Live Science skýrir frá þessu og segir að þjóðgarðsverðir klóri sér í höfðinu yfir vatninu og furði sig á hvernig standi á því að það hafi verið til staðar í rúmt hálft ár. Ekki er vitað til þess að vatn hafi áður verið til staðar á þessu svæði svona lengi.
Nýlega gerðist sá óvenjulegi atburður að það rigndi á svæðinu og það mun væntanlega hafa þau áhrif að líftími vatnsins lengist enn frekar, eða um nokkra mánuði til viðbótar.
Dældin, sem vatnið er í, er 86 metra undir sjávarmáli og er lægsti punkturinn í Norður-Ameríku. Þar er venjulega þurr og rykug eyðimörk. Yfirleitt er dældin þakin kristölluðu salti og öðru hvoru myndast pollar með eitruðu vatni sem kemur upp frá uppsprettum neðanjarðar. En þegar það rignir mikið myndast stöðuvatn í botni dældarinnar.
Venjulega „lifa“ þessi stöðuvötn aðeins í nokkrar vikur vegna hins mikla hita í Death Valley en hann gerir að verkum að vatn gufar hraðar upp en nýtt vatn rennur í stöðuvatnið.