Albaninn Angjelin Sterkaj, sem afplánar 16 ára dóm fyrir morð á landa sínum, Armando Beqirai, fyrir utan heimili þess síðarnefnda í Rauðagerði í febrúar árið 2021, afplánar dóm sinn í fangelsinu að Kvíabryggju, sem er opið fangelsi. Þetta herma áreiðanlegar heimildir DV. Angjelin afplánaði áður á Hólmsheiði og síðan á Litla Hrauni en var fluttur til Kvíabryggju fyrir um tveimur árum.
Angjelin skaut Armando til bana fyrir utan heimili þess síðarnefnda, samtals níu skotum. Hann hlaut 18 ára fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur og Landsréttur þyngdi síðan refsinguna í 20 ár. Hæstiréttur mildaði hins vegar dóminn niður í 16 ára fangelsi. Þrjár manneskjur voru sakfelldar fyrir samverknað með Angjelin og hlutu vægari dóma.
Núna liggur fyrir að Angjelin, sem hefur setið í fangelsi í yfir fjögur ár, eða síðan í febrúar árið 2021, mun afplána eftirstöðvar refsingar sinnar á Kvíabryggju. Honum verður síðan vísað úr landi og settur í endurkomubann á Schengen-svæðið.
Þetta er í samræmi við lög um fullnustu refsinga. Í annarri málsgrein 80. greinar þeirra laga segir (feitletrun DV):
„Heimilt er að veita fanga lausn til reynslu þegar helmingur refsitímans er liðinn, þrátt fyrir að hann afpláni refsingu fyrir alvarlegt eða að öðru leyti gróft afbrot, ef mjög sérstakar persónulegar ástæður mæla með því og framkoma og hegðun fanga í refsivistinni hefur verið með ágætum. Sama gildir liggi fyrir ákvörðun Útlendingastofnunar um að fanga verði vísað úr landi að afplánun lokinni. Nú hefur fangi tvívegis eða oftar afplánað fangelsisrefsingu og verður honum þá ekki veitt reynslulausn samkvæmt þessari málsgrein nema sérstakar ástæður mæli með.“
DV bar þetta undir Birgi Jónasson fangelsismálastjóra. Hann segir í svari sínu að hugmyndafræði Fangelsismálastofnunar byggi á stigskiptri afplánun sem hefst á lokuðu fangelsi en lokaáfanginn er reynslulausn. Afplánun fylgi hins vegar alls ekki alltaf þessari stigskiptingu en það er engu að síður markmiðið. Svar Birgis er eftirfarandi:
„Almennt séð byggir okkar hugmyndafræði á stigskiptri afplánun, þ.e. í upphafi fer afplánun fram í lokuð fangelsi, því næst í opnu fangelsi, þá á áfangaheimili, næst með rafrænu eftirliti og loks með veitingu reynslulausnar. Það er langur vegur frá því að afplánun sé ávallt með þessum hætti en ef vel gengur fer þetta fram með þessum hætti og það er okkar markmið.
Það gilda ákveðnar reglur um hámarkstíma á áfangaheimili og í rafrænu eftirliti og veiting reynslulausnar er lögbundin en getur verið mismunandi eftir aldri dómþola og alvarleika brots. Engar skráðar reglur gilda um tímalengd í lokuðu fangelsi en reynt er að hafa hann eins skamman og unnt er en það veltur m.a. á lengd dóms og alvarleika máls. Rétt er að taka fram í þessu sambandi að opið fangelsi er fangelsi.
Almennt séð hefur þetta fyrirkomulag gengið vel og hefur m.a. stuðlað að endurhæfingu og fækkun á endurkomum í fangelsi.“