fbpx
Mánudagur 20.maí 2024
Fréttir

Magga Frikka vann orrustu í stríðinu við Icelandair – Krefst yfir 24 milljóna eftir að henni var vísað út úr flugvél

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 2. júlí 2023 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur hafnaði á fimmtudag, þann 29. júní, þeirri kröfu Icelandair að skaðabótamáli Margrétar Friðriksdóttur, ritstjóra Fréttarinnar, gegn félaginu, yrði vísað frá dómi. Margrét krefst rúmlega 24 milljóna króna í skaðabætur vegna þess að henni var vísað út úr flugvél Icelandair haustið 2022 er hún var á leið í vinnuferð til Rússlands. Icelandair freistaði þess að fá málinu vísað frá á þeim grundvelli að stefna Margrétar uppfyllti ekki ákvæði laga um meðferð einkamála varðandi skýrleika. Þessu hafnaði dómarinn og benti á að kröfur Margrétar væru sundurliðaðar í stefnunni og öðrum upplýsingum í henni væri ekki nægilega ábótavant til að málinu yrði vísað frá.

Atvikið átti sér stað 23. september árið 2022 og var nokkuð fjallað um það í fjölmiðlum. Í stefnu Margrétar kemur fram að henni hafi verið gert að vista handfarangurstösku sína í neðra farangursrými vélarinnar þar sem öll geymslurými yfir sætum væru yfirhlaðin. Að öðrum kosti gæti hún ekki farið um borð. Þegar Margrét kom síðan að sætaröð sinni í vélinni sá hún að gnægð af farangurplássi var laust. Átti hún í orðaskiptum við flugfreyju um þetta sem sagði henni jafnframt að það væri grímuskylda í fluginu. Orðaskiptum þeirra lauk með því að Margréti var vísað frá borði og lögregla kölluð til. Margrét lýsir þessum atvikum svo í stefnu sinni:

„Í þeirri andrá er stefnandi kom þessu næst að sætaröð 11 í flugvélinni, hvar hann átti bókað sæti, veitti stefnandi því athygli að upplýsingar flugfreyjanna varðandi hleðslu eða lestun handfarangursrýmis voru augljóslega rangar því þar reyndist yfirdrifið pláss fyrir hendi, nánar greint og í það minnsta fyrir þrjár svipaðar töskur og henni hafði verið gert að skilja eftir við aðgangshlið samkvæmt fyrirmælum flugfreyja. Stefnandi kallaði þá í flugfreyju þá sem hvað mest hafði haft sig í frammi við aðgangshliðið og óskaði skýringa á því hvers vegna þær hefðu greint rangt frá varðandi handfarangursrými og benti henni vinsamlega á tóman geyminn ofan umgetinnar sætaraðar.

Í stað þess að svara hinni mjög svo eðlilegu og sjálfsögðu spurningu stefnanda brást tilgreind flugfreyja aftur á móti við með ruddaskap og nánast offorsi og hreytti út úr sér að það „væri ákveðið að taskan færi ekki þarna upp“ og bætti svo við með þjósti að grímuskylda væri um borð. Stefnanda fannst þetta allt vægast sagt undarlegt, enda hvorki þessi flugfreyja sjálf né stór hluti annarra farþega sem þarna voru staddir með grímu. Þar fyrir utan hafði ekkert verið minnst á einhverja grímuskyldu í tölvuskeytum eða öðrum skilaboðum frá félaginu viðvíkjandi umræddu flugi og allar takmarkanir löngu úr gildi fallnar innan íslenskrar lögsögu og hérlendu  yfirráðasvæði eins og kunnugt má vera.“

Þess má geta að Margrét hefur bent blaðamanni DV á að hún hafi eftir þetta notað sömu tösku sem handfarangur í flugi án athugasemda. Margrét og lögmaður hennar hafna því með öllu að nokkur grímuskylda hafi verið fyrir hendi í vélinni en Margrét hafi engu að síður farið að fyrirmælum flugfreyjunnar:

„Áréttað skal hér sérstaklega að í aðdraganda þessarar málshöfðunar hefur verið gengið tryggilega úr skugga um og það þannig staðreynt að engin grímuskylda getur talist hafa verið fyrir hendi í íslenskri lofthelgi á tilgreindu tímamarki og þá að sjálfsögðu ekki í umgetinni áætlunarvél heldur. Vísan flugfélagsins til einhverra þýskra reglna í þessu sambandi er þannig öldungis haldlaus og röng og getur ekki verið sett fram í neinum öðrum tilgangi en að villa um fyrir stefnanda og hlýtur þar með að teljast algerlega í bága við þjónustuskyldur og ábyrgð stefnda að lögum sbr. nánar síðar. Sönnunarbyrðin fyrir einhverri grímuskyldu hlýtur enda alfarið að hvíla á stefnda þar sem staðhæfing þessi er einvörðungu undan hans rifjum runnin. Þá skal einnig ítrekað hér að þrátt fyrir vissu stefnanda um að grímunotkunarskylda gæti ekki með réttu talist fyrir hendi setti hann upp grímu í samræmi við fyrirmæli flugfreyjunnar.

