fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

Óhugnanlegur vitnisburður í héraðsdómi – „Þeir vildu að ég tæki börnin hans Tona“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 13. september 2021 10:07

Angjelin kemur í réttarsal (með grímu). Mynd: Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Angjelin Sterkaj, maðurinn sem játað hefur á sig morðið á Armando Beqirai, sem skotinn var til bana fyrir utan heimili sitt að Rauðagerði 13 í febrúar segir að hópur undirheimamanna sem tengdist Armando, hafi hótað sér lífláti og hótað því að myrða barn hans.

„Þeir vildu að ég tæki börnin hans Toni,“ sagði Angjelin og þurfti að útskýra fyrir dómara að um væri að ræða Anton Kristinn Þórarinsson, sem var um tíma grunaður um hlutdeild í málinu en var síðan hreinsaður af grun og er ekki ákærður í málinu.

Angjelin sagði að í janúar hafi verið reynt að þvinga hann til að taka þátt í því að vinna börnum Antons Kristins Þórarinssonar mein. Hafi hann verið beittur bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi. Angjelin segist þá hafa samþykkt að taka þátt í þessu eftir að hafa neitað því fyrst.

Stuttu síðar hafi hann haft samband við Armando og sagt að hann myndi ekki taka þátt í þessu. Angjelin skýrði jafnframt frá því að hann hefði orðið sér úti um skammbysssu og látið það berast að hann væri með byssu svo menn óttuðust hann.

Angjelin lýsir ótta sínum dagana fyrir morðið og segir: „Þetta var ekki bara einn maður heldur hópur af undirheimamönnum.“ Segist hann helst hafa viljað halda kyrru fyrir í sumarhúsi og þar hafi hann setið lengi með byssuna í hendinni.

Armando hafi hótað honum í síma fimmtudagskvöldið 11. febrúar og sagt að hann ætlaði að myrða son hans og steikja hann í bökunarofni.

Angjelin segir að hvorki Anton Kristinn Þórarinsson né þremenningarnir sem ákærð eru fyrir samverknað í málinu hafi vitað um morðið, hvorki fyrir né rétt eftir verknaðinn. Anton Kristinn kom til hans þar sem hann dvaldist í sumarhúsi í Skagafirði eftir morðið (og fyrir það) og spurði Angjelin hvort hann hefði myrt Armando. Angjelin segist aðeins hafa svarað því til að Armando myndi ekki gera neinum mein hér eftir.

Armando og menn hans vildu 50 milljónir frá Antoni

Dómari og héraðssaksóknari vildu fá nánari útskýringar á ósættinu milli Angjelins og Armandos. Armando sagði að þessir menn hefðu viljað sekta Anton Kristinn um 25 milljónir hvor, þ.e. Armando og maður að nafni  Goran Kristján Stojanovic, þ.e. samtals 50 milljónir. Angjelin og Anton eru vinir og sagði hann að þeir hefðu talið Angjelin standa í veginum fyrir þessu. Dómara þótti svarið óskýrt og bað um frekari skýringar. Sagði þá Angjelin að hann hafi átt að taka börn Antons en hann neitað því og þá hafi öll áherslan farið á að hóta og ógna honum.

Segir hin ekkert hafa vitað

Þrjár manneskjur, Claudia Cavalho, Murat Selivrada og Sphetim Querimi, eru ákærð fyrir samverknað með Angjelin um morðið. Angjelin segir þau ekki hafa vitað um áform hans. Þó viðurkennir hann að hafa beðið Claudiu um að fylgjast með bíl Armandos er honum var lagt við Rauðarárstíg, hjá heimili annars albansks undirheimamanns. Murat hafi síðan leiðbeint Claudiu um staðsetningu bílsins.

Angjelin segist hafa beðið Shpetim um að fara með sér því hann var hræddur. Þeir stöðvuðu bílinn skammt frá heimili Armando og Angjelin fór þangað einn. Hann hafði byssuna á sér en segir það hafa verið í varnarskyni, hann hafi ætlað að mæta Armando vegna hótana hans. Armando hafi komið æðandi að sér með reiðiorð og ógnanir og þá hafi hann bara skotið hann aftur og aftur.

Þegar hann settist aftur upp í bílinn hjá Sphetim sagði hann honum að Armando myndi engum hóta framar. Hann sagði honum hins vegar ekki beint út að hann hefði myrt Armando.

