fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Ákærð fyrir sifjaspell þó að faðirinn hafi viðurkennt nauðgun

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 28. apríl 2019 15:30

Saurbær í Eyjafirði Jörðin þar sem Þórunn var í vist.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Undir lok 19. aldar voru feðgin í Eyjafirði dregin fyrir rétt, sökuð um blóðskömm eftir að barn kom undir. Bæði höfðu verið yfirheyrð og í grófum dráttum voru þau sammála um að faðirinn hefði nauðgað dótturinni. Bæði vitnuðu þau einnig um að hún hefði barist gegn ódæðinu. Í augum ákæruvaldsins voru þau hins vegar bæði sek um glæp.

 

Nauðgað við smölun

Þann 20. maí árið 1892 fæddi hin nítján ára gamla Þórunn Guðmundsdóttir meybarn. Þórunn var ógift vinnustúlka á Saurbæ í Eyjafirði þar sem hin þekkta kirkja stendur enn í dag. Lýsti hún föður sinn, Andrés Guðmund Jóhannesson, sem föður stúlkunnar. Hann var 47 ára vinnumaður á Úlfá, sem var bær skammt frá Saurbæ.

Í yfirheyrslu stendur:

„Í rannsókn þeirri, er hafin var út af þessu, hefur hin ákærða stöðugt borið það, að barn þetta sé svo undir komið, að faðir hennar hafi kvöld eitt í 17. viku sumars fyrir ári tekið hana með valdi úti við stekkjarhólana í Árgerði, þar sem hún var að reka fé saman, og haft samræði við hana nauðuga, og hefði hún þó veitt honum alla þá mótstöðu, sem hún gat.“

Einnig kemur fram í vitnisburði Þórunnar að þetta hafi verið í eina skiptið sem Andrés hafði samræði við hana. Enn fremur að hún hafi aldrei verið við karlmann kennd „eða haft óorð á sér í þá átt.“

 

Ekki ein heldur þrjár nauðganir

Andrés gekkst við að vera faðir stúlkunnar og einnig við að hafa nauðgað dóttur sinni. Hann sagði hins vegar í skýrslutöku að samræðið hefði átt sér stað í þrígang, og aldrei með hennar vilja.

Fyrsta skiptið var eins og Þórunn vitnaði um, en fyrr um sumarið. Þórunn hafi verið úti við stekkinn í Árgerði og hann nauðgað henni þar.

Tíu vikum síðar, eða 17. viku sumars, hafi hann nauðgað henni í baðstofunni í Árgerði þar sem þau bjuggu á þeim tíma ásamt eiginkonu Andrésar og tveimur öðrum börnum hans. Þar segir:

„Hann (Andrés) og ákærða (Þórunn) dóttir hans sváfu tilfætis í sama rúmi ásamt 2 börnum ákærða öðrum, og fór ákærði um nóttina yfir í rúmendann til ákærðu og hafði samræði við hana, reyndar ekki með hennar fúsa vilja, en án nokkurrar verulegrar mótspyrnu frá hennar hálfu, sem ekki þurfti annað en að hljóða til að vekja fólk, sem svaf í baðstofunni.“

Andrés viðurkenndi einnig þriðju nauðgunina. Átti hún sér stað um haustið frammi í búri á Árgerði. Sagði Andrés að hún hafi þá veitt honum alla þá mótspyrnu sem hún gat.

 

Í gegnum allt dómskerfið

Andrés var ákærður fyrir blóðskömm og nauðgun og Þórunn sömuleiðis ákærð fyrir sifjaspell. Stóðu þau bæði við sína sögu fyrir dómi og lágu þær því til grundvallar úrskurði. Óumdeilt var að Andrés hefði nauðgað dóttur sinni, þó að hann hefði sagt skiptin fleiri en hún. Óumdeilt var einnig að hann væri faðir stúlkunnar.

Var Andrés dæmdur til tíu ára fangelsis og til að greiða allan kostnað af málinu. Þórunn var sýknuð af ákærunni. Málinu var áfrýjað til Landsyfirréttar og síðan Hæstaréttar og refsing Andrésar loks milduð um eitt ár.

Lítið er vitað um Andrés eftir þetta en hann lifði tugthúsvistina af. Árið 1901 var hann orðinn vinnumaður á bænum Þórustöðum, austan við Eyjafjarðará. Ekki er vitað hvenær hann lést.

Ævi Þórunnar tók betri beygju. Hún flutti að Grímsstöðum í Mývatnssveit árið 1894 og gerðist þar húsfreyja. Hún giftist Sigfinni Sigurjónssyni en hann var bróðir Guðmundar Hofdal, glímukappans og stríðshetjunnar, sem var eini Íslendingurinn til að vera dæmdur fyrir samkynhneigð. Eignuðust Þórunn og Sigfinnur saman fjögur börn, eitt af þeim sonurinn Jóhannes, sem var merkur listamaður, náttúrulífsunnandi og fréttaritari Morgunblaðsins. Þórunn lést tæplega níræð að aldri árið 1962.

 

Blóðskömm glæpur gegn guði

Mál feðginanna Andrésar og Þórunnar er borðleggjandi. Barn kemur undir, móðirin feðrar það föður sínum og heldur fram nauðgun. Faðirinn viðurkennir ekki aðeins nauðgunina heldur tvær til viðbótar. Engu að síður var Þórunn ákærð fyrir sifjaspell og þrælað í gegnum öll dómstigin, allt til Hæstaréttar í Danmörku. Henni voru ekki dæmdar neinar bætur heldur var hún „sýkn“ af ákærunni og átti auðsjáanlega að standa í þakkarskuld fyrir það.

Þetta mál verður að setja í sögulegt samhengi því að ekki voru nema rúmlega 20 ár síðan Stóridómur var afnuminn úr lögum. Það gerðist árið 1870 þó að framkvæmd hans hefði reyndar mildast töluvert á 18. öld og fyrri hluta 19. aldar. Hugarfarið var þó það sama og blóðskömm sterklega forboðin í trúarlegum skilningi. Blóðskömm var glæpur gegn guði og á ábyrgð beggja aðila. Nauðgun gat vissulega orðið til þess að refsing væri milduð og lífi kvenna þyrmt. En hana var erfitt að sanna og jafnvel þótt hún væri sönnuð gátu þær misst lífið.

Stóridómur var lögfestur árið 1565 og á þeim tíma voru 50 Íslendingar teknir af lífi fyrir sifjaspell. Jafnmargar konur og karlar, 25. Karlar voru hálshöggnir, stundum með bitlausri öxi eins og dæmin sanna, og konum var drekkt í köldum hyl. Allt var þetta framkvæmt á þingum fyrir framan fjölda fólks og enginn mátti undan líta.

Það var vegna þessara harkalegu refsinga sem fjöldi barna var borinn út, dulsmál. Á þeim tíma sem Þórunn ól sitt barn voru dulsmál enn algeng. Á árunum 1874 til 1913 komu upp að minnsta kosti sex dulsmál á Íslandi, sum þeirra eftir sifjaspell. Þetta hefði hæglega getað orðið raunin í máli Þórunnar því að ef Andrés hefði ekki viðurkennt brot sitt hefði hún einnig verið dæmd. Orð gegn orði.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 3 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“