fbpx
Miðvikudagur 08.júlí 2020
Fréttir

Þóra Sigríður lést 68 ára á hjúkrunarheimili – „Eftir situr samviskubit yfir að hafa ekki kvartað oftar eða hærra“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 12. maí 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þóra Sigríður Njálsdóttir lést þann 23. nóvember 2018, ein og afskipt í herbergi sínu á hjúkrunarheimili og var endurlífgun ekki reynd þegar komið var að henni, hún var 68 ára gömul.

Þóra Sigga eins og hún var alltaf kölluð bjó á hjúkrunarheimilinu Nesvöllum í Keflavík og telja dætur hennar þrjár að andlát hennar hafi komið til vegna vanrækslu starfsfólks á umönnun hennar. Þær höfðu ítrekað kvartað yfir umönnun móður þeirra.

„Í dag er mæðradagurinn, dagur ætlaður til að heiðra störf mæðra. Alla mæðradaga hef ég glaðst, glaðst yfir því að eiga bestu mömmu í heimi og seinna að fá þann heiður að vera mamma dásamlegu barna minna. En í dag get ég ekki glaðst. Málið er að í nóvember á síðasta ári var mömmu minni rænt frá mér,“ byrjar Fríður Hildur Hafsteinsdóttir, dóttir Þóru Siggu, einlæga færslu á sem hún birti í dag á Facebook á Mæðradaginn.

„Mamma fékk heilablóðfall fyrir nokkrum árum og málstol, þannig að hún gat lítið tjáð sig. Hún var bundin við hjólastól og þurfti aðstoð og eftirlit við daglegar athafnir, eins og að borða og þrífa sig,“ segir Fríður í samtali við DV.

„Nesvellir voru eini staðurinn sem stóð henni til boða, því það er enginn staður fyrir fólk, ungt fólk með heilabilun, og mamma var með fyrstu íbúunum þar.“
Þóra Sigga flutti inn á Nesvelli fljótlega eftir að heimilið var opnað 14. mars 2014. Samkvæmt heimasíðu þess er rík áhersla lögð á sjálfsákvörðunarrétt og þáttöku íbúa. „ Starfsfólk og íbúar vinna saman við að skapa heimilislegt, hlýlegt og virkt samfélag og starfsmenn taka það besta frá sjálfstæðri búsetu og sameina það öryggi hjúkrunarheimilis.“

„Húsnæðið er til fyrirmyndar og öll yfirbygging mjög flott og stór og flott lóð. Við vorum rosalega sáttar með þetta fyrst í stað, okkur var lofað gulli og grænum skógum með umönnun hennar, og þau ætluðu sér örugglega að standa við þetta allt saman, en svo einhvern veginn virtist þetta fjara út,“ segir Fríður, sem er búsett á Höfn í Hornafirði, en systur hennar, Hanna Dís og Þóra Kristrún, eru búsettar í Reykjanesbæ. „Það er fullt af góðu fólki að vinna þarna, og ég veit alveg hver ástæðan er fyrir að þetta drappast niður, og það er þetta klassíska pólitíska vandamál að það vantar peninga.“

Skýrt í öllum gögnum að Þóra Sigga þurfti aðstoð á matmálstímum

Fríður segir að eftir að móðir hennar hafi fengið heilablóðfallið, þá hafi það komið skýrt fram frá sérfræðingum í öllum gögnum um hana að hún þyrfti aðstoð við að borða. Gögnin hafi fylgt henni þegar hún flutti inn á Nesvelli.
„Það kom fram að mætti ekki skilja hana eina eftir þegar hún væri að borða.

Við málstol þá lamast talfærin og þar af leiðandi er hættara við að standi í fólki. Hún mátti ekki borða ákveðinn mat, það þurfti að þykkja vökva, þetta er eitthvað sem starfsfólkið vissi og átti að vita,“ segir Fríður.

Endurlífgun ekki reynd

„Ég fékk strax mjög óþægilega tilfinningu gagnvart þessu öllu og hringi og spyr hjúkrunarfræðinginn hvað hafi gerst og fæ þau svör frá henni að mamma hafi kannski fengið hjartaáfall eða heilablóðfall. Ég spyr hvort að það geti verið að það hafi staðið matur í henni og hjúkrunarfræðingurinn svarar með afdráttarlausu neii, að henni finnist það mjög ólíklegt,“ segir Fríður.

