fbpx
Þriðjudagur 18.júní 2024
Fréttir

Ólga í Hafnarfirði – „Svona verkefni hefur aldrei verið framkvæmt af þessari stærðargráðu í heiminum, hvað þá í tilraunaskyni svona nálægt íbúabyggð“

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 10. júní 2024 13:00

Höfnin í Straumsvík verður stækkuð til að geta tekið við tankskipunum. Mynd/Wikipedia

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stofnaður hefur verið mótmælavettvangur á Facebook gegn niðurdælingu koldíoxíðs Coda Terminal nálægt Vallahverfinu í Hafnarfirði. Á aðeins einum degi hafa yfir 500 manns gengið í hópinn.

Hópurinn, sem ber yfirskriftina „Mótmælum staðsetningu Coda Terminal við Vellina í Hafnarfirði“, var stofnaður vegna þess að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hyggst veita fyrirtækinu leyfi til að setja upp tíu borteiga með allt að átta borholum á hverjum stað. Verður þetta í nágrenni við Vallarhverfið í suðurhluta Hafnarfjarðar.

Koldíoxíðið sem dælt verður niður í bergið er flutt til landsins með sérhönnuðum tankskipum frá erlendum stóriðjum. En einnig íslenskum iðnaði að einhverju leyti.

„Svona verkefni hefur aldrei verið framkvæmt af þessari stærðargráðu í heiminum, hvað þá í tilraunaskyni svona nálægt íbúabyggð,“ segir í tilkynningu í hópnum.

Raskar grunnvatni

Ein helsta ástæðan fyrir því að íbúarnir mótmæla áformunum eru áhrifin á grunnvatnið. Dæla þarf gríðarlega miklu magni grunnvatns til þess að niðurdælingin sé möguleg. Rask geti til að mynda haft þau áhrif að saltvatn rísi upp og hafi varanleg áhrif á vatnsgæði, tjarnir og dýralíf.

Áhrifasvæði Coda Terminal.

Annað sem hefur verið nefnt er að breytingin geti haft áhrif á spennu og burðarþoli jarðvegs og jafnvel valdið lekamálum í kjallörum. Þau áhrif séu þó talin ólíklegri í ljósi þess að byggingarnar séu grundaðar á jarðvegspúðum og berggrunnurinn svo gljúpur að vatn sé líklegra til að renna í aðrar áttir.

Mikill kostnaður við stækkun hafnar

Á meðal þess sem gagnrýnt er er stækkun hafnarinnar við Straumsvík. En stækkunin er forsenda þess að hægt sé að taka á móti stærri tankskipum. Kostnaðurinn verði á bilinu níu til fimmtán milljarðar króna sem Hafnarfjarðarbær muni fjármagna.

Fulltrúar Rio Tinto, Hafnarfjarðarbæjar, Coda Terminal og Carbfix undirrita viljayfirlýsingu í desember árið 2022. Mynd/Carbfix

„Er eðlilegt að Hafnarfjarðarbær fari í svona kostnaðarsamar skuldbindingar fyrir eitt fyrirtæki í bænum? Viljum við að skattpeningarnir okkar fari í þessa áhættusömu fjárfestingu? Hvaða hlutverki gegnir höfnin eftir þrjátíu ár þegar verkefni Coda Terminal er lokið á þessu svæði?“ spyrja íbúarnir.

Einnig er gagnrýnt að verkefnið hafi ekki verið kynnt nógu vel fyrir íbúum.

Svæðið henti vel

Fyrirtækið Carbfix, sem rekur Coda Terminal, er með upplýsingasíðu um framkvæmdina, sem það segir mikilvægt til að berjast gegn of mikillar losunar koldíoxíðs af mannavöldum.

Coda Terminal hafi farið í gegnum umhverfismat á þessu ári. Nær það til þess þegar tekið er við efninu frá skipum í Straumsvík þar til það er orðið steinrunnið neðanjarðar.

