Í bókinni segist Kristi hafa skotið hundinn sinn, hinn fjórtán mánaða gamla Cricket, vegna árásargirni hans. Kristi hugðist nota Cricket sem veiðihund á búgarði sínum en sagði hann hafa verið óalandi. Eftir að hann reyndi ítrekað að bíta fólk hafi hún ákveðið að nú væri komið gott.
Eftir að fjallað var um þennan kafla bókarinnar í bandarískum fjölmiðlum um helgina fékk Kristi yfir sig holskeflu af gagnrýni. Á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, naut myllumerkið #puppykiller talsverðra vinsælda um helgina í tengslum við málið.
Colleen O‘Brien, fjölmiðlafulltrúi PETA-dýraverndunarsamtakanna, gagnrýnir Noem fyrir að hafa ætlað sér að þjálfa Cricket til að ráðast á önnur dýr en síðan refsað honum grimmilega fyrir að ráðast á fólk. Hún hefði mögulega getað lagt meiri áherslu á þjálfun hundsins eða reynt að koma honum fyrir hjá einhverjum sem hafði tíma og kunnáttu til að eiga við hann.
Kristi varði þessa ákvörðun sína á samfélagsmiðlinum Truth Social um helgina. Sagðist hún hafa sýnt af sér ábyrga hegðun þar sem hundurinn hefði ráðist að fólki.
„Eins og ég útskýrði í bókinni var þetta ekki auðveld ákvörðun. En það er stundum þannig að auðvelda leiðin er ekki sú rétta.“
Kristi Noem hefur verið ríkisstjóri Suður-Dakóta frá árinu 2018. Nafn hennar hefur komið upp í tengslum við umræðuna um varaforsetaefni Donalds Trumps nái hann kjöri í forsetakosningunum síðar á þessu ári.