„Ástandið er enn mjög slæmt. Við höfum verið í aðgerðum og munum halda þeim áfram en harðari refsingar myndu klárlega hjálpa til við að fæla fólk frá þessu,“ segir Kristjana í viðtalinu og er þar átt við svokallaðar IPTV-sjónvarpsþjónustur og Plex þar sem nálgast má sjónvarpsþætti og bíómyndir.
Margir hér á landi nýta sér þessar þjónustur, ýmist til að horfa á beinar útsendingar frá íþróttaviðburðum eða til að nálgast nýjustu kvikmyndirnar og sjónvarpsþættina. Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að áætlað sé að 30 prósent heimila hér á landi séu með áskrift að IPTV-efnisveitum.
Bent er á það í frétt blaðsins að Svíar hafi ákveðið að herða refsingar við ólöglegu niðurhali og til umræðu sé að gera IPTV-sjónvarpsþjónustur ólöglegar. Kristjana kallar eftir samstöðu fjarskiptafyrirtækjanna og segir að Íslendingar ættu að horfa til landa í kringum sig varðandi reglur og refsingar. „Við erum því miður eftir á,“ segir hún við Morgunblaðið í dag þar sem nánar er fjallað um málið.