fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Rafmagnað andrúmsloft við aðalmeðferð í Barðavogsmálinu – „Ég var illa sofinn ég man það, ég var þreyttur afar þreyttur“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 29. mars 2023 11:10

Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðalmeðferð er hafin í Barðavogsmálinu svokallaða, en karlmaður á þrítugsaldri, Magnús Aron Magnússon er sakaður um að hafa orðið nágranna sínum í Barðavogi, Gylfa Hermanni Heimissyni að bana fyrir utan heimili þeirra þann 4. júní á síðasta ári. Málið er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Nú þurfum við að ræða saman

Magnús Aron mætti í dómsal í morgun í fylgd lögreglu og huldi hann ekki höfuð sitt. Hann var fyrstur til að gefa skýrslu.  Magnús lýsti því að Gylfi hafi bankað upp á hjá honum og  Magnús hafi farið til dyra.

„Hann stígur síðan inn og segir – Nú þurfum við að ræða saman,sagði Magnús.

Þá þegar hafi komið til átaka sem hafi fært sig út á stigapallinn sem var frekar þröngur.

„Þannig ég skallaði hann og svo skallaði ég hann aftur.

Gylfi hafi reynt að fella hann og Magnús þá hrint honum niður stigann. Átökin hafi svo færst út í garð.

„Er mjög aggressívt áfram. Mikil spenna í þessu. Sparka aftur í magann á honum og slæ hann með vinstri krók í kjálkann og mér skilst að ég hafi brotið kjálkann við það.

Þá hafi átökunum lokið og Magnús þá farið inn í íbúð aftur til að sækja sér stuttermabol, en hann hafði klætt sig úr honum í átökunum þar sem hann treysti sér ekki til að vera í honum.

„Ég sé að hann er illa farinn,sagði Magnús Aron um ástandið á Gylfa.

Sjá einnig: Magnús réðst á annan nágranna kvöldið áður sem upplifði ofsahræslu og íhugaði að flytja – „Mamma læsti bara bílnum þegar hún sá hann“
Sjá einnig: Lögreglu þótti Magnús vera óeðlilega rólegur – „Það sat svolítið í mér þetta orð“
Sjá einnig: Rannsóknarlögregla og starfsmenn tæknideildar lýstu aðkomunni í Barðavogi

Eins og dyraverðir gera

Ákæruvaldið spurði Magnús svo nánar út í lýsingu hans.

Þar greindi hann svo frá því að Gylfi hafi verið að toga í föt hans og því hafi Magnús gripið á það ráð að fara úr hettupeysu og stuttermabol sem hann var í, svo Gylfi gæti ekki notað fötin hans gegn honum. Magnús hafi svo gripið í skyrtu Gylfa og komið honum niður tröppurnar í stigaganginum „eins og dyraverðir gera.

Svo þegar þeir voru komnir út hafi Magnús Aron náð að rota Gylfa og þá hafi hann fallið í jörðina.

Aðspurður um hvort hann hafi ráðist frekar að Gylfa eftir að hann féll í jörðina svaraði Magnús því til að hann hefði þegar svaraði þeirri spurningu.

Hann greindi frá að hann hafi verið illa fyrirkallaður þennan dag.

„Ég var illa sofinn ég man það, ég var þreyttur afar þreyttur.

Magnús neitaði að tjá sig um samskipti við aðra nágranna. Hann sagðist sjálfur hafa slasast við átökin. Hann hafi verið með blóðnasir og blóðugur á efri vör.

Magnús var tregur til að svara spurningum um ástand sitt á þessum tíma og störf. Vildi hann vita hvers vegna þeim spurningum var varpað fram. Eftir að dómari útskýrði rétt hans til að tjá sig ekki um einstaka hluti sagði Magnús – „Ég neita að svara.

Var hræddur við Gylfa

Þá var komið að verjanda að spyrja Magnús. Við þær spurningar kom fram að Gylfi hafi bankað harkalega á hurðina hjá Magnúsi. Aðspurður um hver hafi átt „fyrstu snertingunasvaraði Magnús, eftir þó nokkra umhugsun, að hann muni það ekki.

Varstu hræddur við Gylfa? – „Já,svaraði Magnús. Gylfi hafi verið eldri, þroskaðri og í köflóttri skyrtu sem hafi látið hann virka mjög „breiðan“.

Magnús fullyrti að hann hafi aldrei í þessum átökum haft ásetning til að bana Gylfa.

Aðspurður af meðdómara um hvað Gylfi hafi ætlað að ræða við Magnús þennan dag svaraði Magnús að hann vissi ekki hvernig hann ætti að svara þeirri spurningu.

Þá sagði hann að nágrannar hans hafi ekki komið fram við hann eins og móður hans. Þau hafi ekkert viljað með Magnús hafa. Magnús hafi reynt að kynnast nágrönnum sínum en það hafi ekki gengið eftir.

Ákæruvaldið fékk síðan að spyrja Magnús aftur. Óskað var eftir nánari lýsingum á ýmsum atriðum og skýrsla sem hann gaf fyrir lögreglu borin undir hann.

