The Guardian skýrir frá þessu og segir að málið hafi snúist um leigjendur og leigusala í góðu hverfi í Frankfurt. Meðal leigjenda var fyrirtæki, ráðningarskrifstofa. Stjórnendur hennar greiddu ekki umsamda leigu og báru því við að það væri vegna þess að leigusalinn hafi verið nakinn í sólbaði í garðinum. Leigusalinn var ekki sáttur við að fá leiguna ekki greidda og stefndi fyrirtækinu fyrir dóm.
Dómstóllinn féllst ekki á rök fyrirtækisins og sagði að það að húseigandinn hafi sólað sig nakinn í garðinum hafi ekki skert notkunarmöguleika hússins.
Í dómsorði kemur einnig fram að staðurinn, þar sem húseigandinn lá í sólbaði, sjáist aðeins frá skrifstofunni með því að fólk halli sér langt út um gluggann. Einnig kemur fram að fyrirtækinu hafi ekki tekist að sanna að maðurinn hafi gengið nakinn um sameign hússins enda hafi hann sagt að hann væri alltaf í náttslopp á leið sinni til og frá sólbaði.