Í dag var átján mánaða fangelsisdómur miðilsins Þórhalls Guðmundssonar staðfestur í Landsrétti.
Um er að ræða kynferðisbrot gagnvart tvítugum manni, en Þórhallur var sakaður um að hafa nauðgað honum, með því að fróa honum án samþykkis þegar að brotaþoli lá á nuddbekk. Þórhallur átti að vera að veita manninum meðferð vegna bakverkja. Í dómnum segir:
„Er ákærða gefin að sök nauðgun með því að hafa í umrætt sinn fróað brotaþola án hans samþykkis, með því að beita hann ólögmætri nauðung og þannig misnotað sér það traust sem brotaþoli bar til hans sem heilara er hann lá nakinn á nuddbekk hjá ákærða.“
Þórhallur var einnig dæmdur til að greiða manninum 800.000 krónur í miskabætur.
Í dómnum kemur fram að mennirnir hafi kynnst á árunum 2006 til 2007, en atvikið sem dæmt var um átti sér stað árið 2010. Dæmt hafði verið í málinu í fyrra í Héraðsdómi Reykjaness og nú aftur í Landsrétti, en sama niðurstaða kom í bæði skiptin.
Í vitnisburði brotaþola kemur einnig fram að Þórhallur eigi að hafa reynt að hafa ítrekað samband við hann eftir umrætt atvik, eða „gjörsamlega non stopp“. Hann á einnig að hafa fundið fyrir mikilli vanlíðan í kjölfar atviksins. Þá kemur fram í dóminum að vitnisburður brotaþola hafi verið trúverðugur, ólíkt vitnisburði Þórhalls, sem þótti „ósannfærandi og ótrúverðugur.“