fbpx
Mánudagur 22.júlí 2024
Fókus

Brúnn fangavörður

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 5. maí 2019 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1785 var Daninn Sigvardt Bruun sendur til Íslands til að verða fangavörður í tukthúsinu á Arnarhóli, sem í dag er Stjórnarráðið. Fangelsið var reist á árunum 1761 til 1771 og þótti hinn skelfilegasti staður. Fangar vesluðust þar upp úr sulti og af harðræði fangavarðanna. Bruun, eða Brúnn fangavörður eins og hann var kallaður, var talinn sá versti. Hann var þó einungis þar í um tvö ár.

Skelfilegur staður

Verður hér stuttlega gerð grein fyrir aðstæðunum almennt. Á þessum árum var föngum þrælað út í vinnu af ýmsum toga. Margir karlfangar voru sendir í ver, í uppskipun, grafmokstur og kúagæslu svo dæmi séu tekin. Fangelsið var með eigin útgerð og bæði formenn og hásetar á bátunum voru fangar. Einnig voru fangar sendir til vikulangra vista í sveitir, bæði karlar og konur. Kvenfangar unnu margar við við spuna í Innréttingunum. Yfirleitt voru um 40 fangar í fangelsinu á hverjum tíma en fangelsið rúmaði 60.

Barsmíðar voru algengar í fangelsinu, stundum svo miklar að þær leiddu til örkumla eða dauða. Sem dæmi lést maður að nafni Þorsteinn Einarsson árið 1808 eftir slíka meðferð. Voru fangarnir oft bundnir með köðlum eða geymdir í járnum. Til að mynda Bjarni Bjarnason, hinn alræmdi morðingi frá Sjöundá. Algengara var þó að fangar létust úr sulti, sjúkdómum og vesöld. Oft um tíu talsins á einu ári.

Stjórnarráðið Ótal fangar létust vegna vesaldar og slæmrar meðferðar fangavarða.

Helmingur dó fyrsta árið

Brúnn fangavörður hóf störf í tukthúsinu á einhverjum mesta vesaldartíma í sögu þjóðarinnar, í miðjum Móðuharðindunum. Eftir gosið í Lakagígum árið 1783 og jarðskjálfta árið eftir var mikið mannfall. Búfénaður drapst, bændur brugðu búi og lentu á hrakhólum. Hungursneyð var í landinu.

Slíkar hörmungar koma ávallt verst niður á þeim sem eru í veikustu stöðunni. Í fangelsinu á Arnarhóli lést um helmingur fanganna árið 1785. Vanræksla og harðræði Brúns fangavarðar hefur augljóslega haft þar áhrif.

Brúnn var mjög illa þokkaður af föngunum og ekki ólíklegt að hann hafi verið hreinasti sadisti. Það var lenska að koma illa fram við fanga, bæði hér á Íslandi og erlendis. Að illska eins fangavarðar hafi orðið fræg, umfram aðra, bendir til þess að hann hafi verið óvanalega harðhentur og illgjarn.

Fangavörður
Mynd frá Frakklandi.

Sögur af nauðgunum og morðum

Brúnn var giftur maður en samkvæmt þjóðsögunum var hann kvennamaður mikill. Komst hann yfir margar ungar snótir og skipti þá ekki alltaf máli hvort þær væru viljugar eða ekki. Gekk sú saga að Brúnn hefði barnað stúlku sem vistuð var í fangelsinu. Hann hafi síðan barið hana til bana áður en hún gat eignast barnið.

Önnur saga gekk af tveimur föngum, manni og konu sem felldu hugi til hvort annars innan veggja. Lítil aðgreining var á kynjunum í fangelsinu og barneignir nokkuð algengar innan veggja. Þegar Brúnn komst að ást þessa fólks veitti hann manninum „slíkan áverka“ að hann gæti ekki hneigst framar til kvenna. Ætla má að Brúnn hafi skorið undan fanganum. Fanginn lést skömmu síðar samkvæmt sögunni. Mögulega hafi Brúnn ætlað konuna fyrir sig sjálfan.

Sagt var að Brúnn hefði á sínum stutta tíma í fangelsinu náð að drepa sextíu fanga. Ekki fylgdi sögunni hvort það væri allt saman með beinum eða óbeinum hætti. Sennilega mun það aldrei koma nákvæmlega í ljós hversu mörg dauðsföll Brúnn hafði á samviskunni. En ljóst er að það frægasta morðið sem hann er kenndur við gat hann ekki hafa framið.

Sagt var að Brúnn hefði drepið Steinunni á Sjöundá, sem dæmd var fyrir morð ásamt ástmanni sínum, Bjarna Bjarnasyni sem áður var nefndur. Átti Brúnn að hafa barnað hana og svo drepið með eitri út í morgunkaffið. En Steinunn lést árið 1805, löngu eftir að Brúnn var fallinn frá. Hafa þessar sögur skolast til í munnmælum milli manna í tímans rás. Sagan af Steinunni og dys hennar, Steinkudys, er enda vel kunn almenningi.

Brúnn deyr

Brúnn fangavörður dó árið 1787, aðeins tveimur árum eftir að hann hóf störf í fangelsinu. Sagan af dauðdaga Brúns hefur jafn mikinn þjóðsagnablæ og sögurnar af störfum hans.

Einn morguninn reis hann úr rekkju og gekk út á túnið við Arnarhól. Þar stóð hestur sem hann kannaðist ekki við, brúnn að lit. Vildi Brúnn reka hann í burtu og gekk því aftan að honum. Þá brá hesturinn upp afturfótunum og sparkaði í brjóstkassann á Brúna. Hneig hann niður og lést skömmu síðar en hesturinn tók á rás.

Hesturinn fannst aldrei og kannaðist enginn við að hafa séð hann áður. Töldu sumir að í hrossinu væri óhreinn andi sem sendur hefði verið til þess að gera út af við Brún fangavörð. Sennilega sem hefnd fyrir þá illsku sem hann hafði gerst sekur um í fangelsinu.

Brúnshús

Eiginkona Brúns hét Christine. Bjó hún í beykihúsi sem Skúli fógeti lét reisa fyrir Innréttingarnar, við Tjarnargötuna (þar sem nú er Tjarnargata 4). Var húsið ávallt kallað Brúnsbær þó að óvíst sé hvort Brúnn sjálfur hafi komið þar inn. Christine keypti Brúnsbæ eftir fráfall manns síns og bjó þar í nokkur ár. Brúnsbær var rifinn í kringum 1830 og var þekktur bær í Reykjavík. Sér í lagi í tengslum við reimleika árið 1823 þar sem Sigurður Breiðfjörð skáld kvað niður draug. Var þá ekki allt sem sýndist. En það er saga sem sögð verður síðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Goðsögnin Bob Newhart er látinn

Goðsögnin Bob Newhart er látinn
Fókus
Fyrir 4 dögum

Auglýsing um Osló með Halfdan í fararbroddi slær í gegn

Auglýsing um Osló með Halfdan í fararbroddi slær í gegn
Fókus
Fyrir 5 dögum

Maðurinn sem var fyrirmyndin að Stjána bláa

Maðurinn sem var fyrirmyndin að Stjána bláa
Fókus
Fyrir 5 dögum

Atli tilnefndur til EMMY-sjónvarpsverðlauna

Atli tilnefndur til EMMY-sjónvarpsverðlauna