CNN segir að svæðið, sem grafið er á, sé í miðborg Nürnberg en þar á að byggja íbúðarhúsnæði og af þeim sökum var fornleifauppgröfturinn settur í gang.
Melani Langbein, hjá menningararfsdeild borgarinnar, sagði í samtali við CNN að átta fjöldagrafir hafi fundist og séu mörg hundruð beinagrindur í þeim.
Í sögulegu samhengi er óvenjulegt að svo margt fólk hafi verið grafið samtímis og að engin kirkjuleg athöfn hafi farið fram í tengslum við jarðsetninguna.
Langbein sagði að líklega sé ástæðan fyrir þessu að faraldur hafi gengið yfir. Grafa hafi þurft mjög marga á mjög skömmum tíma og víkja hafi þurft frá kristnum útfararsiðum.
Pestarfaraldrar gengu yfir Nürnberg á um tíu ára fresti frá því á fimmtándu öld og í nokkrar aldir eftir það.
Julian Decker, sem stýrir uppgreftrinum, sagði í samtali við CNN að hann telji ekki útilokað að það séu 2.000 eða fleiri beinagrindur í gröfinni og að þetta sé líklega stærsta fjöldagröfin af þessu tagi í Evrópu.
Fyrstu rannsóknir benda til að fólkið hafi verið jarðsett á tímabilinu frá því í lok fimmtándu aldar og þar til í byrjun þeirrar sautjándu.