fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Edda stendur við ásakanir sínar í garð Frosta

Ritstjórn DV
Mánudaginn 30. janúar 2023 10:08

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Edda Pétursdóttir, fyrrverandi unnusta fjölmiðlamannsins Frosta Logasonar, sendi frá sér örstutta yfirlýsingu á Twitter í gær þar sem hún ítrekaði að hún stæði við ásakanir sínar í hans garð. Orðrétt sagði hún: „Ég er búin að segja mína sögu og ég stend við hana.“

Er tístið viðbragð við yfirlýsingu Frosta í gær þar sem hann leiðrétti misskilning um játningu sína gagnvart ásökunum Eddu. Edda steig fram í viðtali við Eddu Falak í mars árið 2022. Hún sakaði Frosta um andlegt ofbeldi í sambandi þeirra, sem hafi helst lýst sér í mikilli stjórnsemi, hún sakaði hann um að hafa tekið upp með leynd kynferðisleg myndbönd af henni á Skype er þau voru í fjarsambandi, og loks sakaði hún hann um að hafa hótað því ítrekað í tölvupóstum, eftir að þau höfðu slitið sambandinu, að birta eða dreifa þessum myndböndum ef hún bæðist ekki afsökunar á framhjáhaldi.

Meðal annars eftirfarandi tilvitnanir í þessa tölvupósta birtust í fjölmiðlum í fyrra:

„Ég á í alvöru talað ekki til lýsingarorð yfir hvað mér er farið að finnast um þig. Ég vil koma á þig USB lykli. Þú ættir að vera mjög ánægð með það sem er á honum. Láttu mig vita hvernig þú vilt fá hann.“

„Ef að ég verð ekki búin að fá neitt frá þér um að þér finnist leiðinlegt að hafa komið svona fram við mig þann 1. des næstkomandi mun ég túlka það þannig að þér sé skítsama um þetta allt. Þá mun ég láta allt gossa.“

… Ég hef bara ekki viljað fara í þessa herferð ennþá af því að ég hef ekki áhuga á því að gera þér það ef að þetta er eitthvað sem þú lítur á sem mistök sem þú vildir óska að þú hefðir ekki gert. Ég er hinsvegar því miður að missa þolinmæðina. Nú ætla ég að bjóða þér að lokum að senda mér ekki nema eitt skilaboð eins og: „fyrirgefðu, [nafn mannsins], ég vona að ég meiki að ræða þetta við þig einhverntíman“ og þá skal ég setja þetta í salt þangað til þú treystir þér til að útskýra fyrir mér hvað þér hefur fundist um þetta. Ég á ekki að þurfa að senda þér fleiri pósta, annaðhvort veistu hvað er rétt að gera eða þú ert mjög andlega veik manneskja sem þarf að stoppa áður en þú skaðar fleiri manneskjur.“

Á tæplega einu ári eftir sambandsslitin sendi Frosti Eddu tæplega 80 tölvupósta og mörg smáskilaboð. Margir þeirra innihéldu hótanir um að birta kynlífsmyndbönd af henni.

Hvað viðurkennir Frosti og hverju hafnar hann?

Frosti var ekki nafngreindur í viðtalinu hjá Eddu Falak í fyrra en hann steig fram samdægurs með yfirlýsingu sem hann segir núna hafa verið misskilda. Hann steig jafnframt til hliðar úr starfi sínu hjá Sýn og kom nýlega til baka á vettvang fjölmiðlanna með hlaðvarpsveitu sinni, Brotkast. Þar hafa efnistök hans verið hvöss og beinskeytt og valdið deilum á samfélagsmiðlum. Yfirlýsing Frosta er hann steig til hliðar í fyrra var eftirfarandi:

„Í dag birtist viðtal við fyrrverandi kærustu mína sem ég átti í sambandi við á árunum 2009-2012 og var til umfjöllunar í Stundinni.

Ég vil taka það skýrt fram að ég tek fulla ábyrgð á minni hegðun og rengi ekki upplifun hennar.

Samband okkar var ekki heilbrigt og framkoma okkar við hvort annað langt í frá til fyrirmyndar. Ég var á vondum stað á þessum tíma. Ég tók sambandsslit okkar mjög nærri mér og í kjölfar þeirra kom hryllilegt tímabil þar sem ég var haldinn þráhyggju og sagði og gerði hluti sem ég sé mikið eftir.

Með hjálp sálfræðings, þerapista og tólf spora samtaka hóf ég bataferil minn. Hluti af því ferli var að eyða öllum okkar fyrri samskiptum. Ég hef því ekki gert mér grein fyrir nákvæmlega hvað ég hafði sagt og skrifað á þessu tímabili fyrr en ég sá viðtalið við hana í morgun.

