Kony, sem er eftirlýstur af Alþjóðastríðsglæpadómstólnum, er talinn ábyrgur fyrir nauðgunum, morðum og limlestingum auk þess sem talið er að samtök hans hafi rænt hátt í 70 þúsund börnum á rúmum 30 árum. Markmið Kony var upphaflega að ná völdum í Úganda og gera það að einskonar klerkaríki. Í fyrstu hélt Freilsisher drottins til í norðurhluta Úganda en hópar samtakanna halda einnig til í Súdan, Mið-Afríkulýðveldinu og Kongó.
Þó að leit að Kony hafi engan árangur borið á síðustu árum eru menn ekki búnir að leggja árar í bát. Rolling Stone-tímaritið greinir frá því að málaliðar Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta í hinum svokallaða Wagner-hópi reyni nú allt hvað þeir geta að finna hann og hafi komist býsna nálægt því fyrr í þessum mánuði.
„Bandaríkjamenn hafa verið nálægt því að ná honum en Wagner virðist hafa komist enn nær,“ segir heimildarmaður Rolling Stone sem þekkir vel til leitarinnar að stríðsherranum.
Í umfjöllun Rolling Stone kemur fram að í lok mars hafi fjórtán einstaklingar úr röðum LRA hafi gefið sig fram við hóp manna sem þóttust vera fulltrúar stjórnvalda í Mið-Afríkulýðveldinu. Mennirnir voru í raun og veru hluti af uppreisnarhópi frá Afríkuríkinu Tsjad og í samstarfi með fulltrúum Wagner-hópsins.
Eftir að hafa handtekið mennina gerði hópurinn áhlaup á þorpið Yemen þar sem Kony hefur haldið til. Menn hliðhollir honum tóku á móti hópnum með skotvopnum og létust nokkrir í skotbardaga sem braust út. Wagner-hópurinn virðist hafa lagt mikla vinnu í að handsama Kony því tvær þyrlur voru meðal annars notaðar í aðgerðinni.
En ekki tókst Wagner-hópnum að handsama Kony í þessari aðgerð og er hann talinn hafa flúið áleiðis til Súdans. Í aðgerðunum tókst Wagner-hópnum að frelsa fjölmörg börn sem haldið hafði verið af liðsmönnum LRA árum saman. Líklegt þykir að Wagner-hópurinn reyni aftur að handsama Kony sem er orðinn 63 ára gamall.