Samfélagsmiðlastjórar Sjálfstæðisflokksins ákváðu að sýna lit í gær og setja regnbogann í merki flokksins á Facebook í tilefni hinsegin daga. Hatur gaus hins vegar upp og allar athugasemdirnar við breytinguna voru mjög neikvæðar.
Í merkinu má sjá hinn gamalgróna fálka Sjálfstæðisflokksins á miðjum regnboganum. Samkvæmt óformlegri athugun DV er Viðreisn eini annar stjórnmálaflokkurinn sem hefur gert þetta í ár. Í tilfelli Viðreisnar eru aðeins hjörtu og læk sett við regnbogamerkið en annað er uppi á teningnum hjá Sjálfstæðisflokknum.
„Þetta er ekki falleg mynd,“ skrifar maður að nafni S. Þröstur Tómasson. „Þið hafið ruglast á litum en og aftur munið að laga það,“ skrifar Ingibjörg Ásgrímsdóttir.
Og athugasemdirnar eru mun fleiri, allar neikvæðar. Má meðal annars nefna þessar.
„Eru bara hommar og lesbíur í Sjálfstæðisflokknum?“ segir Ingimundur Björgvinsson. Guðmundur Pálsson sakar flokkinn um yfirgang. „Hér vantar smekkvísi. Lítið merki til dæmis í barmi er alveg nóg – til að sýna virðingu. Ekki vera með yfirgang eins og hinir,“ segir hann.
Axel Óli Ægisson segir einfaldlega „R.I.P.“ sem þýðir á ensku Rest in Peace, eða hvíl í friði. Þá segir Freygarður Jóhannsson „Samkvæmt íslenskum lögum þá er alfarið bannað að sýna kynhneigð sína á almannafæri.“ Ekki er vitað í hvaða lagabókstaf hann er að vísa.
Hafa ber í huga þó að þegar þetta er skrifað hafa um 70 manns sett „like“ við myndina.