Ég veit að ekkert getur bætt fyrir hegðun mína, það minnsta sem ég get gert er að gangast við því sem ég gerði og biðjast innilega afsökunar.“

Í yfirlýsingu Frosta í gær kemur hann því á framfæri að hann hafi aldrei gengist við öllum ásökunum Eddu heldur eingöngu þeim sem lúta að hótunum í hennar garð í tölvupóstum eftir að sambandinu lauk:

„…staðreyndin er sú að ég hef aldrei gengist við öllum ásökunum hennar eins og margir virðast nú halda. Í tilkynningu minni sagðist ég taka fulla ábyrgð á hegðun minni, og að ég rengdi ekki að henni hafi liðið illa vegna þess sem ég gerði eftir að sambandi okkar lauk. En þá fór ég í þráhyggju fyrir því að fá viðurkenningu á „brotum hennar“ gagnvart mér og tók að senda ítrekaða tölvupósta til hennar á nokkra mánaða tímabili. Mér þykir það mjög leitt að ég hafi gripið til innihaldslausra hótana í þessum tölvupóstum.“

Semsagt: Frosti hafnar því að hafa beitt Eddu andlegu ofbeldi í sambandi þeirra og hann hafnar því að hafa gert leynilegar upptökur af kynlífi þeirra:

„En svo að það sé ítrekað hér þá hef ég sem sagt viðurkennt og beðist afsökunar á að hafa sent óviðeigandi tölvupósta eftir að sambandi okkar lauk. Annað gerði ég ekki og ég hef ekki gengist við neinu öðru. Ég lagði aldrei hendur á fyrrverandi kærustu mína, beitti hana ekki andlegu ofbeldi á meðan á sambandi okkar stóð og ég gerði alls ekki neinar leynilegar upptökur af kynlífi okkar eins og haldið er fram.“

Sem fyrr segir voru hótanir Frosta um að birta kynlífsefni af Eddu margítrekaðar en samkvæmt yfirlýsingu hans í gær voru þær innantómar, það var ekkert slíkt efni í fórum hans.

Ásakanir um netníð

Komið hefur fram í samfélagsmiðlabirtingum Frosta og eiginkonu hans, Helgu Gabríelu Sigurðardóttur, að þau hafi mátt þola mikið netníð og andlegt ofbeldi í kjölfar málsins í fyrra. Helga Gabríela sagði meðal annars: „Ég get ekki ætlast til að fólk skilji hvernig það er að vera í þessum aðstæðum, þegar andrúmsloftið í þjóðfélaginu býður ekki upp á að karlmaður verji sig þegar á hann er ráðist og fjölskyldan hans geldur fyrir það.“

Sagði Helga að árásirnar á Frosta hafa verið nær linnulausar síðustu tíu mánuði og að hluta þess tíma hafi hún verið ein heima með börnin meðan hann var á sjó. „Ég upplifi þær árásir sem árásir á mig og það sem verra er, ég upplifi þær sem árásir á börnin mín.“

Helga segist allan þennan tíma aldrei hafa svarað fyrir sig, en þegar árásirnar og netníðið hafi náð hámarki á dögunum hafi hún brotnað gjörsamlega og fundist hún tilneydd til að svara fólkinu sem níðst hafi á henni og eiginmanni hennar. Helga svaraði fólki sem var að deila á Frosta á Twitter með innleggjum sem þóttu óhefluð og hún eyddi síðan. Um þetta sagði hún: „Ég svaraði í sömu mynt og ég sé mikið eftir því. Ég var ekki með sjálfri mér. Auðvitað átti ég aldrei að svara og ég mun aldrei gera það aftur.“

Frosta ítrekaði í færslu sinni í gær vilja sinn til sátta við Eddu. Hann segir að deilur þeirra eigi ekki erindi til almennings og segist bera von í brjósti um að Edda muni einhvern vilja ljúka þessu máli „á þann hátt sem báðir aðilar geta sætt sig við“.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mörg dæmi um að frændhygli, kunningsskapur og pólitísk fyrirgreiðsla ráði för – „Og svo spurði ég um spillingu“

Mörg dæmi um að frændhygli, kunningsskapur og pólitísk fyrirgreiðsla ráði för – „Og svo spurði ég um spillingu“
Fréttir
Í gær

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Maður á sjötugsaldri í gæsluvarðhald vegna andláts konu á Akureyri

Maður á sjötugsaldri í gæsluvarðhald vegna andláts konu á Akureyri
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jólaskotárásin á Hvaleyrarholti – Faðirinn skýldi 9 ára dóttur sinni fyrir skothríðinni

Jólaskotárásin á Hvaleyrarholti – Faðirinn skýldi 9 ára dóttur sinni fyrir skothríðinni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“