Tvær sprengjur voru sprengdar í Uppsölum í Svíþjóð í gærkvöldi og fyrrakvöld. Einn maður slasaðist lítillega og töluvert eignatjón hlaust af. Önnur sprengjan var svo öflug að íbúar í stórum hluta Uppsala heyrðu þegar hún sprakk um klukkan 23.30 í gærkvöldi. Lögreglan vinnur að rannsókn málanna en veit ekki hver eða hverjir stóðu á bak við sprengingarnar.
Í gærkvöldi sprakk sprengja í ruslageymslu við verlsun á Kvarntorget. Hótel, sem stendur við torgið, skemmdist einnig í sprengingunni. Lögreglan rannsakar málið sem morðtilraun og ógn við almannaöryggi. Aftonbladet segir að sprengjusérfræðingar lögreglunnar hafi komið á vettvang og leitað að fleiri sprengjum.
Talsmaður slökkviliðsins sagði að maður hafi verið fluttur á sjúkrahús eftir sprenginguna en hann var við hótelið og varð fyrir minniháttar meiðslum af völdum glerbrota sem rigndi yfir hann.
Á mánudagskvöldið sprakk sprengja við húsnæði félagsþjónustunnar í Gottsunda. Enginn meiddist og eignatjón var lítið.