Breski vegabréfaframleiðandinn De La Rue verður að segja 170 starfsmönnum upp eftir að fransk/hollenska fyrirtækið Thales náði samningum við breska ríkið um framleiðslu 50 milljóna vegabréfa. Þau verða prentuð í Póllandi. Það hefur verið Boris Johnson, forsætisráðherra, og fleiri stuðningsmönnum Brexit mikið kappsmál að fá aftur blátt vegabréf í staðinn fyrir dökkrautt vegabréf ríkisborgara aðildarríkja ESB.
Það er sem sagt fyrirtæki í ESB sem mun sjá um framleiðslu vegabréfanna og þessu hafa margir skemmt sér vel yfir á netinu enda var ein af grunnhugmyndunum á bak við Brexit að Bretar tækju aftur yfir stjórnina á atvinnumarkaðnum í landinu og þyrftu ekki að leita út fyrir landsteinana.
Fjölmiðlafulltrúar ríkisstjórnarinnar birtu mynd af Boris Johnson þar sem hann heldur á bláa vegabréfinu og hafa netverjar skemmt sér konunglega yfir myndinni og því sem skrifað hefur verið um hana.
Til dæmis skrifaði einn Twitternotandi með ákveðinni kaldhæðni: „Boris Johnson á leið heim frá Póllandi þar sem hann sótti nýja vegabréfið sitt.“
@BorisJohnson flies back from Poland having picked up his new passport. pic.twitter.com/cv8kCy9dgH
— Doogs 🏴 (@Doogsta) February 22, 2020
Priti Patel, innanríkisráðherra, sagði að með því að taka aftur upp blátt og gult vegabréf tengist vegabréfið á nýjan leik bresku þjóðinni. The Times birti mynd af henni með vegabréfið.
„Það er mikil kaldhæðni að nýja bláa vegabréfið er framleitt í Póllandi af fransk/hollensku fyrirtæki og að breski vegabréfaframleiðandinn De La Rue á í vanda og þarf að fækka fólki. Ég man ekki eftir kosningaloforðinu ”Bresk störf fyrir pólska verkamenn” en hér birtist það.”
Skrifaði breski blaðamaðurinn Paul Lewis á Twitter.