„Tveimum dögum seinna frétti ég frá útfararstjóranum að Nesvellir hafi ekki óskað eftir krufningu. Ég fékk þau svör frá forstöðukonu Nesjavalla, að almennt væri heimilismenn á hjúkrunarheimilum ekki krufið. Það er eins og það sé bara eðlilegt að fólk á hjúkrunarheimili deyi og enginn er að velta fyrir sér hvort dauðdaginn er eðlilegur eða ekki.

Systurnar fóru með beiðni sína um krufningu í gegnum lögregluna og gekk sú beiðni eftir án nokkurra vandkvæða.

„Mamma gat enn þá glaðst yfir lífinu, hún var enn að eignast barnabörn, það var fullt eftir. Þrátt fyrir að hún hafi búið á hjúkrunarheimili komu dætur hennar í heimsókn til hennar á hverjum degi. Mamma átti innihaldsríkt líf.“

Færslu Fríðar má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:

Í dag er mæðradagurinn, dagur ætlaður til að heiðra störf mæðra. Alla mæðradaga hef ég glaðst, glaðst yfir því að eiga bestu mömmu í heimi og seinna að fá þann heiður að vera mamma dásamlegu barna minna. En í dag get ég ekki glaðst. Málið er að í nóvember á síðasta ári var mömmu minni rænt frá mér. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá var mamma mín, Þóra Sigga, ein sú allra besta. Hugsaði einstaklega vel um alla í kringum sig, var endalaust fyndin og gerði allt sem hún gat til að vera glöð og gleðja aðra. Ógæfan dundi þó yfir ein jólin fyrir nokkrum árum þegar hún fékk heilablóðfall, varð bundin við hjólastól og þurfti að fá aðstoð við allar athafnir. Að auki fékk hún málstol og gat því ekki tjáð sig nema að litlu leyti og þurfti eftirlit og aðstoð við að borða. Mamma flutti þá á Nesvelli í Keflavík, hjúkrunarheimili sem þá hafði verið nýopnað. Enginn annar staður stóð okkur til boða og því varð hún að flytja á „elliheimili“ og vera þar innan um mun eldra fólk. Við gerðum gott úr því, okkur var lofað að þetta yrði bara eins og hennar heimili, með aðstoð. Hún fengi að stýra umönnun sinni, baðferðum, svefni og öðru sem eðlilegt telst. En ekkert stóðst. Umönnunin versnaði, eðlileg mannréttindi voru brotin. Allt í einu vissi starfsfólkið betur en mamma hvenær hún þurfti að fara á klósett, vildi fara að sofa eða fá að drekka. Hún var oft skítug, ekki þvegin í framan eftir matmálstíma og ógreidd um miðjan dag. Við systurnar kvörtuðum.

Mörgum sinnum, til allra sem við fengum til að hlusta. Starfsfólk, hjúkrunarfræðinga, forstjóra stofnunarinnar, yfirhjúkrunarfræðinginn. Mest kvörtuðum við þó yfir því að hún skyldi ekki vera með bjöllu þegar þau stilltu henni fyrir framan sjónvarpið inni í herberginu sínu. Þar sat hún föst og gat með engu móti látið vita af sér. Allir sem ég kvartaði við gerðu lítið úr þessu, sögðu mér að þau litu nú inn til hennar reglulega og þetta væri ekki neitt mál. Þegar ég spurði afhverju það væri svona mikið mál að láta hana hafa bjöllu svona til öryggis þá var svarið sú að þá lægi hún bara á bjöllunni og það skapaði svo mikið ónæði fyrir þá sem voru að vinna. Eftir að hafa tuðað og röflað í öllum sem ég gat varð þrekið alltaf minna og minna og ég varð samdauna þessari þvælu. Hætti að segja eitthvað, pirraðist úti í horni og gafst upp að lokum.

