Ekki er um neina smáaura að ræða en 1,76 milljarðar dollara jafngilda rúmlega 240 milljörðum króna. Eitthvað minna situr eftir þegar búið er að gera ráð fyrir sköttum en í stóra samhenginu ætti það að breyta litlu.
Lögum samkvæmt þarf að gefa upp nöfn lottóvinningshafa og það er eitthvað sem nágrannar Theo eru óhressir með. Theo er búsettur í Frazier Park, rúmlega tvö þúsund íbúa fjallabæ í Kaliforníu, og segist Kevin Woten, nágranni Theo, óttast að óprúttnir aðilar muni koma í bæinn í leit að milljarðamæringnum.
„Við höfum auga með honum en höfum auðvitað áhyggjur af þeim sem svífast einskis. Ég hef áhyggjur af því að einhver komi, skelli poka yfir hausinn á honum og ræni honum. Ég vona að hann hugi að öryggisgæslu. Hann verður að gera það,“ segir hann við bandarísku útgáfu The Sun og bætir við:
„Ég myndi ekki vilja að nafn mitt yrði gert opinbert, en núna er hann með stóra skotskífu á bakinu.“
Annar íbúi í bænum, Dan Perry, segir að það væri óskandi ef Theo myndi fjárfesta í bænum sem hann býr í. „Þessi bær þarf alla þá aðstoð sem hann getur fengið. Þetta er einn af þessum bæjum sem hefur orðið út undan og efnahagurinn hefur verið á niðurleið mörg undanfarin ár.“
Dan segir þó að ef hann væri í sporum Theo myndi hann hypja sig á brott. Theo hefur ekki sést í bænum síðan hann var opinberaður sem sigurvegarinn á dögunum en talið er að hann haldi sig í San Diego þessa dagana þar sem hann er í heimsókn hjá ættingjum sínum.
„Auðvitað væri frábært ef hann myndi opna fyrirtæki hérna eða eitthvað slíkt, en í hans sporum myndi ég kaupa mér snoturt hús í Santa Barbara eða eitthvað.“