fbpx
Sunnudagur 14.ágúst 2022
Fréttir

Sigurður Pálsson

Vinarminning

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 6. október 2017 15:39

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurður heitinn Pálsson var alltaf til í að efast um viðtekin sannindi, þessi sem við aðhyllumst hugsunarlaust. Og væru allir sammála um eitthvað þá fór hann að brjóta það til mergjar. Einhverntíma hefur hann verið að hugsa um orðasambandið „ljósið fellur“ eins og sagt er að það geri á hitt og þetta, og þá varð til þetta dásamlega ljóð:

Ljósið fellur ekki
og hefur aldrei gert

Það er með sterkari vængi
en hásir mávarnir

Ljósið tekur sífellt á sig
nýjar myndir:

Þanin segl
við sjónarrönd
Glitrandi bergvatn
Andardráttur í svartamyrkri

Ljósið fellur ekki
og hefur aldrei gert

Það streymir stöðugt
innan frá

Þetta með að ljósið streymi innan frá minnir mig á Sigga; hann var alltaf að velta fyrir sér einhverju áhugaverðu, en frá honum streymdi líka alltaf glaðvær birta, og alltaf ef eitthvað skemmtilegt var sagt eða hugsað, óvenjulegt eða jafnvel fáránlegt, þá lýsti hann skærar.

Samstarfsmaður, nágranni

Ég var svo heppinn að vera samferðamaður Sigurðar Pálssonar; samstarfsmaður, nágranni og vinur. Maður kynntist fyrst ljóðum hans í Ljóð vega salt, frá árinu ’75 þegar ég var á tuttugasta árinu en hann orðinn fullorðinn maður, svo fylgdist maður með honum og listaskáldunum fullur aðdáunar og lotningar hreinlega, en ég hitti hann fyrst í september 1977 þegar við nafnarnir og vinirnir, ég og Einar Már Guðmundsson, vorum á skáldlegum og ungæðislegum Evrópuþvælingi og dvöldumst um hríð í París. Fengum að vita að Íslendingar í borginni hittumst á laugardagskvöldum á barnum fræga Select á Montparnasse, og þótt Siggi væri þar mestur heimamaður og óskoraður foringi og þá þegar orðinn virt skáld, en við Einar værum rétt skriðnir úr menntaskóla og hefðum varla af öðrum ritverkum að státa en þeim sem við höfðum í eigin skrifborðsskúffum og glósuheftum, þá sýndi Siggi okkur ekkert nema þá virðingu og elskusemi sem var honum eðlislæg. Svo þegar við nafnar ætluðum að fljúga heim í Háskólann ekki löngu síðar var brostið á með verkfalli og við sátum fastir. Fengum þá undarlegu hugmynd að við gætum kannski gert alþjóðlegri bílaleigu þann greiða að aka fyrir hana bíl sem hún þyrfti nauðsynlega að koma til Norðurlanda, og hafandi leyst það af hendi værum við að minnsta kosti komnir hálfa leið. Og Siggi bauð okkur heim til sín og lagðist þar sjálfur í síma, enda mæltur á frönsku eins og innfæddur, og kannaði hvort þessi möguleiki væri fyrir hendi. Það var ekkert sem hann nennti ekki að gera, fyrir jafnvel stráka eins og okkur.

Formaður Rithöfundasambandsins

Svo leið til ársins 1984 og þá um vorið voru væntanleg stjórnarskipti í Rithöfundasambandi Íslands og áhrifamenn höfðu samband við mig og spurðu hvort ég vildi verða stjórnarmaður í væntanlegri stjórn sem Sigurður Pálsson hefði gefið kost á sér til að leiða sem formaður, og svo vorum við kjörnir ásamt öðru góðu fólki. Brátt fór það svo að ég varð hægri hönd Sigurðar formanns, tveimur árum síðar varaformaður, og tók svo við formennskunni ’88 þegar hann vildi hætta. Ég vissi auðvitað fyrir að Siggi væri frábært skáld, en var samt aðeins efins um að svona félagsmálastúss hentaði jafn ljóðrænt þenkjandi manni. En það reyndust óþarfar áhyggjur: Siggi var allt í senn, glöggur, nákvæmur, aðgætinn en hugmyndaríkur, og hafði sérstakt lag á að vinna fólk á sitt band. Og að auki var hann snilldar samningamaður. Hann tók sumpart við erfiðri stöðu; skömmu áður hafði hópur félagsmanna gengið út og reynt að endurreisa annað rithöfundafélag, og hefði það tekist hefði Rithöfundasambandið varla borið sitt barr. En nýi formaðurinn ákvað að í stað þess að fara í opið stríð við hina brotthlaupnu og þeirra samtök að líta heldur svo á að það hefði aldrei neitt gerst; sumir vildu ekki vera með í einhverju félagi, það væri þeirra val, en það væri samt enginn klofningur; Rithöfundasambandið stæði eitt á sviðinu. Og eftir að við höfðum fylgt þessari línu í nokkur ár lognuðust hin samtökin útaf og meðlimirnir skiluðu sér heim.

