Föstudagur 28.febrúar 2020
Pressan

Grænlendingar íhuga framtíð sína – Af hverju hafa stórveldin áhuga á landinu?

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 26. janúar 2020 22:00

Strjálbýlt en mikilvægt Vaxandi áhugi er á Grænlandi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Grænlendingar eru ekki vanir því að vera miðdepill heimsfréttanna en þeir komust svo sannarlega í kastljós heimspressunnar á síðasta ári þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti staðfesti fréttir um að hann vildi að Bandaríkin keyptu Grænland af Danmörku. Danska ríkisstjórnin var ekki lengi að svara og sagði að Grænland væri ekki til sölu. Upp úr þessu varð ákveðinn óróleiki í samskiptum Danmerkur og Bandaríkjanna. Trump var ósáttur við að Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, segði hugmyndina „fáránlega“ og sagði ummæli hennar vera „andstyggileg“. Hann virðist hafa orðið svo fúll út í Frederiksen og Dani almennt að hann hætti við fyrirhugaða heimsókn til Kaupmannahafnar í haust.

Danir hafa bent á að þeir geti ekki selt Grænland af þeirri einföldu ástæðu að þeir eigi landið ekki. Það sé sjálfstætt ríki sem sé í konungssambandi við Danmörku ásamt Færeyjum. Grænlendingar stýra sjálfir sínum innanríkismálum en Danir annast utanríkismál þeirra ásamt því að sinna landhelgisgæslu og vörnum landsins. Grænlendingar njóta milljarða fjárframlags frá Dönum árlega og eru háðir því enda er þjóðin fámenn en í gríðarlega stóru landi.

Fljótlega eftir að Danir slógu hugmyndir Trump algjörlega út af borðinu tilkynntu bandarísk stjórnvöld að þau myndu breyta stefnu sinni í málefnum Grænlands og hefðu í hyggju að auka veru sína á Grænlandi sem og áhrif. Stefnt er að opnun ræðismannsskrifstofu síðar á þessu ári. Það verður fyrsta ræðismannsskrifstofa Bandaríkjanna á Grænlandi síðan 1953. Ein bandarísk herstöð er á Grænlandi og hefur verið áratugum saman, hún er í Thule.

Kínverjar hafa einnig unnið að því að styrkja tengsl sín við Grænlendinga og hefur töluvert farið fyrir þeim á Grænlandi á undanförnum misserum. En af hverju hafa bæði Kínverjar og Bandaríkjamenn svona mikinn áhuga nágrönnum okkar á Grænlandi núna?

Ísilagt Landslagið á Grænlandi er engu líkt.

Nokkrar staðreyndir

Áður en reynt er að svara því er rétt að kíkja á nokkrar staðreyndir um Grænland. Landið er stærsta eyja heims að Ástralíu undanskilinni en Ástralía er yfirleitt flokkuð sem heimshálfa og telst því ekki vera eyja, þannig séð. Landfræðileg lega Grænlands gerir að verkum að þrír fjórðu hlutar landsins eru þaktir ís.

Um 56.000 manns búa á Grænlandi sem er strjálbýlasta land heims. Þriðjungur þjóðarinnar býr í Nuuk sem er höfuðstaður landsins. Til að komast á milli bæja þarf að ferðast flug- eða sjóleiðis því engir vegir liggja á milli bæja. Danir eignuðust Grænland 1814 en nú er landið sjálfstætt með eigin stjórn en er, eins og áður segir, í ríkjasambandi við Danmörku og sjá Danir um utanríkismál landsins sem og varnir. Grænlendingar eiga tvo fulltrúa á danska þinginu.

Efnahagslíf landsins byggist að mestu á fiskveiðum, sem standa undir 95% af útflutningstekjum landsins, og fyrrnefndum fjárframlögum frá Dönum en þau nema nú upphæð sem samsvarar um 75 milljörðum íslenskra króna. Það er helmingurinn af ráðstöfunarfé grænlenska ríkisins á ári.

Af hverju þessi áhugi á Grænlandi?

Fréttaskýrendur hafa bent á að tvær ástæður liggi aðallega að baki áhuga Bandaríkjanna og Kína á Grænlandi. Það eru efnahagslegar ástæður og herfræðilegar. Báðar ástæðurnar tengjast síðan loftslagsbreytingunum.

Hvað varðar efnahagslega þáttinn þá eru einar mestu auðlindir heims í formi ýmssa sjaldgæfra málma á Grænlandi. Þar má nefna néodým, praseódým, dysprósín og terbín. Þessir málmar eru í sífellt meira mæli notaðir við framleiðslu farsíma, tölva og rafmagnsbíla. Hvað varðar herfræðilega þáttinn þá skiptir Grænland, eins og Ísland, miklu máli vegna staðsetningar sinnar því það er á milli Norður-Ameríku, Evrópu og Rússlands.

Loftslagsbreytingarnar og hlýnandi veður þeim samhliða þýða að væntanlega verður auðveldara að vinna þessa málma úr jörðu og sigla um norðurslóðir, hvort sem það verða flutningaskip eða herskip.

BBC hefur eftir danska jarðfræðingnum Minik Rosing að á Grænlandi leynist enn fleiri fjársjóðir undir yfirborðinu. Þar sé einnig járn, rúbínar, gull og platínum. Loftslagsbreytingarnar muni síðan auðvelda siglingar til og frá landinu. Hann benti einnig á að langir heimskautavetur takmarki námuvinnslu á Grænlandi ansi mikið. Aðeins sé hægt að stunda hana á sumrin, í um þrjá mánuði. Það muni því líða langur tími frá því að verðmæti finnast í jörðu þar til viðunandi námuvinnsla komist í gang. Hann sagðist frekar telja áhuga Bandaríkjanna á Grænlandi tilkominn vegna sífellt vaxandi hernaðarlegs mikilvægis landsins vegna legu þess. Bandaríkjamenn vilji tryggja stöðu sína á Grænlandi þess vegna, málmarnir gegni því bara smávægilegu hlutverki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Pressan
Í gær

Morðingi handtekinn eftir 26 ár á flótta

Morðingi handtekinn eftir 26 ár á flótta
Pressan
Í gær

Fékk lán hjá frænku sinni og kom viðskiptaveldi á laggirnar – Sest nú í helgan stein

Fékk lán hjá frænku sinni og kom viðskiptaveldi á laggirnar – Sest nú í helgan stein
Fyrir 2 dögum

Félag ungra í skot- og stangveiði stofnað

Félag ungra í skot- og stangveiði stofnað
Pressan
Fyrir 2 dögum

Titringur á fjármálamörkuðum heims – „Næstu dagar skipta sköpum“

Titringur á fjármálamörkuðum heims – „Næstu dagar skipta sköpum“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Öfgahægrimenn styrkjast í Þýskalandi

Öfgahægrimenn styrkjast í Þýskalandi
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hrakti hvíthákarl á brott með því að berja hann

Hrakti hvíthákarl á brott með því að berja hann