Haraldur Sigurðsson, prófessor emerítus í jarð- og jarðefnafræði, segir að miðað við hvernig ríkisstjórnir stórvelda tali sé það tapað mál að reyna að draga úr losun efna sem valdi hnattrænni hlýnun. Talið sé að hafstraumurinn sem beri hita norður í Atlantshafi muni dvína á 50 til 100 árum.
Haraldur fjallar í færslu á samfélagsmiðlum um AMOC, hringstrauminn í Norður Atlantshafi sem flytur mikla hitaorku norður á bóginn. En golfstraumurinn svokallaði er einn þáttur í honum.
„Margir telja að nú sé að draga úr straumnum, sem mun valda djúptækum loftslagsbreytingum á norðurslóðum, bæði í hafinu og á landi,“ segir Haraldur.
Hringrásinni sé enn haldið við vegna mismunandi seltu og hita í hafinu en margar stórar spurningar blasi við. Svo sem hvenær hringrásin hætti, hvaða áhrif það hafi á loftslag í Norður Evrópu og Grænlandi, hvaða áhrif það hafi á lífríkið, fiskistofna og fleira. Einnig hvað sé hægt að gera til að koma í veg fyrir stöðvun AMOC.
„Svarið er auðvitað að draga úr losun koltvíoxíðs og annarra efna sem valda hnattrænni hlýjun,“ segir Haraldur en er þó vonlítill um það. „Sennilega er það því miður tapað mál, ef dæma skal út frá stefnum og atgerðum stórveldanna.“
Nýjar rannsóknir vísindamanna í Utrech sýni hins vegar að vendipunkturinn sé skammt undan og birtir hann skýringarmyndir. Það er að stór svæði Atlantshafsins kólni um 4 til 6 gráður sem og belti undan austurströnd Norður Ameríku hlýni um það sama þegar golfstraumurinn færist norðar. Seinni myndin sýni breytingar á yfirborðshita sjávar frá 1993 til 2021. Myndirnar sýni svipaða þróun.
„Þýðir það að AMOC straumurinn er þegar byrjaður að slaka á?“ spyr hann að lokum. „Talið er að AMOC straumurinn muni ekki hverfa í einum hvelli, heldur muni það taka 50 til 100 ár að straumurinn dvínar smátt og smátt.“