Fylgdust með heimili hans

Angjelin segir að fylgst hafi verið með heimili hans í aðdraganda morðsins og það hafi gerst í kjölfar hótana og ógnana í hans garð. Hann hafi óttast mjög um líf sitt.

Angjelin segist ekki hafa rætt við neina um vandamálið varðandi Armando. „Ég var hræddur og treysti engum. Daginn áður reyndu þeir að gera allt til að fá höfuð mitt.“ Þegar gengið var á hann um þetta segist hann hafa sagt Sphetim, manninum sem var með honum í bílnum kvöldið örlagaríka, lauslega frá hótunum.

Þremenningarnir, og því síður Anton Kristinn, vissu hins vegar um þau áform Angjelins, að ætla að hitta Armando, samkvæmt framburði Angjelins. Angjelin segist hafa hitt Armando til að takast á við hann um ágreiningsefni þeirra en hann hafi ekki farið til hans með það í huga að drepa hann, byssuna hafi hann haft með sér til sjálfsvarnar.

„Við vissum allt hvert um annað“

Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, spurði Angjelin nánar út í þau atriði sem snúa að meintri hlutdeild þremenninganna Claudiu, Sphetim og Murat í málinu. Claudia er sökuð um að hafa fylgst með bíl Armando, Murat um að leiðbeina henni um þetta, og Sphetim um að hafa aðstoðað Angjelin við morðið með því að fara með honum í bílnum.

Angjelin viðurkennir í meginatriðum þessa atburðarás en fullyrðir að fólkið hafi ekkert vitað um að hann ætlaði að myrða Armando né að hann hafi gert það. Kolbrún spyr nánar út í þátt Murat og hvort hann hafi þá vitað hvaða bíl Armando æki. „Við vissum allt hvert um anðna,“ sagði Angjelin. Staðfestir hann að hlutverk Murats hafi verið að benda Claudiu á hvaða bílum Armando gæti ekið frá Rauðarárstíg, en tveir bílar komu til greina.

Angjelin sagði aðspurður að það hafi verið hann sem sagði Claudiu hvað hún ætti að gera ef hún sæti hreyfingu á öðrum hvorum bílnum, en hún  átti þá að gera viðvart um ferðir Claudiu.

„Ég þorði ekki að mæta þarna án byssu“

Angjelin lýsir atburðarásinni betur í yfirheyrslu Kolbrúnar Benediktsdóttur varahéraðssaksóknara. Hann lýsir því hvernig hann ók áleiðis að Rauðagerði og stöðvaði bílinn skammt frá heimili Armando. Þar gat hann fylgst með Armando er hann var að fara út úr sínum bíl og segir hann að Armando lagt frá sér byssu í bílskúrnum.

Angjelin var með sína byssu meðferðis í tösku. Hann segist hafa tekið byssuna úr töskunni og fest á hana hljóðdeyfinn. Hann sagðist á þessari stundu hafa sagt Sphetim, sem var með honum í bílnum, að hann ætlaði að tala við Armando. Það hefði fyrst verið þá sem Sphetim vissi að hann ætlaði að hitta Armando.

Angjelin ítrekar að hann hafi ekki farið þarna með það í huga að drepa Armando en Armando hefði verið sterkur og hættulegur. „Ég þorði ekki að mæta þarna án byssu,“ sagði Angjelin. Auk þess hefði Armando verið vopnaður sjálfur.

Armando hefði síðan ætt að honum og ætlað að ráðast á hann og þá hefði hann skotið hann.

Angjelin er þráspurður um vitneskju hinna þriggja, Sphetim, Murat og Claudiu, og hann segir ávallt að hann hafi ekki skýrt þeim frá morðinu.

„Ég fór basically í blackout“

Verjandi Angjelin, Oddgeir Einarsson, bað Angjelin um að lýsa því hvernig honum leið þegar hann tók í gikkinn og skaut Armando. „Ég var ekki að hugsa neitt, hann hafði verið að hóta mér, ég fór basically í black-out og byrjaði að skjóta,“ segir Angjelin og staðhæfir að hann hafi farið þarna til að ná sáttum við Armando en um leið vildi hann svara hótunum hans og vera við öllu búinn.

Í símtali sem Armando átti við Angjelin, úr síma annars manns, fimmtudagskvöldið 11. febrúar, tveimur kvöldum fyrir morðið, fóru hótanir þeim á milli. Þar sagði Angjelin að hann myndi fylla maga Armando af byssukúlum. Oddgeir spurði Angjelin hvort hann hefði meint þetta og sagði Angjelin svo ekki vera, hann hafi einfaldlega verið að láta hann vita að hann væri fullfær um að verja sig.

