Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur hafnað kröfum manns um endurgeiðslu frá fyrirtæki sem seldi honum sérsaumuð gluggatjöld. Vildi maðurinn meina að afhending þeirra hefði dregist úr hófi fram en nefndin sagði að hann hefði verið of fljótur á sér að rifta kaupunum og krefjast endurgreiðslu.
Málsatvik eru rakin í úrskurði nefndarinnar. Maðurinn pantaði sérsaumuð gluggatjöld í verslun fyrirtækisins í júní 2024. Óskaði hann jafnframt eftir þjónustu fyrirtækisins við að mæla fyrir gluggatjöldunum sem og að setja þau upp. Greiddi hann 9.500 krónur þann dag fyrir mælinguna. Tveimur vikum síðar fór sú mæling fram og fjórum dögum eftir það millifærði maðurinn, að beiðni fyrirtækisins, helming kaupverðsins, 110.000 krónur, inn á reikning þess svo hægt væri að hefja framleiðslu gluggatjaldanna.
Greindi aðila hins vegar á um umsaminn afhendingartíma. Í ágúst 2024 tilkynnti fyrirtækið manninum að gluggatjöldin væru tilbúin og greiddi hann sama dag eftirstöðvar kaupverðisins, rétt tæplega 92.000 krónur. Var hann um leið upplýstur um að nokkur bið væri eftir þjónustu við uppsetningu þeirra. Hálfum mánuði síðar áttu aðilar í samskiptum símleiðis en fór ekki saman um hvað fór þeirra á milli varðandi afhendingu og uppsetningu gluggatjaldanna. Í lok þess samtals krafðist maðurinn endurgreiðslu kaupverðs vegna dráttar á
afhendingu.
Maðurinn tjáði nefndinni að eftir að mælingin fyrir gluggatjöldunum hefði farið fram í júní hefði hann fengið þær upplýsingar að framleiðslan tæki þrjár til fjórar vikur. Hann hafi hringt í fyrirtækið tvisvar í júlí og óskað eftir upplýsingum um hvenær afhendingin færi fram. Nákvæm svör hafi ekki fengist og vísað hafi verið til tafa á framleiðslunni. Í ágúst hafi hann loks fengið tilkynningu um að gluggatjöldin væru tilbúin og að afhending þeirra og uppsetning gæti farið fram fyrir lok vikunnar þar á eftir. Þegar tvær vikur hafi liðið og ekkert borið á tjöldunum hafi hann aftur haft samband við fyrirtækið og þá verið tjáð að uppsetning gæti farið fram viku seinna. Þá hafi hann ekki sætt sig við frekari tafir og krafist endurgreiðslu. Þá hafi honum verið boðin uppsetning samdægurs en því hafi hann hafnað.
Fyrirtækið sagðist í sínum andsvörum hafa tjáð manninum að framleiðsla á gluggatjöldunum tæki fjórar vikur og síðan væri tveggja vikna bið eftir uppsetningu. Þar sem framleiðslan hefði tafist hafi maðurinn fengið 10 prósent afslátt og verið upplýstur um að tafir mætti rekja til sumarleyfa. Hálfum mánuði eftir að tjöldin hefðu verið tilbúin hefði verið haft samband við manninn en maðurinn vildi meina að það hefði verið þvert á móti hann sem hefði haft samband. Sagði fyrirtækið að manninum hefði verið boðin uppsetning sama dag en maðurinn hafi aðeins viljað að taka á móti starfsmanni klukkan 17:30 en skýrt sé kveðið á um að uppsetningar fari fram á hefðbundnum dagvinnutíma. Manninum hafi samt verið boðið að starfsmaður myndi koma til hans klukkan 18 en því hafi hann hafnað og krafist endurgreiðslu.
Vildi fyrirtækið meina að engin ástæða hefði verið fyrir manninn til að rifta kaupunum með þessum hætti. Hann hafi verið upplýstur um tafir, fengið afslátt og afhendingardráttur hefði ekki verið svo verulegur að það réttlætti riftun. Jafnframt vísaði það til ákvæða laga um að kaupandi verði að veita viðbótarfrest áður en kaupum sé rift, það hafi maðurinn ekki gert.
Þessi skortur á viðbótarfresti hafði síðan úrslitaáhrif í málinu. Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa segir í sinni niðurstöðu að þar sem viðbótarfrestur hafi ekki verið veittur sé skilyrðum fyrir riftun vegna dráttar á afhendingu ekki fullnægt. Telur nefndin að manninum hafi ekki verið heimilt að rifta kaupunum sama dag og til hafi staðið að setja gluggatjöldin upp og afhenda þau.
Kröfu mannsins um endurgreiðslu var því hafnað og segja má að niðurstaða nefndarinnar sé sú að maðurinn hafi átt að vera þolinmóðari.