Niðurstaða dómstólsins var að hún hefði með köldu blóði myrt sjö kornabörn og reynt að myrða sex til viðbótar á fyrirburadeild sjúkrahúss í Chester þar sem hún starfaði.
En 13.000 orða grein í bandaríska tímaritinu The New Yorker hefur vakið upp spurningu um hvort Lucy hafi í raun myrt börnin.
Það er ekki einfalt mál fyrir Breta að lesa greinina því The New Yorker hefur lokað fyrir aðgang breskra lesenda og ástæðan er skýr: „Úps, við biðjumst afsökunar. Þetta er næstum alveg örugglega ekki síðan sem þú ert að leita að,“ er það sem blasir við Bretum sem reyna að komast inn á hana. The New York Times skýrir frá þessu.
Upphafið
Málið gegn Lucy hófst 2017 þegar lögreglan byrjaði að rannsaka það í kjölfar tilkynningar um óeðlilegan fjölda dauðsfalla á fyrirburadeildinni frá sumrinu 2015 fram á sumar 2016.
Það eina sem tengdi andlátin saman var að Lucy var á vakt þegar börnin létust.
Hún var handtekin 2018 og við leit á heimili hennar fannst miði sem á stóð: „Ég er vond, ég gerði þetta.“
Hún sagðist hafa skrifað þetta á erfiðum tíma í lífi sínu því hún hafði verið flutt úr starfinu á fyrirburadeildinni í skrifstofustarf.
Hún sagðist hafa talið að þetta væri vegna þess að hún væri ekki hæf til að gegna starfi hjúkrunarfræðings og hefði gert eitthvað sem hefði orðið börnunum að bana. Því hafi hún talið sig vera vonda manneskju. The Mirror skýrir frá þessu. En hún sagðist ekki hafa gert þetta viljandi.
Ákæra var gefin út á hendur henni 2020.
Lucy var fordæmd af fjölmiðlum, stjórnmálamönnum og almenningi og var meðal annars kölluð „Engill dauðans“.
En hún hélt fram sakleysi sínu og sagði að ákveðnir læknar á deildinni hafi gert hana að blóraböggli.
En þetta hafði engin áhrif á dómarann sem sagði illsku hennar „vera nærri því að vera sadismi“.
Fordæmalaust
Greinin í The New Yorker er skrifuð af blaðamanninum Rachel Aviv sem segist hafa fengið áhuga á málinu því svo virðist sem málatilbúnaðurinn hafi verið „veikburða“ og það hafi aðeins verið „sannfæring um að börnin hefðu ekki getað dáið fyrir tilviljun“ sem hafi knúið málareksturinn áfram.
„Mér brá þegar hún var sakfelld,“ sagði hún í samtali við fréttabréf The New Yorker.
Á grunni rúmlega 7.000 blaðsíðna dómskjala, sem innihalda yfirheyrslur og textaskilaboð auk minnisblaða frá sjúkrahúsinu og samtala við heimildarmenn skrifar Aviv að „mikilvægar spurningar um sönnunargögnin hafi verið hunsaðar vegna þess hversu mikið lá á að fá dómsniðurstöðu“.
Aviv segir að fáir virðist hafa tekið eftir því að Lucy hafi virst vera glöð og andlega heil og hafi samstarfsfólk hennar litið upp til hennar vegna þess hversu vel hún hugsaði um sjúklingana.
Hún vitnar í lögreglumann, sem stýrði rannsókninni, að „það er algjörlega fordæmalaust að það virðist ekki vera neitt sem getur skýrt af hverju Lucy vildi drepa börnin“.
Einhliða umfjöllun
Ástæðuna fyrir að ekki er hægt að lesa greinina í Bretlandi má rekja til laga frá 1981. Lögin banna birtingu greina eða athugasemda sem geta haft áhrif á niðurstöður dómara í yfirstandandi réttarhöldum. Brot gegn lögunum getur varðað sektum eða fangelsisvist.
Þetta bann féll úr gildi þegar dómurinn yfir Lucy var kveðinn upp en tók aftur gildi mánuði síðar þegar ákæruvaldið tilkynnti að það myndi gefa út nýja ákæru vegna eins morðs sem Lucy var ekki sakfelld fyrir.
Réttarhöldin í því máli hefjast í júní.
Lucy hefur sjálf sótt um heimild til að áfrýja dómnum og bíður nú niðurstöðu um hvort hún fái að gera það.
Í grein sinni gagnrýnir Aviv þessi lög og segir að þau hafi haft í för með sér að umfjöllunin um málið hafi verið mjög einhliða. Gríðarlegur fjöldi greina um málið hafi verið birtur og með fáum undantekningum hafi Lucy verið lýst holdtekningu illskunnar. Það hafi nánast verið eins og lögin hafi tryggt að útgáfa ákæruvaldsins af málinu hafi fengið að vaxa óhindrað án þess að önnur sjónarmið kæmust að.