Systurnar Þórdís Arnljótsdóttir fréttakona á RÚV og Edda Arnljótsdóttir leikkona hafa sent Alþingi umsögn þar sem þær andmæla frumvarpi Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra til breytinga á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Megintilgangur frumvarpsins hefur verið sagður sá að koma böndum á skammtímaleigu á íbúðarhúsnæði til að koma á auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði og auka framboð. Systurnar, sem geta þess ekki sérstaklega í umsögn sinni hvaða hagsmuna þær eiga að gæta í málinu, segja hins vegar ákvæði í frumvarpinu brjóta í bága við stjórnarskrána.
Frumvarp Hönnu Katrínar er nú til meðferðar hjá atvinnuveganefnd þingsins. Í greinargerð með frumvarpinu segir að í því séu lagðar til þrenns konar breytingar. Í fyrsta lagi að hugtakið heimagisting verði endurskilgreint og afmarkað við lögheimili einstaklings og eina aðra fasteign í eigu hans utan þéttbýlis. Í öðru lagi að binda þegar útgefin rekstrarleyfi til starfsemi í íbúðarhúsnæði innan þéttbýlis til fimm ára í senn. Í þriðja lagi að sýslumanni verði heimilt að óska eftir nauðsynlegum upplýsingum frá ríkisskattstjóra í tengslum við eftirlit sýslumanns með einstaka málum vegna skráningarskyldrar heimagistingar.
Enn fremur segir í greinargerðinni að meginmarkmið frumvarpsins sé að auka framboð íbúðarhúsnæðis innan þéttbýlis með því að draga úr skammtímaleigu sem stunduð sé án skráningar og tilskilinna leyfa.
Systurnar geta þess ekki í umsögn sinni hvort og þá hvaða hagsmuna þær eiga að gæta þegar kemur að efni frumvarpsins en nöfn þeirra finnast ekki í fljótu bragði á listum yfir aðila sem eru með leyfi til að reka gistingu í heimahúsi.
Þær gera sérstaka athugasemd við 5. grein frumvarpsins en samkvæmt henni verða öll rekstrarleyfi til starfsemi í íbúðarhúsnæði innan þéttbýlis sem eru í gildi við gildistöku þessa ákvæðis í gildi til 1. janúar 2031, enda komi ekki til niðurfellingar, afturköllunar eða sviptingar. Að þeim tíma liðnum skuli sækja um nýtt rekstrarleyfi á grundvelli laganna sé ætlunin að halda áfram rekstri.
Samkvæmt núgildandi lögum eru slík rekstrarleyfi hins vegar ótímabundin. Þórdís og Edda segja að þau ótímabundnu rekstrarleyfi sem þegar hafa verið gefin út séu varin af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og sömuleiðis ákvæðum hennar um atvinnufrelsi. Vilja þær meina að með þessari fimmtu grein séu úthlutuð ótímabundin réttindi skert með afturvirkum hætti.
Systurnar vísa í álit atvinnuveganefndar með sams konar frumvarpi sem lagt var fram í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þar hafi meðal annars komið fram að ef Alþingi hyggist takmarka atvinnuréttindi með afturvirkum hætti þurfi það að uppfylla skilyrði um almannahagsmuni og almannaheill. Dómafordæmi séu fyrir því að slík afturvirk lagasetning myndi leiða til skaðabótaskyldu af hálfu ríkisins að skilyrðum óuppfylltum. Hafi nefndin talið að óvíst yrði að teljast út frá dómafordæmum að skilyrði um almannahagsmuni og almannaheill yrðu talin uppfyllt ef slíkri afturvirkni yrði beitt.
Segja Þórdís og Edda að í þessu frumvarpi komi ekkert fram um að orðið hafi breytingar sem kalli á að horft sé framhjá þessum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Segja þær að Hanna Katrín hafi raunar skrifað undir nefndarálitið um frumvarp síðustu ríkisstjórnar.
Sömuleiðis kemur fram í umsögn systranna að það sé skilningur Reykjavíkurborgar á þessari 5. grein að rekstrarleyfin muni ekki verða endurnýjuð þegar þau renni út 2031.
Ítreka þær að lokum að þessi 5.grein frumvarpsins gangi gegn stjórnarskránni:
„Þau sem reka atvinnustarfsemi þótt smá sé í sniðum og hafa til þess ótímabundið rekstrarleyfi haga áætlunum sínum eftir því leyfi og þeim lögum sem gilda þegar leyfið var veitt sbr. 72. grein stjórnarskrárinnar.“
Segir í umsögninni að 5. greinin feli í sér afturvirkni, sé íþyngjandi og brjóti gegn stjórnarskránni og lagt er til að hún verði felld burt úr frumvarpinu. Að lokum er minnt á meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.
Þess er ekki getið sérstaklega í umsögninni að systurnar reki heimagistingu en miðað við orðalagið virðist það óhjákvæmilegt að svo sé.