fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024

Kolbrún er heyrnarlaus með langveikt barn: „Hún bar ekki veikindin utan á sér og það var ekki hlustað á mig“

Aníta Estíva Harðardóttir
Laugardaginn 17. mars 2018 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar Kolbrún Völkudóttir var einungis tveggja ára gömul fékk hún svæsna heilahimnubólgu og var vart hugað líf. Fljótlega eftir að Kolbrún komst á bataveg og heilsa hennar varð betri kom í ljós að hún hafði alveg misst heyrnina.

Í dag, mörgum árum síðar, er Kolbrún einstæð tveggja barna móðir sem lítur björtum augum á lífið og segir heyrnarleysið ekki há sér.

Ég man ekki eftir mér heyrandi og ég þekki ekkert annað en að vera heyrnarlaus. Auðvitað koma inn margar hindranir en mér finnst það ekkert mál, ég geri bara allt sem ég vil og finnst þetta frábært,

segir Kolbrún í einlægu viðtali, sem birtist upphaflega í helgarblaði DV.

Mikill aldursmunur er á dætrum Kolbrúnar en eldri dóttir hennar, Viktoría Björt, er 14 ára gömul og mun fermast í vor á meðan yngri dóttir hennar, Salka María, er 17 mánaða og eru þær mæðgur enn í fæðingarorlofi.

Læknar hlustuðu ekki á áhyggjur Kolbrúnar

Yngri dóttir Kolbrúnar fæddist með vatnshöfuð sem kom ekki í ljós fyrr en hún var orðin sex mánaða gömul.

Hún bar ekki veikindin utan á sér en ég sá að eitthvað var að, það var í raun ekki hlustað á mig en ég tók eftir breyttu höfuðlagi hjá henni þegar hún var einungis viku gömul. Við fórum á barnaspítalann og það var skoðað hvort hún væri með heilahimnubólgu en það var ekki. Í hverri einustu læknisheimsókn nefndi ég áhyggjur mínar en mér var alltaf sagt að hún væri mjög flott stelpa og ekkert að henni. Það var ekki fyrr en hálfu ári síðar sem mark var tekið á mér og hún fór í rannsóknir. Þá var hún greind með vatnshöfuð og hafði hún verið með það frá fæðingu. Í tilfelli Sölku er vatnsframleiðslan í höfðinu í lagi en vandamálið liggur í því að höfuð hennar getur ekki losað vatnið og því safnast það saman. Salka þurfti því að fara í aðgerð þar sem ventill var settur á höfuð hennar og mun hún þurfa að hafa hann alla ævi, hann hjálpar henni að losa vatnið og líða vel.

Kolbrún segir að það hafi verið virkilega erfiður tími þegar Salka greindist og telur hún ekki að heyrnarleysið spili þar inn í.

Þú getur ímyndað þér höfnunartilfinninguna sem ég fékk sem móðir barnsins. Hún brosti ekki, horfði ekki á mig og vildi ekki tala við mig. Salka var mjög háð mér en ég mátti samt ekki snerta hana, það er mjög skrítið. Hún var mikil mannafæla og strax frá tveggja mánaða aldri stirðnaði hún upp, skalf og ældi ef einhver annar en ég tók hana upp. Ég var skömmuð fyrir að hafa gert barnið háð mér en ég vissi að henni leið illa. Eftir aðgerðina var þetta líka mjög erfitt en mér fannst ég vera að fá nýtt barn. Fannst ég vera að kveðja Sölku mína og fá nýja Sölku, það er erfitt að útskýra þetta. Eftir aðgerðina grét Salka miklu meira og það var stutt í spunann hjá henni. Í þrjá mánuði hélt hún líka áfram að æla en hún var bara að jafna sig eftir aðgerðina, svo fékk hún rétta stillingu á ventilinn og þá varð hún allt önnur. Þetta var í raun eins og þrjú tímabil í lífi hennar.

Lítill munur á því að eiga barn heyrnarlaus

Kolbrún telur að það sé ekki mikill munur á milli þeirra sem eru heyrnarlausir og þeirra sem heyra þegar kemur að barneignum og uppeldi.

Það er til barnapíutæki fyrir heyrnarlaust fólk, í staðinn fyrir að það komi hljóð þá titrar tækið og ég hef það alltaf á mér þegar ég sef. Ég held að það sé enginn munur á því að eiga barn heyrnarlaus eða ekki, við skynjum auðvitað öðruvísi en fólk sem heyrir en í heildina er þetta nákvæmlega eins. Fólk sem heyrir nemur betur grátinn hjá barninu en við notum sjónina og tökum eftir hlutum. Ég hugsa því að þetta sé í raun nákvæmlega eins.

Dætur Kolbrúnar læra táknmál á undan tali og hefur hún engar áhyggjur af því.

Barnið á ömmur og afa, frændfólk og leikfélaga og þau læra fljótlega að tala í kringum þau. Einnig er sjónvarpið, tónlistin, búðarferðir, afmæli og fleira þar sem þau heyra náttúrlega allt.

Gaman að eiga heyrnarlausa móður

Kolbrún segir að henni finnist ekki erfitt að vera einstæð móðir og að hún fái góða hjálp þegar hún þarf.

Ég fæ pössun af og til eins og allir aðrir og ég get alltaf fengið neyðartúlk þegar þannig ber við. Stundum hefur það komið fyrir, ef ég þarf til dæmis að fara með Sölku til læknis, að þeim finnist óþarfi að hafa túlk með en það finnst mér mikil höfnun. Ég held að það sé vegna þess að ég get talað og skil fólk en ég get auðveldlega misskilið upplýsingar ef ég er ekki með túlk með mér. Ég þarf því yfirleitt að útskýra að ég eigi rétt á því að hafa túlk með mér og þá fæ ég hann að lokum.

Viktoría, eldri dóttir Kolbrúnar, segist hafa gaman af því að eiga heyrnarlausa móður þar sem fólk sé ófeimið við að spyrja hana ýmissa spurninga um móður hennar.

Hún þekkir auðvitað ekki annað en hún er ófeimin að svara spurningum sem hún fær varðandi heyrnarleysi mitt. Ég var með föður hennar þar til hún var eins árs en þá slitum við samvistir og hef ég verið einstæð síðan þá og líkar það mjög vel,

segir Kolbrún með bros á vör.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Ekki komið til tals að reka Sean Dyche

Ekki komið til tals að reka Sean Dyche
Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Setur glæsilegt hús sitt á sölu – Vill fá 800 milljónir fyrir það

Setur glæsilegt hús sitt á sölu – Vill fá 800 milljónir fyrir það
Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni