Erika Chenais, yfirdýralæknir, sagði að mjög harðar sóttvarnaaðgerðir verði við lýði og að fólk á svæðinu muni finna fyrir þeim. Aðgerðirnar gilda fyrir 800 ferkílómetra svæði suðaustan við bæinn Fagersta sem er um 140 km norðvestan við Stokkhólm.
Að minnsta kosti sjö villisvín hafa drepist af völdum pestarinnar.
Sóttvarnaaðgerðirnar þýða að bann er lagt við sveppatínslu og elgveiðum á svæðinu. Á sumum stöðum er atvinnustarfsemi bönnuð og á öðrum er fólki algjörlega óheimilt að halda sig.
Þetta er í fyrsta sinn sem afrísk svínapest greinist í dauðu villisvíni í Svíþjóð.