York Times segir að hún hafi brotið ákvæði eitt og að það hefði getað stefnt nýlegum fangaskiptum Rússlands og Vesturlanda í hættu.
Jacobs var í miklum metum hjá Donald Trump en eitt sinn þegar hann úthúðaði blaðamönnum CNN og The New York Times og sagði þá „ófyrirleitna“, „vonlausa“ og „þriðja flokks“ sagði hann Jacobs vera „Jennifer mína“.
Þetta gerðist þegar Trump var forseti og Jacobs var fréttamaður Bloomberg í Hvíta húsinu.
Hún var rekin úr starfi eftir að yfirstjórn Bloomberg tilkynnti að hún hefði brotið reglur miðilsins með því að birta frétt of snemma. Það var fyrrgreind frétt um fangaskipti Rússlands og Vesturlanda.
Jacobs birti hana nokkrum klukkustundum áður en fangaskiptin fóru fram og hefði þetta getað stefnt fangaskiptunum í voða að mati sérfræðinga sem The New York Times ræddi við.
Yfirvöld höfðu sett ákvæði um að ekki mætti birta fréttina fyrr en fangaskiptin hefðu farið fram.
Jacobs tjáði sig um brottreksturinn á samfélagsmiðlinum X og sagðist ekki hafa vitað að hún væri að brjóta þetta ákvæði þegar hún skrifaði fréttina.