fbpx
Laugardagur 04.maí 2024
Fréttir

Jón Ívar vill breytingu á bólusetningum til að flýta endalokum heimsfaraldursins

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 1. mars 2021 07:59

Jón Ívar Einarsson. Mynd: Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvardháskóla, skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann leggur til breytta aðferðafræði við bólusetningar landsmanna gegn kórónuveirunni til að flýta endalokum faraldursins. Greinin ber yfirskriftina „Flýtum endalokum kófsins“.

Jón segir að framtíðin sé björt. Heimsfaraldurinn virðist vera í rénun og á heimsvísu hafi nýjum tilfellum fækkað um 50% síðustu 30 daga. „Meira að segja í Bandaríkjunum hefur tilfellum fækkað um 75% síðan hápunktinum var náð. Dauðsföllum hefur ekki fækkað eins mikið, en líklegt er að þeim fækki hratt á næstu vikum,“ segir hann.

Hann bendir á að óvissa ríki um virkni bóluefna gegn stökkbreyttum afbrigðum en hún virðist nokkuð góð fram að þessu.

„Nú berast líka þær góðu fréttir að fyrri skammtur Pfizerbóluefnis virðist gefa nálægt 85- 90% vernd gegn Covid-19. Seinni skammturinn hækkar þessa tölu upp í 95%. Modernabóluefnið gefur 80% vörn eftir fyrsta skammt. Seinni skammturinn eykur því virkni ekki mikið,“ segir hann síðan um virkni þeirra bóluefna sem búið er að taka í notkun. Hann bendir jafnframt á að þeir sem sýkjast eftir fyrri bólusetninguna fái yfirleitt væg einkenni og alvarleg veikindi séu mjög sjaldgæf.

„Nú er ekki vitað hversu lengi bóluefnin verja okkur og á það við bæði ef við fáum einn skammt eða tvo. Hins vegar eru vísbendingar um að jafnvel sé betra að bíða lengur með seinni skammt bóluefnis til að fá langtímavernd, eins og sýndi sig t.d. í bólusetningum við HPV-sýkingu. Við vitum samt vissulega ekki hvað er best að gera til að hámarka langtímavernd bóluefna gegn Covid-19 en ólíklegt er að það minnki langtímavirkni að seinka seinni skammti um tvo mánuði,“ segir hann um langtímavirkni bóluefnanna og víkur síðan að því sem hann segir hafa verið djarfa ákvörðun Breta sem ákváðu að seinka gjöf seinni skammtsins um þrjá mánuði. Þetta gera Bretar til að geta bólusett sem flesta á sem skemmstum tíma en með því sé hægt að hámarka þá vernd sem bóluefnið veitir samfélaginu í heild.

„Svo virðist sem Bretar hafi veðjað á réttan hest og hefur nýsmitum í Bretlandi fækkað um 80% síðan 10. janúar, þrátt fyrir hið „bráðsmitandi“ breska afbrigði. Þegar niðurstöður rannsókna gefa til kynna mjög góða vernd eftir einn skammt bóluefnis þá er siðferðilega erfitt að réttlæta að láta hluta fólks vera algjörlega óvarið á meðan aðrir fikra sig úr 90% í 95% vernd,“ segir Jón Ívar og víkur síðan að stöðunni hér á landi. Hann bendir á að nokkuð vel hafi gengið í baráttunni við faraldurinn en enn eigi margvísleg áhrif aðgerðanna eftir að koma fram. Nefnir hann þar frestun nauðsynlegra skurðaðgerða og skimunar við krabbameini, aukið ofbeldi gegn börnum, aukið heimilisofbeldi og aukna áfengisneyslu. Hann víkur síðan að ferðamannaiðnaðinum og hversu háð við erum honum og að hér sé nú mesta atvinnuleysið á Norðurlöndunum. Vel þekkt sé að atvinnuleysi leiði af sér dauðsföll og aðrar hörmungar.

„Þetta alvarlega ástand á Íslandi skapast að mestu vegna aðgerða gegn Covid-19 en leggst misjafnlega illa á samfélagið. Þeir sem eru í fílabeinsturni akademíunnar og/eða í þægilegu starfi hjá ríkinu hafa það bara nokkuð gott. Það eru þessir aðilar sem hafa mestan aðgang að fjölmiðlum og stýra því umræðunni,“ segir hann og skorar síðan á stjórnvöld að grípa til aðgerða til að stytta faraldurinn og aðgerðir gegn honum eins og kostur er. Hann segir að í ljósi nýjustu gagna sé ekki siðferðislega verjandi að halda áfram með óbreytta bólusetningaáætlun. Gera eigi eins og Bretar og lengja bilið á milli bólusetninga um þrjá mánuði því með því sé hægt að ljúka fyrri bólusetningu þjóðarinnar mun fyrr en ella.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Karl Arnar hristir hausinn: „Snúið fyr­ir einka­fyr­ir­tæki að standa í sam­keppni við djúpa vasa rík­is­ins“

Karl Arnar hristir hausinn: „Snúið fyr­ir einka­fyr­ir­tæki að standa í sam­keppni við djúpa vasa rík­is­ins“
Fréttir
Í gær

Kjartan vill að stakir frídagar verði færðir að helgum: Slíta í sundur vinnuvikuna og valda margvíslegu ónæði

Kjartan vill að stakir frídagar verði færðir að helgum: Slíta í sundur vinnuvikuna og valda margvíslegu ónæði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harry Potter-stjarnan opnar sig um vinslitin við JK Rowling

Harry Potter-stjarnan opnar sig um vinslitin við JK Rowling
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gullúr sem fannst á líki eins af farþegum Titanic seldist á rúmar 200 milljónir króna

Gullúr sem fannst á líki eins af farþegum Titanic seldist á rúmar 200 milljónir króna