Fjölskyldan er frá Víetnam. Foreldrarnir ráku veitingastað í Bad Schwartau nærri Lübeck. Það var þar sem fjölskyldufaðirinn myrti eiginkonu sína fyrir framan börnin fjögur.
Hann er faðir yngstu barnanna tveggja, sem eru 3 og 4 ára, og stjúpfaðir 8 ára drengs og 12 ára stúlku. Hann var dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir morðið.
Samkvæmt ákvörðun yfirvalda á að senda börnin til Víetnam. SHZ skýrir frá þessu og hefur eftir Timo Gaarz, æðsta embættismanninum í Bad Schwartau, að búið sé að fara vel í gegnum málið og niðurstaðan sé að það þjóni hagsmunum barnanna best að leyfa þeim að alast upp hjá ættingjum sínum í Víetnam, í þarlendri menningu og tungumálaumhverfi.
Börnin fjögur eru nú í umsjá fósturfjölskyldna í Bad Schwartau, nærri hvert öðru. Það er kannski engin furða að fósturfjölskyldunum er illa brugðið vegna málsins. „Börnin hafa alist upp hér og tala ekki eitt orð í víetnömsku. Það á að koma þeim fyrir hjá ókunnugu fólki í framandi menningarheimi,“ sagði Gabi Roks, fósturmóðir átta ára drengsins.
Fósturfjölskyldurnar hafa hrundið undirskriftasöfnun af stað til að reyna að hafa áhrif á ákvörðun yfirvalda. Nú þegar hafa tugir þúsunda skrifað undir hana.