Það vakti athygli í morgun þegar mennirnir fjórir voru leiddir fyrir dómara, en allir voru þeir bólgnir og bláir í andliti og báru þess merki að hafa sætt barsmíðum. Einn var að auki hálf meðvitundarlítill í hjólastól og gat hann ekki svarað til saka þegar dómari spurði hann.
Einn mannanna var með stærðarinnar umbúðir fyrir öðru eyranu og miðað við myndbandið sem birtist fyrst á Telegram þarf það ekki að koma á óvart. Í umfjöllun Daily Mail kemur fram að á myndbandinu sjáist þegar lögreglumaður, eða fulltrúi FSB, sker af honum hluta af eyranu og treður því upp í hann.
Bólgnir, bláir og einn í hjólastól – Grunaðir hryðjuverkamenn dregnir fyrir dóm
Í umfjöllun Daily Mail kemur fram að ekki sé hægt að birta myndbandið vegna þess hversu grafískt það er.
Talið er að maðurinn í myndbandinu sé Saidakrami Murodalii Rachabalizoda en mennirnir sem um ræðir eru allir liðsmenn ISIS-K og ríkisborgarar Tadsjíkistan. Saidakrami var handtekinn eftir að hafa reynt að flýja undan lögreglu á hlaupum í skóglendi – líklega í nágrenni Moskvu – á laugardag.
Á myndbandinu sést þegar laganna verðir slá til hans og hóta því að láta lögregluhunda ráðast á hann.
Mennirnir virðast hafa sætt svívirðilegu ofbeldi í haldi rússnesku lögreglunnar um helgina. Annað myndband sýndi ofbeldi sem Shamsuddin Fariddun, einn hinna fjögurra, sætti en á því sést hann liggja froðufellandi á gólfinu með girt niður um sig og víra bundna um nárasvæðið sem eru svo tengdir í rafmagn.
Dmitry Peskov, talsmaður yfirvalda í Kreml, var spurður að því á blaðamannafundi í morgun hvort fjórmenningarnir hefðu sætt pyntingum. „Ég ætla ekki að svara þeirri spurningu,“ var svar Peskovs.
Vart þarf að taka fram að litið er á pyntingar sem brot á mannréttindum og eru þær til dæmis fordæmdar í 5. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.
Í umfjöllun Daily Mail er tekið fram að svo virðist sem myndböndunum hafi verið lekið út vísvitandi því þau birtust á Telegram-síðum sem eru hallar undir rússnesku öryggislögregluna.
Það sem við vitum um samtökin alræmdu sem frömdu voðaverkið í Moskvu