Angjelin svarar spurningum verjenda meðákærðu Murat og Claudio þess efnis hvort þau hefðu vitað um morðið að hann hefði ekkert sagt þeim frá því hvorki fyrir né eftir verknaðinn. Þáttur Murat í aðgerðinni hafi verið sá að vísa Claudiu á hvítan Ford-sendibíl sem möguleiki var á að Armando myndi aka frá Rauðarárstíg laugardagskvöldið 13. febrúar. Bílnum var lagt í porti við Rauðarárstíg en þar bjó félagi hans í undirheimum og segir Angjelin að þar hafi menn úr undirheimum iðulega fundað. Angjelin sjálfur upplýsti Claudiu um Volvo-bíl í portinu. Armando ók hins vegar burtu á hvíta sendibílnum og sendi Claudia Angjelin skilaboð um það á Messenger.

Angjelin viðurkenndi aðspurður að hann hefði skýrt Murat frá hótunum sem hann fékk frá Armando í símtali á fimmtudagskvöldið. Murat hefði hins vegar bara hlegið að þeim hótunum.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari taldi ákveðið ósamræmi vera í framburði Angjelin þar sem hann sagði fyrir dómi að Claudia hefði ekki vitað að byssa hans væri í tösku sem hann bað Claudiu um að geyma fyrir sig en í skýrslutöku hjá lögreglu sagði hann að Claudia hefði vitað um byssuna. Ljóst er þó að þetta ósamræmi sannar engan veginn hlutdeild Claudiu í morðinu þar sem það var alvitað innan vina- og óvinahrings Angjelin að hann ætti byssu.

Segir nánast alla undirheima Íslands hafa setið um Anton

Aðspurður segir Angjelin að aðeins tveir menn hafi hótað honum beint, þeir Armando og Goran Kristján Stojanovic, en hann hafi vitað að fjölmargir aðrir menn stæðu að baki hótuninni enda hafi nánast allir undirheimar Íslands verið á eftir Antoni Kristni Þórarinssyni.

Sem fyrr segir var Anton krafinn um samtals 50 milljónir króna í sekt. Ekki hefur komið fram í vitnaleiðslunum fyrir hvað hann átti að greiða þá sekt en því skal haldið til haga að Anton óttaðist um líf sitt í kjölfar þess að upplýsingum um lögreglurannsókn var lekið til fjölmiðla í janúar sem birtu fréttir um að hann hefði um tíma verið uppljóstrari hjá fíkniefnalögreglunni.

Angjelin segir að mennirnir hafi neytt hann til að ræna börnum Antons og honum var hótað lífláti ef hann yrði ekki við því. Fram hefur komið í vitnaleiðslunum að Anton hitti Angjelin í sumarbústaðnum í Skagafirði dagana fyrir og eftir morðið. Kvöldið sem Angjelin bárust hótanir símleiðis frá Armando segist hann hafa farið með símann út og hafi Anton ekki orðið vitni að símtalinu.

Hlé var gert á þinghaldinu kl. 11:45 og er vitnaleiðslum yfir Angjelin lokið. Þinghaldinu verður fram haldið kl. 12:45 og mun þá hinir sakborningarnir þrír, Claudia, Sphetim og Murat bera vitni. DV mun greina frá efni þeirra yfirheyrslna í eftirmiðdaginn. Þau eru öll ákærð fyrir samverknað með Angjelin í morðinu en neita öll sök og Angjelin margstaðhæfir að þau hafi ekki vitað um morðið þrátt fyrir að þau hafi augljóslega, hvert með sínum hætti, hjálpað til við að hann gat hitt á Armando fyrir utan heimili hans í Rauðagerði, laugardagskvöldið örlagaríka, 13. febrúar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Norska morðgátan sem leysist líklega aldrei – Hver skrifaði bréfið sem var í rauða stólnum?

Norska morðgátan sem leysist líklega aldrei – Hver skrifaði bréfið sem var í rauða stólnum?
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Biðla til fólks að hætta að koma með snáka á spítala – Tefur fyrir og hræðir starfsfólkið

Biðla til fólks að hætta að koma með snáka á spítala – Tefur fyrir og hræðir starfsfólkið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa