fbpx
Laugardagur 05.júlí 2025
Fréttir

Ástþór í hatrömmum deilum við meintan svikahrapp vegna gluggaviðskipta – Skrautlegar ófrægingarherferðir á báða bóga

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 5. júlí 2025 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ástþór Magnússon, athafnamaður og ítrekaður forsetaframbjóðandi, stendur í hatrömmum deilum á Spáni þar sem þungar ásakanir ganga á víxl. Báðir deiluaðilar standa nú í opinberum ófrægingarherferðum, kæra hefur verið lögð fram hjá lögreglu og myndir hafa verið teknar úr launsátri svo dæmi séu tekin.

Gluggaviðskipti draka dilk á eftir sér

Málið varðar viðskipti með glugga. Ástþór var kaupandinn og Bretinn Laurence var seljandi, en sá síðarnefndi rekur fyrirtæki á Marbella á Spáni sem selur glugga og hurðir.

Ástþór sérpantaði fjölda glugga úr plastefninu UPVC. Samningurinn er dagsettur 6. júní sl. og kemur þar fram að kaupanda beri að greiða innborgun vegna kaupanna og að sú fjárhæð sé óendurkræf. Þar sem framleiðandi sérsmíði glugga sé ekki hægt að hætta við pöntunina. Ástþór greiddi 13.000 evrur í innborgun í gegnum portúgalskt fyrirtæki sitt þann 9. júní. Þann 11. júní hefur Ástþór samband við Laurence, segist hafa áhyggjur af því að plastgluggarnir komi ekki nægilega vel út og veltir fyrir sér hvort gluggar úr áli myndu henta betur.

Bretinn tilkynnir Ástþóri að það muni hafa aukinn kostnað í för með sér og auk þess séu UPVC-gluggarnir fínir. „Ef þú vilt sóa 25.000 evrum aukalega í álið þá eru þetta þínir peningar.“

Ástþóri og Laurence greinir á um framhaldið, en það sem liggur fyrir er að deilurnar þeirra eru orðnar opinberar. Ástþór hefur opnað vefsíðu og aðgang að bæði Facebook og Instagram til höfuðs Bretanum, fjölskyldu hans og fyrirtæki. Bretinn hefur svarað fyrir sig með því að henda í loftið Facebook-síðu til höfuðs Ástþórs.

Lawrence hefur svarað fyrir sig með ófrægingaherferð gegn Ástþóri

Ástþór segir Bretann hafa stolið 13.000 evra staðfestingargjaldinu og falsað kvittun frá framleiðanda glugganna. Bretinn vísar því á bug í minnir á ákvæði samnings þeirra þar sem fram kemur að staðfestingargjald er óendurkræft.

Fyrir liggur að staðfestingargjaldið var greitt, en Ástþór fékk enga glugga. Af frásögnum þeirra má ráða að deilan varði einkum hvort að Ástþór hafi hætt við plastgluggana, og þar með í raun tapað staðfestingargjaldinu, eða hvort að Bretinn hafi vanefnt samninginn með því að afhenda enga glugga. DV hefur fengið að sjá samning sem þeir gerðu þar sem fram kemur að ef hætt er við pöntun þá fáist staðfestingargjald ekki endurgreitt.

Segir Ástþór hafa blandað fjölskyldu hans inn í deilurnar

Laurence er á því að um viðskiptadeilur sé að ræða, en áður en þeir hafi fundið farsæla lausn á málinu hafi Ástþór ráðist í hatramma ófrægingarherferð sem beindist ekki bara að Laurence og hans rekstri heldur líka gegn fjölskyldu hans. Ástþór hefur birt myndir af fjölskyldunni sem hann hefur fengið á samfélagsmiðlum, þar með talið af ólögráða dóttur hans. Eins hefur Ástþór sakað eiginkonu Bretans um að lifa lúxuslífi fyrir stolið fé og birt símanúmer hennar, upplýsingar um það hvar hún fer í líkamsrækt og á hvaða veitingastöðum hún borðar.

Þá hefur Laurence sakað Ástþór um að hafa tekið myndir úr launsátri af bifreiðum hans, sem og mynd af honum sjálfum. Það segir Ástþór hins vegar að standist enga skoðun, hann hafi fengið slíkar myndir sendar frá öðrum sem hafi lent í klóm breska hrappsins.

Það sem Laurence heldur fram að sér þyki grófast er að Ástþór vænir þau hjónin um að vera óhæfir foreldrar og hefur hvatt fólk til að tilkynna þau til barnaverndarnefndar í von um að dóttir þeirra verði tekin af þeim. Það hafi gengið svo langt að nú þori stúlkan varla út úr húsi.

„Þetta gengur lengra en bara ærumeiðingar – þetta er áreitni af ásetningi og hún fer gegn öllu sem Thor segist standa fyrir á opinberum vettvangi,“ segir Bretinn og vísar til samtakanna Friður 2000. Ástþór segir að með því að halda eftir staðfestingargjaldinu sé verið að stela peningum af friðarsamtökum, þó svo að Friður2000 hafi ekki verið aðili að viðskiptunum. Ástþór tekur þó fram að gluggarnir hafi átt að fara í húsnæði sem á að hýsa þá sem hlutu Leifs Eiríksson-verðlaunin, friðaverðlaun sem Friður 2000 veitti áhöfn skútunnar Madleen sem á vegum samtakanna Freedom Flotilla ætluðu að flytja vistir til Gaza-strandarinnar í júní áður en ísraelsk yfirvöld stöðvuðu för þeirra.

Einstæð móðir ber Bretanum líka illa söguna

Ástþór segir í samtali við DV að það sé skylda hans að vera aðra við svikum sem þessum. Laurence hafi svikið fjölda einstaklinga og skilið eftir sig sviðna jörð bæði á Spáni og í heimalandinu. Ástþór segir Bretann annálaðan svikari, en áður rak Laurence fyrirtæki á Bretlandi sem fóru í þrot í faraldri Covid og hefur hann verið með rekstur undir nokkrum nöfnum á bæði Bretlandi og Spáni.

„Maðurinn er bara hreinn svikari og það er bara spurning hvenær hann verður handtekinn af lögreglunni,“ segir Ástþór.

Kom Ástþór blaðamanni í samband við annan meintan þolanda Bretans, einstæða móður sem segist hafa verið svikin um 30.000 evrur, eða um 4,4 milljónir. Hún hafi pantað glugga fyrir húsnæði sem hún er að reisa sér og greitt Bretanum fyrir en hefur enga glugga fengið. Frásögn móðurinnar fær stoð í færslum á Facebook frá því í vor þar sem hún, líkt og Ástþór, varaði við fyrirtækinu. Hún pantaði glugga í október á síðasta ári en hefur enga fengið þrátt fyrir að hafa greitt kaupverðið að fullu.

Laurence hefur að sama skapi sýnt samskipti sem hann hefur átt við meint samskiptateymi Friðar 2000 þar sem Bretinn óskar eftir því að Ástþór hætti að deila símanúmeri eiginkonu sinnar og hætti að blanda barni hans í deilurnar. Svarið sem hann fékk var að áfram yrði hringt í eiginkonu hans þar til lausn væri fundin í málinu. Áfram yrði varað við Bretanum á Facebook og Instagram og auk þess væri verið að undirbúa myndbönd fyrir YouTube.

Deilurnar eru hatrammar en Ástþór hefur meðal annars lagt fram kæru hjá lögreglu, þar sem hann lagði fram gögn um meinta svikaslóð Bretans og sakaði Laurence meðal annars um að hafa falsað kvittun frá framleiðanda glugganna. Ástþór segir eins í samtali við DV að hann viti um 7-8 einstaklinga sem segi farir sínar ekki sléttar eftir viðskipti við Laurence.

Laurence telur að Ástþór hafi farið offari. Honum hafi legið lífið á að fá þessa glugga og áður en Laurence gat brugðist við hafði ófrægingarherferð farið að stað og þar með hafði Bretinn engan vilja til að koma lengur til móts við Ástþór. Bretinn segist ætla að leita réttar síns vegna framkomu Ástþórs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Julian McMahon látinn

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Úkraínsk sérsveit hefur eyðilagt rússnesk hergögn að verðmæti 660 milljarða

Úkraínsk sérsveit hefur eyðilagt rússnesk hergögn að verðmæti 660 milljarða
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kostnaður við starfshópa Guðlaugs Þórs hljóp á hundruð milljónum króna – Flokksgæðingar á lista

Kostnaður við starfshópa Guðlaugs Þórs hljóp á hundruð milljónum króna – Flokksgæðingar á lista
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dagmar brá við óþægilegt símtal frá lögreglunni – Biggi Sævars lét verða af hótuninni – „Týpísk taktík hjá svona mönnum“

Dagmar brá við óþægilegt símtal frá lögreglunni – Biggi Sævars lét verða af hótuninni – „Týpísk taktík hjá svona mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Össur telur að málþófið muni reynast Sjálfstæðismönnum dýrkeypt

Össur telur að málþófið muni reynast Sjálfstæðismönnum dýrkeypt