Sky News skýrir frá þessu og segir að Mohammad Khalid Hanafi, ráðherra siðferðismála, hafi tekið þessa ákvörðun í kjölfar heimsóknar hans í þjóðgarðinum. Hann sagði að konur, sem voru í þjóðgarðinum, hafi ekki klæðst hijab á réttan hátt og því verði þeim meinaður aðgangur að honum í framtíðinni.
Hann tilkynnti embættismönnum og trúarleiðtogum um þetta og sagði: „Skoðunarferðir eru ekki eitthvað sem konur hafa þörf fyrir.“
Þetta er enn ein frelsisskerðingin sem konur verða fyrir af hálfu Talibana síðan þeir komust aftur til valda í ágúst 2021, 20 árum eftir að Bandaríkjamenn hröktu þá frá völdum.