Í nóvember fékk ég símtal frá systur minni. Ég skildi ekki orð af því sem hún sagði, heyrði bara grátinn og öskrin og þá vissi ég strax að eitthvað hræðilegt hafið gerst. Mamma var dáin. Ég hringdi strax upp á Nesvelli, en ég er búsett á Höfn, fékk samband við hjúkrunarfræðinginn á vakt og hún tilkynnti mér að mamma hefði fundist látin inná herbergi. Hún hefði setið þar í stólnum sínum og var að borða kvöldmat. Starfstúlka hafði setið hjá henni en brugðið sér frá. Þegar hún kom aftur var hún látin. Mig grunaði strax hvað hefði gerst og spurði hjúkrunarfræðinginn hvort mögulega hefði staðið í henni maturinn. Þá kom fát á hann, honum hafið greinilega ekki dottið það í hug. „Nei… hún fékk örugglega hjartaáfall eða heilablóðfall eða eitthvað. Það var aldrei reynd nein endurlífgun, fólk sem býr á elliheimili er komið þangað til að deyja, sama hversu gamalt það er. Mamma var send í krufningu. Ekki afþví að Nesvellir vildu vita hvað kom fyrir, ónei þeim var sko alveg sama. Ég þurfti að fara í gegnum lögregluna til að fá krufninguna í gegn. Þá fengum við það staðfest, mamma lést því það stóð í henni. Hún var ein inní herbergi, föst í stól, með enga bjöllu og gat enga björg sér veitt. Það var líka staðfest í krufningunni að það var engin endurlífgun reynd, þrátt fyrir að yfirmenn Nesvalla hafi reynt að halda því fram. Þannig var mömmu minni rænt frá mér.

Hún lést afþví að hún var ein inná herbergi með mat, þó það hafi verið skýrt að hún yrði að borða undir eftirliti.

Hún lést af því að hún var ekki með bjöllu til að láta vita af sér, þó það sé skýrt að vistmenn eigi að vera með hana.
Hún lést af því að engum datt í hug að framkvæma endurlífgun. Hennar líf var greinilega ekki þess virði.

Eftir að þetta kom allt í ljós vorum við systurnar boðaðar á fund hjá æðstu ráðamönnum Hrafnistu, þar sem okkur var boðið í kaffi og kökur, við beðnar afsökunar og þau viðurkenndu að mistök hefðu orðið í umönnun mömmu. Við löbbuðum út af þeim fundi enn ringlaðri en áður.

Getum við systur fundið sátt í hjarta okkar? Að þetta hafi bara verið slys? Að andlát mömmu hafi verið slys? Mannleg mistök í umönnun, eins og þeir á Hrafnistu sögðu? Eða var það manndráp af gáleysi?

Um manndráp af gáleysi er fjallað í 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en þar segir:
„Ef mannsbani hlýst af gáleysi annars manns, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 6 árum.“

Ákvæðið á jafnt við um alla, óháð starfsstétt og stöðu. Ef gegn og skynsamur maður (svokallaður bonus pater familias) sem getur verið rútubílstjóri, flugmaður, skipstjóri, verkstjóri, læknir, hjúkrunarfræðingur, eða hver annar, hefði átt að gera sér grein fyrir tilteknum aðstæðum og bregðast við í samræmi við það en hann/hún hefur hins vegar ekki gætt þeirrar varkárni sem af honum/henni mátti ætlast, er um refsivert gáleysi að ræða. Greina þarf refsivert gáleysi frá óhappatilviljun og lítilfjörlegu gáleysi, sem getur ekki orðið grundvöllur refsiábyrgðar.

Ég held að það sé ekkert gott svar til. Eftir situr bara samviskubit yfir að hafa ekki kvartað oftar eða hærra.

Þannig að þið megið endilega deila þessari færslu. Ef einhver sem les hana á aðstandanda á stofnun og hefur svipaða sögu að segja: ekki gefast upp. Látið rödd ykkar heyrast.

Svo það sé alveg skýrt þá geri ég mér vel grein fyrir því að starf þeirra sem starfa á hjúkrunarheimilum er ekki auðvelt. Mannekla, fjársvelti og ýmislegt kemur þar inn í. Á deildinni hennar mömmu var upp til hópa gott fólk sem gerði sitt allra besta, en það dugði ekki til. Af einhverjum ástæðum sem ég get ekki skilið endaði þetta svona.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Trump sparkar erlendum nemendum í fjarnámi úr landi

Trump sparkar erlendum nemendum í fjarnámi úr landi
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Veðurvaktin: Áfram hlýtt og stillt veður – Bongó framundan.

Veðurvaktin: Áfram hlýtt og stillt veður – Bongó framundan.
Fréttir
Í gær

Sigurbjörn kom að slysinu á Kjalarnesi – „Jesús minn!“ hrópaði kona sem var á svæðinu“

Sigurbjörn kom að slysinu á Kjalarnesi – „Jesús minn!“ hrópaði kona sem var á svæðinu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólga hjá slökkviliðinu – Allir bílar á vettvangi undirmannaðir

Ólga hjá slökkviliðinu – Allir bílar á vettvangi undirmannaðir