Þegar matvæli eru sett í ísskáp þá lækkar hitinn í þeim og þannig er hægt að lengja „líftíma“ þeirra og koma í veg fyrir að bakteríur hreiðri um sig. En í sumum tilfellum getur það einnig breytt áferð þeirra og bragði til hins verra.
Á vef Lifehacker var nýlega fjallað um nokkur matvæli sem á ekki að geyma í ísskáp.
Tómatar eru þar á meðal. Ef þeir eru kældir þá getur það dregið úr bragðinu. Ástæðan er að þegar þeir eru kældir þá gerist svolítið inni í þeim sem gerir að verkum að sætt bragð þeirra og lokkandi ilmurinn hverfa. Tómatar innihalda einnig ákveðið ensím sem þolir kulda illa og gerir tómata mjúka, of mjúka.
Kartöflur eiga helst að vera í kulda, myrkri og þurrum stað. En ísskápurinn er aðeins of kaldur. Það er sterkja í kartöflum sem verður að sykri ef þær verða of kaldar. Það gerir kartöflurnar dökkar og bragðið breytist sem og áferðin. Þess vegna er best að geyma kartöflur í búrinu eða eldhússkáp.
Laukur getur þolað viku í ísskáp ef hann er niðurskorinn. En heill laukur á ekki að fara inn í ísskápinn því hann getur dregið raka í sig og þá verður hann mjúkur. Kuldinn breytir sterkjunni í lauk í sykur sem gerir hann enn mýkri.
Lárperur á ekki að geyma í ísskáp því kuldinn getur bremsað þroskaferil þeirra. Best er að geyma þær við stofuhita þar til þær eru fullþroska. Þegar þær hafa náð hinum fullkomna græna lit og mjúkleika á að geyma þær í ísskáp til að stöðva þroskaferilinn. Það er líka hægt að setja þær í vatn til að stöðva þroskaferilinn.
Hvítlaukur er eins og laukur ekki eitthvað sem á að geyma í ísskáp. Rakinn í loftinu getur orðið til þess að hann spíri og áferð hans breytist. Það er þó hægt að geyma niðurskorinn hvítlauk í ísskáp og hvítlauk sem er búið að taka utan af. Ekki er mælt með að hann sé geymdur lengur en í tvo daga.