fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

„Þetta orð, manndráp af gáleysi, það kemur oft upp í  hausnum á mér. Hvað er þetta annað en manndráp af gáleysi?“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Fimmtudaginn 16. maí 2019 10:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fríður Hilda Hafsteinsdóttir missti móður sína í nóvember vegna mistaka við umönnun hennar á hjúkrunarheimili Hrafnistu á Nesvöllum. Þrátt fyrir að Hrafnista hafi viðurkennt að mistök hafi átt sér stað, hefur Fríður frétt að engu hafi verið breytt í starfseminni og þykir það miður.

Fríður vakti fyrst athygli á málinu á Facebook í færslu sem vakti mikla eftirtekt.

„Kvöldið fyrir mæðradaginn sat ég ein heima bara hugsi og settist með tölvuna og færslan bara kom. Ég hef legið með hana í maganum í smá tíma, sagði Fríður í samtali við Bítið á Bylgjunni í morgun.

Fékk heilablóðfall 62 ára

Eins og DV hefur áður greint frá þá lést móðir Fríðu, Þóra Sigríður Njálsdóttir, þann 23. nóvember síðast liðinn, þá aðeins 68 ára gömul. Þóra fékk heilablóðfall 62 ára og þurfti eftir það aðstoð við helstu athafnir daglegs lífs. Hún var bundin við hjólastól og einnig með málstol sem gerði henni bæði erfitt með að tjá sig og olli henni kyngingarörðugleikum. Þá var hjúkrunarheimilið að Nesvöllum alveg að verða tilbúið og fékk Þóra þangað inn árið 2014.

„Glæsilega aðstaða, ekkert hægt að gagnrýna það og allt til alls. Hárgreiðslustofa og bara name it og við vorum ótrúlega ánægðar, við erum þrjár systurnar, að mamma væri komin í húsnæði, á stað þar sem við töldum hana örugga og gæti bara átt sín efri ár þar. […] Þa eru engin önnur úrræði fyrir þá sem verða fyrir heilabilun, annað en elliheimili eða hjúkrunarheimili. Sem hentar ekkert endilega svona yngra fólki, mamma var bara 62 ára. Þetta var skásti kosturinn í stöðunni.“

Lést vegna köfnunar

Til að byrja með báru Nesvellir af sér góðan þokka. Fljótlega fóru þó Fríður og systur hennar að taka eftir ýmsu sem betur mætti fara og þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir var engu breytt.

Líkt og áður kom fram fannst Þóra látin í hægindastólnum sínum í nóvember. Hún hafði verið að borða og starfsmaður sem átti að sitja yfir henni hafði skilið hana eftir eina, þrátt fyrir að vel væri vitað að Þóra þyrfti að borða undir eftirliti vegna kyngingarerfiðleika. Systrunum grunaði strax að dánarorsök væri köfnun vegna þess að staðið hefði í henni, en starfsmenn hjúkrunarheimilisins héldu öðru fram. Fríður fór strax fram á að móðir hennar yrði krufin. „Ég segi það þarna, ég segi það aftur um kvöldið og ég margítreka það.“ Það kom henni því á óvart þegar hún frétti frá útfararstofunni að móðir hennar hefði aldrei verið krufin. Þegar Fríður spurði forstöðu Nesvalla hvernig það stæði á því að engin krufning hefði farið fram, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hennar, var henni tilkynnt að það væri einfaldlega bara þannig að fólk sem lætur lífið á hjúkrunarheimilum er ekki krufið.

„Óháð því hvernig andlát ber á, það er ekki sent í krufningu. Þegar þú ert komin á hjúkrunarheimili ertu kominn þangað til að deyja og það skiptir engu máli  hversu gamall þú ert, eða hvernig þú deyrð.“

Þetta sættu systurnar sig ekki við og leituðu því til lögreglu til að fá móður þeirra krufna. Starfsmenn Nesvalla reyndu þó ýmislegt til að tala hana ofan af því.

„Þau sögðu mér að ég þyrfti að greiða fyrir hana sjálf, sem var ekki satt, og ég ég vildi fara með þetta í gegnum krufninguna þá væri ég að kæra starfsstúlkuna á vakt, sem var ekki satt.“

Enda leiddi krufning í ljós að Þóra hafði vissulega dáið sökum köfnunar. Einnig kom í ljós að engin endurlífgun hefði verið reynd, þó svo að starfsmenn Nesvalla hafi fullvissað Fríði um að svo væri.

„Í ljós kemur í krufningunni, eins og ég vissi og fann strax í hjarta mér, að það hefði staðið í henni. Hún sem sagt kafnar á mat. Þegar það byrjar að standa í henni, hún er ein inni í herbergi þegar það byrjar að standa í  henni, hún getur ekki kallað, hún getur ekki staðið  upp, hún getur ekki ýtt á bjöllu sem til varnar.

Það eina sem hún gat gert er að slá sér fram og aftur í stólnum, sem hún gerði af það mikilli hörku að hún braut bakið á stólnum. Svo maður getur ímyndað sér að það hafi mikið gengið á og í einhvern tíma.“

Þarna var líka gott fólk

Í kjölfarið reyndi Hrafnista að biðjast afsökunar og bauð Fríði og systrum hennar í kaffi og kökur.  En fyrirgefning var ekki eitthvað sem systurnar voru tilbúnar að veita.

„Þetta orð, manndráp af gáleysi, það kemur oft upp í  hausnum á mér. Hvað er þetta annað en manndráp af gáleysi?“

Eftir að Fríður birti færsluna á Facebook hefur rignt yfir hana skilaboðum, meðal annars frá aðilum sem eiga einhvern nákominn á Nesvöllum.

„Það hefur ekkert breyst. Þrátt fyrir að þetta hafi gerst í nóvember. [..] Það eru mannréttindi brotin, fólki er ekki sinnt og fólk er ekki öruggt.“

Ástæða þess að Fríður vill ekki kæra andlátið til lögreglu er sú að þá yrði það starfsstúlkan unga sem sá um móður hennar þennan tiltekna dag sem yrði látin sæta ábyrgð, og Fríður telur ekkert við hana persónulega að sakast. Þetta hafi bara verið liður í vinnustaðamenningu þarna og hana þurfi að laga. Engin kæra geti gert stofnunina ábyrga og það er vissulega stofnunin sem ber ábyrgð.

„Þarna var líka gott fólk, gott fólk sem sinnti mömmu vel, gott fólk sem þekkti hana fyrir. En það virtist ekki duga til. Það er eitthvað í yfirbyggingunni sem er að klikka. Það er vandamálið. Við endum öll þarna og hljótum að vilja að þetta sé í allt í lagi. […] Við eigum  að berjast fyrir því að þetta sé í lagi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Fjallar um fordóma gegn Baldri – „Hafa litlu mennirnir fengið háværari rödd?“

Fjallar um fordóma gegn Baldri – „Hafa litlu mennirnir fengið háværari rödd?“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk
FréttirPressan
Í gær

Dularfulla skáldsagan sem spáði fyrir um Titanic-slysið – Var höfundurinn geðveikur eða skyggn?

Dularfulla skáldsagan sem spáði fyrir um Titanic-slysið – Var höfundurinn geðveikur eða skyggn?
Fréttir
Í gær

Heilt íþróttafélag snerist gegn 12 ára dreng sem sakaði Dalslaugarníðinginn um kynferðisbrot – „Ég vissi að perrinn næðist, gæti ekki hætt“

Heilt íþróttafélag snerist gegn 12 ára dreng sem sakaði Dalslaugarníðinginn um kynferðisbrot – „Ég vissi að perrinn næðist, gæti ekki hætt“