Vegna fyrrgreindra grímufyrirmæla innti stefndandi flugfreyjuna eftir því hvers vegna hún þá sjálf bæri ekki grímu fyrst hún segði slíka skyldu gildandi og fékk það svar frá henni að hún væri „bara ekki búin að setja hana upp“. Þrátt fyrir betri vitneskju og vissu stefnanda fyrir því að ekki gæti verið um að ræða réttilega gildandi grímuskyldu eins og áður greinir féllst hún engu að síður, nauðbeygð eins og nærri má geta, á það að setja upp grímu sem flugfreyjan afhenti henni. Svo virtist enn fremur að verulega fyki í fyrrnefnda flugfreyju þegar umbj.m. spurði út í grímuleysi hennar sjálfrar en hún setti þó eigi að síður eintak á andlit sitt.

Stefnandi og raunar allir þeir fjölmörgu farþegar sem vitni urðu að framferði flugfreyjunnar voru vægast sagt mjög forviða og slegnir yfir því, sérstaklega því að hún hafði skýrt rangt frá í sambandi við plássleysið í handfarangursrými þar sem í það minnsta þrjár töskur á borð við þá sem umbj.m. var gert að skilja við sig, hefðu komist þar fyrir. Það skal tekið fram að inngrip og þá fyrirmæli af tilgreindum toga um grímuburð mega að mati umbj.m. teljast aðför að þeim mannréttindum sem fólgin eru í eða leiðir af 71. gr. stjórnarskrárinnar sbr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr 62/1994 um frið- og persónuhelgi, þá ekki síst líkamlega vernd manns sbr. nánar hér síðar.“

Dýr vinnuferð fór í vaskinn og Margrét með háar skaðabótakröfur

Í stefnu Margrétar segir að með þessari ákvörðun flugfreyjunnar hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu og um hafi verið að ræða hreina geðþóttaákvörðun. Flugstjóravaldheimild er tilgreind í 4. mgr. 106. gr. loftferðalaga og er heimildin háð þeirri takmörkun að brottvísun verði að teljast nauðsynleg í því markmiði að afstýra ógn vegna flugöryggis eða annarra flugverndarhagsmuna.

Í stefnunni er síðan rakið að flugfreyjan hafi tjáð Margréti að hún þyrfti að yfirgefa flugvélina og hafi kallað til lögreglumenn sem leiddu Margréti frá borði. Ræddi Margrét áður um þetta við flugstjórann en hann sagðist ekkert geta gert, flugfreyjurnar réðu.

Áfangastaður flugsins var til München í Þýskalandi en þaðan ætlaði Margrét að fljúga til Rússlands og vinna að heimildarmynd. Verkefnið fór í súginn vegna brottvísunarinnar frá borði en skaðabótakröfur Margrétar á hendur Icelandair vegna málsins eru sundurliðaðar með eftirfarandi hætti:

550.000 kr. vegna farmiða

1.050.000 kr. vegna aukins launakostnaðar

1.080.000 kr. vegna hótelkostnaðar

18.000 kr. vegna leigubíls frá flugvelli

1.050.000 kr. vegna beins vinnutaps

420.000 kr. vegna áfallins lögfræðikostnaðar

20 milljónir vegna eyðilagðrar heimildarmyndar

Málið rétt að byrja

Í úrskurði héraðsdóms þar sem kröfu Icelandair um frávísun er hafnað segir að málinu sé frestað til 16. ágúst til frekari gagnaöflunar og sáttaumleitana. Miðað við það má áætla að aðalmeðferð í málinu verði í haust.

Margrét lagði fram fjárkröfu á hendur Icelandair í fyrra en henni var hafnað. Sagði hún þá að málið færi fyrir dóm eins og núna er orðin raunin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sviptingar í Landsrétti – Ákæru gegn látinni móður Jónasar James Norris vísað frá dómi

Sviptingar í Landsrétti – Ákæru gegn látinni móður Jónasar James Norris vísað frá dómi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vilja reisa vonarvita fyrir Grindavík – Upplýsta Grindavíkur geit

Vilja reisa vonarvita fyrir Grindavík – Upplýsta Grindavíkur geit
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Rúnar Hroði gefst ekki upp: „Ég ætla að fara með þetta alla leið“

Rúnar Hroði gefst ekki upp: „Ég ætla að fara með þetta alla leið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kristín nefnir algeng mistök við fasteignakaup og hvernig hægt er að forðast þau

Kristín nefnir algeng mistök við fasteignakaup og hvernig hægt er að forðast þau
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allir efstu sex forsetaframbjóðendurnir hafa djammað

Allir efstu sex forsetaframbjóðendurnir hafa djammað
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Málfræðingur ver viðtengingarhátt – „Hvar er sómakennd ykkar?“

Málfræðingur ver viðtengingarhátt – „Hvar er sómakennd ykkar?“