Á þessum tíma þegar við Siggi vorum „form. og varaform.“ eins og hann kallaði okkur, uppúr skammstöfun í skýrslum stjórnarfunda, eignuðumst við báðir íbúðir, ég neðst í Stigahlíð en hann rétt hjá, eða ofarlega í Mávahlíð. Í báðar fjölskyldur bættust börn árið ’87 og Júlía dóttir mín og Jóhannes sonur hans urðu vinir og félagar á leikskóla, þau blésu saman á kerti í barnaafmælum sem og að útskrifast seinna saman úr MR.

Hann gat leyft sér margt

Siggi var svo mikill tungumálamaður að það hefði aldrei hvarflað að honum að láta útlendan hreim lita móðurmálið. Eitt sinn kom ég til að hitta hann á skrifstofu Rithöfundasambandsins en Rannveig framkvæmdastjóri sagði að hann væri á innri skrifstofunni að funda með Íslendingi sem hefði búið nokkur ár í Svíþjóð. Ég ætlaði að hinkra en Rannveig sagði: Blessaður farðu inn og truflaðu, Siggi getur ekki afborið að hlusta á manninn því hann talar með sænskum hreim. Tungutak hans sjálfs var litað af Axarfirði og svo Skaftafellssýslu þaðan sem föðurfólk hans var. Hann sagðist minnast þess að eitt sinn hafi afasystir hans þaðan verið í heimsókn fyrir norðan og talað um kýrnar sem kjurnar – því hafi komið sér á óvart að heyra frá fræðimönnum fáum árum síðar að sá skaftfellski framburður hefði dáið út fyrir meira en öld.

Siggi var nógu flinkur íslenskumaður til að geta slett í óvæntasta samhengi – ég viðraði einhverntíma við hann þá skoðun mína að Ásbyrgi væri fallegasti staður landsins, og þá sagði hann: Já, ég ólst nú upp þar rétt hjá en heyrði oft í æsku talað um hvað væri fallegt á Þingvöllum, en svo þegar ég loksins kom á þingstaðinn hugsaði ég: Kidstöff!

Siggi var svo handgenginn svokallaðri hámenningu, hvort sem það var ljóðlist, tónlist, myndlist, leikhús eða heimspeki að það hvarflaði ekki að honum að lítilsvirða það sem frekar var kallað dægurlist; Rolling Stones og Bob Dylan voru hans menn, og vei þeim sem reyndu að efast um verðleika þess síðarnefnda ef hann hitti Sigga í kringum nóbelsverðlaunin í fyrra. Og Siggi var svo mikill heimsmaður að það var honum átakalaust að grípa til skilgreininga sem voru eins og upp úr þjóðlegum íslenskum fróðleik, þegar það átti við. Eitt sinn vorum við sem forystumenn í okkar félagi að reyna að glöggva okkur á mönnum sem okkur féllu vel vel í geð, en þurftum að ná samningum við; ég var að reyna að átta mig á hvaða mann þeir hefðu að geyma. En Siggi sagði: maður skilur þá ekki án þess að muna að þeir eru báðir Suður-Þingeyingar.

Þótt Siggi væru mælskur og vefðist sjaldnast tunga um tönn þá kom oft á hann hik þegar kom að niðurstöðu hans pælinga, eða kannski bara síðasta orðinu. Þegar þannig töf verður getur áheyrandi átt það til að verða stressaður, hann fer að reyna að hjálpa til, stinga upp á orði, botninum í setninguna. En ég lærði fyrir löngu að það var alltaf þess virði að bíða eftir lokahnykknum í máli Sigga, því lengri sem töfin varð, því meira áberandi sem hikið virtist vera, því snjallari var yfirleitt niðurstaðan, þeim mun fyndnara varð það, óvæntara, því dýpri viska.

