Í rannsókn, sem var birt nýlega í vísindaritinu Royal Society Open Science, báru vísindamenn saman tvo flokka háhyrninga (Orcinus orca), resident háhyrningar og Bigg‘s háhyrningar, og tóku eftir fjölda atriða sem eru ólík á milli hópanna.
Til dæmis eru resident háhyrningar með ávalari ugga og eru þekktir fyrir að halda sig í þéttum hópum sem veiða lax og aðrar fisktegundir.
Uggarnir á Bigg‘s háhyrningum eru oddmjórri og beinni. Þeir halda sig í minni hópum en resident háhyrningar og veiða aðallega stærri bráð, til dæmis seli og aðrar hvalategundir.
Bigg‘s háhyrningar eru nefndir eftir kanadíska vísindamanninum Michael Bigg sem var fyrstur til að skýra frá muninum á þessum tveimur hópum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá National Oceanic and Atmospheric Administration (NOAA).
En hóparnir eru ekki bara ólíkir hvað varðar hegðun og mataræði því gögn um erfðafræði þeirra, sem hefur verið safnað áratugum saman, sýna að líklega hafi háhyrningategundirnar „sagt skilið við hver aðra“ fyrir um 300.000 árum og séu á sitt hvorum enda ættartrés háhyrninga.
Scientific American hefur eftir Phillip Morin, hjá NOAA, út frá þeim gögnum sem nú liggja fyrir sé ljóst að um tvær tegundir háhyrninga sé að ræða og að þrátt fyrir að þær haldi sig á sömu slóðum þá hafi þær aldrei blandast. Dýr hafi ekki makast á milli tegunda þrátt fyrir að þau geti það þar sem þau halda sig á svipuðum slóðum.