Niðurstöður nýrrar könnunar á vegum U.S. News & World Report sýna að rúmlega 20% Bandaríkjamanna segjast „sjaldan eða aldrei“ vakna úthvíldir. Könnunin varpar einnig ljósi á þau fimm áhyggjuefni sem trufla svefn þeirra.
Mestar áhyggjur hafa Bandaríkjamenn að hækkandi framfærslukostnaði, því næst er það heimsfaraldur kórónuveirunnar, í þriðja sæti eru ofbeldisverk framin með skotvopnum, loftslagsbreytingarnar eru í fjórða sæti og forsetakosningarnar 2024 eru í fimmta sæti.
Niðurstöðurnar eru nánast þær sömu og á síðasta ári nema hvað þá var stríðið í Úkraínu í fimmta sæti. Könnunin var gerð áður en stríð Ísraels og Hamas hófst.
Eins og flestir vita þá eru kaffi og áfengi eitthvað sem hefur neikvæð áhrif á svefninni og það sama má segja um skjánotkun. Þetta er því eitthvað sem er rétt að forðast.
En snúum okkur þá að „norrænu“ aðferðinni sem sífellt fleiri Bandaríkjamenn eru farnir að leita í til að fá betri svefn. Á Norðurlöndunum er algengast að hjón/pör sofi með sitt hvora sængina en í Bandaríkjunum hefur það verið venjan að hjón/pör sofa með eina sæng.
59% Bandaríkjamanna sofa undir sömu sæng og makinn en þeim fer fjölgandi sem kjósa að sofa undir sinni eigin sæng og er hlutfallið 41%.
„Danir, Íslendingar og svo framvegis kjósa að sofa með sína eigin sæng í stað þess að vera með eina til að togast á um,“ sagði Haniya Rae, ritstjóri hjá U.S. News & World Report, í samtali við Fox News um þessa nýju svefnvenju Bandaríkjamanna og bætti við að þetta þýði að fólk geti verið sitt eigið svefnsvæði í sama rúmi án þess að þurfa að berjast um sömu sængina.
Hún benti einnig á að þessi aðferð geti haft margvísleg góð áhrif á svefngæðin og almenna vellíðan fólks. Með því að hver og einn stjórni sínum eigin hita og velji sængurfatnað, sem uppfyllir óskir og þarfir viðkomandi, sé hægt að draga mjög úr svefntruflunum og auka þægindin. Betri svefn geti síðan dregið úr stressi og bætt samband fólks.