Fjórmenningaklíkan

Þegar við vorum hættir að hittast á reglulegum stjórnarfundum þar sem Siggi sat við borðsendann og var orðheppinn og skemmtilegur fórum við að sakna samverustundanna; Þórarinn Eldjárn og Sjón voru með okkur í stjórn mestallan þann tíma sem við vorum í félagsmálastússi og það var Þórarinn sem stakk upp á því að við hittumst vikulega á kaffihúsi. Og það höfum við svo gert síðasta aldarfjórðung, verið fjórmenningaklíka með mikilli vináttu. Á hverju ári hafa alltaf einhverjir okkar verið með nýjar bækur á markaði, stundum tveir og stundum þrír, og í fyrra, 2016 vorum við allir að gefa út bækur og fyrir tæpu ári efndum við saman til upplestrarstundar í Hannesarholti fjórir saman, lásum hver á fætur öðrum, völdum að lesa í röð eftir hækkandi aldri, þannig að Siggi var síðastur, annað kom ekki til greina, og las úr sínu síðasta snilldarverki Ljóð muna rödd, glæsilegur og öruggur í fasi og ljósið skein úr augum hans að vanda þótt hann væri þá búinn að slást við sitt mein í langan tíma, nema hvað röddin var farin að ryðga, en hann sagði í ávarpsorðum að það gerði ekkert til því að ljóð muna rödd.

Júlía sagði

Júlía, dóttir mín, þekkti Sigga alveg frá því hún fór að muna eftir sér og það sem hún skrifaði á Facebook þegar hún frétti um andlát hans segir sögu um hjálpsemi og örlæti Sigga. Hún sagði: „Þegar ég var í basli með BA-ritgerðina mína fór ég heim til Sigga og Diddu, nágranna minna, vina minna síðan ég fæddist. Þau töluðu bæði hvort annað í kaf, stóðu upp á víxl og lýstu Nietzsche fyrir mér með þvílíkum eldmóði að ég get ekki annað en uppljómast. Siggi sagði við mig: „Júlía, sannleikurinn er fragment, hann er mósaíkmynd,“ og þá skildi ég loksins hvað ég væri að skrifa um. Siggi hafði tekið sér viku í að leggjast yfir handritið mitt að MA-verkefninu mínu, tveimur árum eftir að hafa bjargað BA-ritgerðinni minni. Hann bauð mér svo upp á kaffi í horninu á Rósenberg, og hann sagði þetta við mig eftir langt spjall. Hann sagði: Bókin þín ætti að vera þrír eða fimm hlutar, því þrír og fimm er hreyfing. Hann talaði líka um að ef mér fyndist einhverntíma erfitt að fá innblástur og vantaði að ná tengingu við töfrana í heiminum, þá ætti ég að skrúfa frá krananum alveg í botn og standa við hann. Þá myndi ég finna kraftinn.“

Siggi Páls var einfaldlega þannig maður að veröldin verður ekki söm eftir að hann er horfinn af sviðinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Brotist inn í lúxusvöruverslunina Attikk í morgun – MYNDIR

Brotist inn í lúxusvöruverslunina Attikk í morgun – MYNDIR
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íslenskur karlmaður úr lífshættu eftir líkamsárás í Álaborg

Íslenskur karlmaður úr lífshættu eftir líkamsárás í Álaborg
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Landhelgisgæslan hjálpar til við brúarsmíði með óvenjulegum hætti – Brúarbitar, göngubrú og vatnstankar flutt með þyrlunni

Landhelgisgæslan hjálpar til við brúarsmíði með óvenjulegum hætti – Brúarbitar, göngubrú og vatnstankar flutt með þyrlunni
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Gunnar vonsvikinn eftir fund um mál kennarans sem smánaði hann – „Þær sögðu að þetta væri ekki einelti heldur mistök“

Gunnar vonsvikinn eftir fund um mál kennarans sem smánaði hann – „Þær sögðu að þetta væri ekki einelti heldur mistök“