„Gefðu þig fram og stattu fyrir máli þínu,“ er ákall móður til barnsföður síns í kjölfar þess að 10 ára stúlka fannst látin á heimili sínu á Englandi fyrr í mánuðinum.
Tilkynnt var um lát stúlkunnar þann 10. ágúst og einkenndust upplýsingar lögreglu í fyrstu af sparsemi. Greint var frá því að 10 ára stúlka hefði fundist látin á heimili við Hammond Road í Surrey-sýslu í suðvesturhluta Englands. Kom fram að dauði barnsins væri rannsakaður sem hugsanlegt morð og lögregla hefði áhuga á að ræða við þrjár manneskjur.
Síðan hefur myndin skýrst mikið. Meðal fjölmiðla sem fjalla um málið eru Metro og The Sun. Stúlkan hét Sara Sharif og átti pakistanskan föður en pólska móður, Olgu. Stúlkan bjó á heimili föður síns en móðirin var með umgengnis- og heimsóknarrétt.
Er lögregla hóf rannsókn sína kom fljótt í ljós að annað fólk búsett í húsinu hafði farið úr landi og flogið til Pakistan. Þetta eru þau Urfan Sharif, faðir Söru, Beinash Batool, unnusta Urfans, og bræður hans, Faisal Mali og Imran Sharif. Sá síðastnefndi hefur verið handtekinn í Pakistan og tjáð lögreglu að Sara litla hafi látist er hún féll niður stiga. Hitt fólkið er ófundið. Það flækir stöðuna að ekki er í gildi samningur um framsal sakamanna milli Englands og Pakistan. Lögregluyfirvöld á Englandi leggja samt allt kapp á að hafa hendur í hári fólksins og leysa málið í samvinnu við lögreglu í Pakistan.
Olga segir að sú skýring að Sara hafi látist af slysförum sé fráleit. Hvers vegna flúði fólkið þá land? spyr hún. Hún bendir á að það að yfirgefa landið sé ekki skyndiákvörðun sem taki nokkrar mínútur heldur þurfi undirbúning.
Hún skorar á barnsföður sinn að gefa sig fram. „Gefðu þig fram og stattu fyrir máli þínu,“ segir hún. „Það eru svo margar spurninga og engin svör,“ segir hin 36 ára gamla, harmi slegna móður, og ennfremur: „Hún var svo falleg. Ég get ekki trúað því að hún sé dáin.“
Krufning á líki Söru leiddi ekki í ljós dánarorsök hennar með óyggjandi hætti. Hins vegar komu í ljós margir áverkar sem hún virðist hafa hlotið á löngum tíma. Lögreglan í Surray hefur ennfremur gefið upp að hún hafi áður haft afskipti af Urfan, föður stúlkunnar, en hefur ekki viljað upplýsa í hvaða samhengi það var.