Ferðamaður lét lífið í Indónesíu um helgina eftir að hafa fallið um 80 metra ofan í virkt eldfjall. Hin kínverska Huang Lihong, sem var 31 árs gömul, stillti sér upp fyrir myndatöku við frægan gíg á Ijen-hásléttunni á eyjunni Jövu um helgina. Eiginmaður hennar tók myndina sem fylgir fréttinni en andartökum síðar skrikaði Lihong fótur og féll til bana ofan í gíginn sem er fullur af túrkísbláu vatni. Eldfjallið er virkt en síðustu umbrot þar áttu sér stað árið 1999.
Ijen-hásléttan er afar vinsælt ferðamannasvæði og voru hjónin í ferð ásamt leiðsögumanni árla morguns til að upplifa sólarupprásina sem þykir mikið sjónarspil.
Aðstæður voru erfiðar á slysstað en alls tók það viðbragðsaðila um tvær klukkustundir að komast að Lihong en þá var hún látin.