Svæðið hafi verið valið af því að í nágrenni Straumsvíkur er ferskt basalt og öflugir grunnvatnsstraumar sem henti vel fyrir Carbfix tæknina sem nýti vatn sem flutningsmiðil fyrir koldíoxíð.

„Í Straumsvík er jafnframt aðgengi að iðnaðarsvæði og skipulögðum iðnaðarlóðum, en með því að staðsetja starfsemina á iðnaðarsvæði var litið svo á að lágmarka mætti jarðrask. Coda Terminal teygir sig þó á óbyggt svæði en takmarkar ekki aðra starfsemi, svo sem útivist og skógrækt,“ segir á heimasíðu Carbfix.

Verði hægt að bregðast við

Segir í umhverfismatinu að óvissa sé uppi um áhrif á tjarnirnar.

„Grunnvatnsvinnsla og niðurdæling mun valda beinum áhrifum á grunnvatnsborð sem verða varanleg svo lengi sem starfsemin verður til staðar, en áhrifin verða afturkræf ef vinnslunni og niðurdælingunni yrði hætt eða vinnslufyrirkomulagi breytt svo þörf sé á minna vatni. Grunnvatnsvinnslan mun samkvæmt líkanútreikningum valda lítillegri hækkun á seltu- og hitastigi í grunnvatnskerfinu en þó meiri í dýpri hluta þess.“

Skýringar á tækninni sem beitt verður. Mynd/Carbfix

Segir að þörf sé á áframhaldandi rannsóknum og þeim verði haldið áfram á framkvæmdar og rekstrartíma Coda Terminal. Verkefnið verði byggt upp í áföngum og tækifæri verði til að aðlaga starfsemina að niðurstöðum rannsókna og vöktun úr fyrri áföngum til að lágmarka áhrif á grunnvatn og aðra umhverfisþætti.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Segir kosti óverðtryggðra lána tálsýn sem geti bitnað á fjölskyldulífinu

Segir kosti óverðtryggðra lána tálsýn sem geti bitnað á fjölskyldulífinu
Fréttir
Í gær

Hvað kostar milli flugvallar og borgar – Erum við að okra miðað við nágrannaþjóðir?

Hvað kostar milli flugvallar og borgar – Erum við að okra miðað við nágrannaþjóðir?
Fréttir
Í gær

32 metra „gangandi tré“ á Nýja-Sjálandi lítur út eins og Entur úr Hringadróttinssögu

32 metra „gangandi tré“ á Nýja-Sjálandi lítur út eins og Entur úr Hringadróttinssögu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bíll Þóris skemmdist illa á bílastæði Isavia sem neitar að bæta tjónið – „Ég reyndi að semja við þá en þeir vildu ekkert gera“

Bíll Þóris skemmdist illa á bílastæði Isavia sem neitar að bæta tjónið – „Ég reyndi að semja við þá en þeir vildu ekkert gera“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ný stórhættuleg hegðun hundaeigenda – „Hef séð tvo hunda drepast vegna svona útivistarhreyfingar“

Ný stórhættuleg hegðun hundaeigenda – „Hef séð tvo hunda drepast vegna svona útivistarhreyfingar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ýmsar ástæður fyrir svitakófi á næturnar – Þykk náttföt, jalapeno, sterar eða malaría

Ýmsar ástæður fyrir svitakófi á næturnar – Þykk náttföt, jalapeno, sterar eða malaría
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Norðurvígi skilgreind sem hryðjuverkasamtök – Með starfsemi í Reykjavík og Akureyri

Norðurvígi skilgreind sem hryðjuverkasamtök – Með starfsemi í Reykjavík og Akureyri
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Heimsókn í náttúrulaugarnar kostar sitt – Bláa lónið langdýrast – Jarðböðin við Mývatn og Fontana ódýrust

Heimsókn í náttúrulaugarnar kostar sitt – Bláa lónið langdýrast – Jarðböðin við Mývatn og Fontana ódýrust