Starfsmanni hjá Goodwill í Arizona í Bandaríkjunum brá í brún þegar hann opnaði kassa sem borist hafði til fyrirtækisins, en Goodwill má líkja við Góða hirðinn hérlendis, þar sem fólk gefur ýmsa muni sem það hefur ekki lengur þörf fyrir.
Í kassanum sem kom til Goodwill síðastliðinn þriðjudag var höfuðkúpa með fölsku auga. Starfsmenn hringdu á lögregluna sem brást skjótt við og hafa fyrstu niðurstöður réttarlæknis staðfest að höfuðkúpan er af manni. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni fannst höfuðkúpan við yfirferð kassa inn á lager og var kassinn ekki kominn inn á sölugólf verslunarinnar.
Talið er að kassinn sem höfuðkúpan kom í hafi verið gefinn síðastliðna helgi. Lögreglumenn sem brugðust við útkallinu voru sammála um það á vettvangi að höfuðkúpan væri af einstaklingi og var hún síðan flutt til rannsóknarstofu Maricopa-sýslu til frekara mats.
„Fyrstu niðurstöður læknisins staðfesta“ að höfuðkúpan tilheyrði manni og að hún „virðist vera gömul,“ segir í tilkynningu lögreglunnar. Ekki er talið að neitt saknæmt hafi átt sér stað og höfuðkúpan mun ekki hafa neitt réttarfræðilegt gildi.
Rannsókn á höfuðkúpunni stendur yfir.
A Goodwill manager @ the Sarival & Yuma location reported finding what appeared to be a human skull in a donation box. GYPD transported it to the OME for investigation. Their initial findings confirm it is human & appears to be historic. It doesn’t appear to be linked to a crime. pic.twitter.com/nhNw7D9FZA
— Goodyear Police Dept (@Goodyearpolice) September 6, 2023