Við lögreglu hafi Magnús lýst því svo að hann hafi liti’ svo á að nauðsynlegt væri að yfirbuga Gylfa, svo hann gæti ekki staðið upp og haldið átökunum áfram.

„Hann er særður, ég þurfti að yfirbuga hann – eftir allt – hann réðst á mig.

Vildi fá að horfa einn á myndbandið

Ákæruvaldið spurði ítrekað út í misræmi í framburði Magnúsar fyrir lögreglu annars vegar og svo fyrir dómi, einkum varðandi hvort Magnús hafi áfram beitt Gylfa ofbeldi eftir að sá síðarnefndi var kominn í jörðina.

Magnús vildi ekki að upptaka af samtali hans við lögregluna yrði spiluð í dómsal heldur vildi bara heyra samtalið lesið upp.

„Get ég horft á þetta prívat?, spurði Magnús þá. Dómari taldi það betra að spila myndbandið svo allir í dómssal gætu séð. Á myndbandinu má sjá Magnús ræða við lögreglumenn úr klefa sínum. Þar lýsir han því að hann hafi bæði lamið Gylfa og sparkað í hann eftir að hann var kominn í jörðina. Lýsti hann því sömuleiðis með látbragði.

„Ég lem hann meira til þess að sjá til þess að hann sé gjörsamlega yfirbugaður.

Lögreglumaður spurði hvort hann hefði sparkað líka í Gylfa liggjandi og sagðist Magnús hafa gert það þegar hann stóð upp. Á þeim tíma hafi Gylfi litið út fyrir að fá flogakast.

Neitaði að tjá sig um fyrra atvik

Verjandi Magnúsar spurði þá hvort við þessa óformlegu yfirheyrslu í fangaklefanum hafi Magnúsi verið gert vart um réttindi sín og boðið að hafa verjanda viðstaddan. Man Magnús ekki til þess. Magnús sagðist heldur ekki muna eftir því að lögregla hafi kannað hvort hann væri í ástandi til að gefa skýrslu. Magnús hafi litið á þetta sem almennt spjall en ekki sem yfirheyrslu.

Dómari, Barbara Björnsdóttir, spurði Magnús þá út í myndir af vettvangi í Barðavogi en þar hafi sést blóð á dyrakarmi við íbúð Magnúsar. Gæti hann útskýrt það?

Magnús andvarpaði og svaraði svo að hann gæti ekki skýrt það.

Þá spurði Barbara út í atvik sem hafi átt sér stað kvöldið áður.

„Ég neita að tjá mig um það, svaraði Magnús þá.

Barbara spurði þá um stöðuna á Magnúsi í dag. Hann hafi verið í gæsluvarðhaldi lengi og hvernig honum liði.

„Ekki vel,svaraði Magnús þá og spurður um að fara nánar út í það benti hann á að honum leiðist. Þetta sé öryggisfangelsi og lítið að gera.

Meðdómari spurði Magnús þá út í sögu hans um ofbeldi gegn dýrum. Hann hefði verið að sparka í hunda og ketti og hefði verið kvartað undan ofbeldisfullri hegðun hans í nágrenninu.

„Út á hvað ganga þessar spurningar hjá þér?, spurði Magnús þá. Hann bætti svo við að þessi atvik hafi átt sér stað löngu fyrir atvikið í Barðavogi. Hann hafi ekki leitað sér hjálpar.

Magnús var spurður hvort það hefði haft áhrif að móðir hans hafði verið lögð inn á sjúkrahús daginn fyrir atvikið. Magnús sagði að það hefði haft áhrif.

Að lokum var Magnús spurður hvort hann vildi bæta einhverju við.

„Ef ég hljóma hvass, ég er ekki gagngert að reyna að hljóma hvass, ég er ekki vanur svona stað.

Neitar að hafa banað Gylfa af ásetningi

Í ákæru er Magnúsi Aroni gefið að sök að hafa ráðist á Gylfa, fyrst inn á stigagangi hússins og síðan utan við húsið þar sem Magnús hafi sparkað, kýlt og traðkað ítrekað á höfði Gylfa og brjóstkassa með þeim afleiðingum að hann lést.

Magnús hefur neitað sök og borið því við að andlát Gylfa hafi borið að í átökum og lýsingar í ákæru séu rangar.

Níu hafa gert bótakröfu í málinu. Fjögur börn Gylfa, fjögur systkini hans og eitt foreldri. Magnús hefur viðurkennt bótakröfu barnanna og foreldris en hafnar bótakröfu systkina.

Magnús hefur áður verið sakfelldur fyrir ofbeldi og brot á barnaverndarlögum, en árið 2020 var hann fundinn sekur um að hafa veist að ungum dreng árið 2019 með ofbeldi, yfirgangi og vanvirðandi háttsemi. Þá var Magnús tæplega 18 ára að aldri. Var hann dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi og var því enn á skilorði í júní er Gylfi lét lífið.

Árið 2019 var hann handtekinn vegna ofbeldisfullrar hegðunar í garð mótmælenda á Austurvelli sem þá lýstu stuðningi við flóttamenn. Eins hefur Magnús ratað í fréttir fyrir ofbeldi gegn hundum í Langholtshverfi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt