fbpx
Föstudagur 01.júlí 2022
Fókus

Blóðugt umsáturseinelti – Lögreglan hunsaði hana þar til það var orðið of seint

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 1. maí 2021 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hún þurfti hjálp. Hún hafði gert hræðileg mistök. Hún hafði fallið fyrir röngum manni og hann vildi ekki sleppa af henni takinu, sama hvað hún reyndi. Hann sat fyrir henni, áreitti hana, réðst á hana, setti staðsetningabúnað á bíl hennar og braust inn til hennar til að horfa á hana sofa. Hún var hrædd. Hún gerði það eina sem henni datt í hug, og það var nákvæmlega það sem hún átti að gera – hún leitaði til lögreglunnar. En lögreglan tók ekki mark á henni. Ekki fyrr en það var orðið of seint.

Ástin á sér stað 

Shana Grice fékk vinnu árið 2015 sem móttökuritari hjá Brighton Fire Alarms. Hún var aðeins 18 ára gömul. Þetta var stórt skref í hennar lífið. Vinnuveitandinn var virt fyrirtæki og staðan álitleg. Hún var að safna pening til að geta gifst kærasta sínum til rúmlega þriggja ára, Ashley Cook.

Shana var vinalegt ungmenni og vingaðist fljótt við einn af nýjum samstarfsfélögum sínum, hinn 26 ára gamla Michael Lane. Hann var eldri, henni fannst hann mjög aðlaðandi og hann virtist altekinn af henni, nokkuð sem ungum konum getur þótt mjög rómantískt. Þau hófu því ástarsamband á laun, þrátt fyrir að Shana væri enn í sambandi með kærasta sínum.

Hún var aðeins 18 ára gömul og komin þarna í ástarþríhyrning sem hún vissi ekki hvernig hún ætti að takast á við. Michael var mjög ákafur og ástríðufullur og var sambandið stormasamt. Hún vissi þó að svona gæti þetta ekki haldið áfram endalaust. Hún varð að taka ákvörðun. Annað hvort ætlaði hún að giftast Ashley, æskuástinni. Eða láta á það reyna með Michael.

Neitaði að sleppa takinu

Æskuástin hafði betur og í desember 2015 ákvað Shana að slíta sambandinu við Lane. Hún hafði þó ekki reiknað með því að Lane myndi ekki taka höfnuninni. Hann ákvað fyrst að reyna að vinna hana til baka. Meðal annars sendi hann henni blóm á 19 ára afmæli hennar – nokkuð sem Shönu þótti afar óþægilegt og endaði með að kvarta undan til yfirmanna sinna.

Nokkrum dögum síðar uppgötvaði hún að bíll hennar hafði orðið fyrir skemmdum. Einhver hafði skorið á dekk hennar. Hver var þá handan við hornið, tilbúinn að hjálpa annar en Lane? Hún virtist ekki ætla að sleppa frá honum. Ashley fékk líka að finna fyrir reiðinni. Bíll hans var lyklaður og á framrúðunni var skilinn eftir miði þar sem á stóð „Kæri AshShana hefur og mun alltaf halda framhjá þér.“

Sektuð fyrir að leita hjálpar

Þann 8. febrúar 2016 fékk Shana nóg. Hún hafði samband við lögreglu og greindi frá því að Lane væri að beita hana umsáturseinelti. Lögregla hafði upp á Lane en lét sér nægja að vara hann við og biðja hann að halda sig fjarri.

Hann varð þó ekki við þeirri beiðni. Þann 24. mars hringdi Shana aftur í lögreglu. Lane hafði verið að áreita hana svo hún reyndi að komast undan honum á hlaupum. Hann hljóp á eftir henni, reif í hár hennar og reyndi að stela af henni símanum sem hún var að reyna að nota til að hringja eftir aðstoð. Lane var þá handtekinn og yfirheyrður vegna gruns um líkamsárás. Hann framvísaði þá tölvusamskiptum milli hans og Shonu til að sýna fram á að þau væru í sambandi og hann væri bara alls ekki að áreita hana.

Úr varð því að Lane var sleppt en Shana sektuð um rúmlega tíu þúsund krónur fyrir að sóa tíma lögreglu. Lögregla sagði að ef Shana vildi halda því fram að Lane væri eltihrellir hennar þá þyrfti hún að leggja fram sönnunargögn þess eðlis.

Þetta var mikill skellur fyrir Shönu. Vissulega hafði hún áfram verið í samskiptum við Lane og jafnvel hitt hann. Hún vissi ekki hvað annað hún gæti gert. Hann hafði hótað öllu illu og meðal annars hótað að taka eigið líf ef hún yrði ekki við óskum hans. Og það vildi hún ekki. Þrátt fyrir að vera hrædd við hann þá laðaðist hún að honum.

Henni varð ljóst að hún gæti ekki treyst lögreglu til að vernda sig. Hún bað því vini sína og fjölskyldu að passa upp á hana og ef það hefði ekkert heyrst frá henni í nokkrar klukkustundir þá þyrftu þau að hafa samband við lögregluyfirvöld. Nú vissi Shana líka að Lane hafði geymt skilaboðin þeirra. Hún óttaðist að hann færi að sýna öðrum þau. Nóg var að lögreglan trúði henni og hún vildi ómögulega að fjölskylda og vinir færu að vantreysta henni líka. Hún þurfti einhvern í sínu horni.

Áreitið ágerist

Shana sagði upp vinnunni sinni og reyndi að halda áfram með lífið. Hún hafði líka ákveðið að slíta nú öllum samskiptum við Lane. Ekkert skyldi vera hægt að nota gegn henni ef hann héldi áfram uppteknum hætti. Hún ætlaði að giftast Ashley og tilkynnti Lane að hann þyrfti að sækja allar sínar eigur til hennar og halda sig fjarri.

Þegar Lane kom að sækja eigur sínar nýtti hann færið og stal húslyklunum að íbúð Shönu sem hún deildi með tveimur meðleigjendum. Þetta gerðist þann 8. júlí.

Morguninn eftir vaknaði Ashley við fótatak inni í herbergi hennar. Hún varð dauðhrædd og þóttist vera sofandi. Nokkrum mínútum síðar yfirgaf sá sem hafði brotist inn í herbergi hennar húsnæðið og hún hljóp að glugganum til að fá grun sinn staðfestan. Þar sá hún Lane yfirgefa húsið. Nú hafði hann gengið of langt. Nú hlyti lögreglan að gera eitthvað

Hún lét því aftur reyna á það að hafa samband við lögreglu. En hún yrði þó að hafa sannanir, það hafði lögreglan sagt við hana. Hún hringdi því í Lane og tók símtalið upp. Þar gekkst hann við því að hafa stolið lyklunum og samþykkti að koma og skila þeim.

Shana hringdi næst í lögregluna. Þegar Lane mætti aftur að húsi hennar beið lögreglan hans. Hann var þó ekki handtekinn fyrir umsáturseinelti eða innbrot, heldur þjófnað. Lögregla ákvað svo að ákæra hann ekki heldur sleppti honum með áminningu.

Næsta sólarhringinn hætti sími Shönu ekki að hringja. Númerin voru óþekkt og í þau skipti sem hún svaraði heyrði hún ekkert nema þungan andardrátt. Að sjálfsögðu var það Lane sem var að áreita hana en í þetta skiptið hafði hann gengið enn einu skrefinu lengra. Hann hafði komið fyrir staðsetningabúnaði á bíl hennar svo hann gæti fylgst með ferðum hennar.

Hann var alls staðar

Eftir þetta tók Shana eftir því að hvert sem hún fór virtist hún rekast á Lane. Hann var á öllum börum sem hún fór á og virtist alltaf vita hvar hana væri á finna.

Lane gætti sín að fara á tíu daga fresti aftur að heimili Shonu til að skipta um rafhlöður í staðsetningarbúnaðinum.

Shana tilkynnti símtölin til lögreglu en fékk þá að heyra að lögregla teldi máli hennar lokið.

Þann 12. júlí hringdi hún aftur til að tilkynna að Lane væri nú að elta hana. Málið var skráð í kerfi lögreglu sem „Lágmarks áhætta“ en Shonu var samt tilkynnt að lögreglumanninum sem hafði verið með mál hennar yrði tilkynnt um símtalið. Þetta voru ekki viðbrögðin sem Shana vonaðist eftir. Svo virtist sem lögregla hefði engan áhuga á að aðstoða hana.

Þann 4. ágúst var hún fyrir utan hús sitt með vinkonu sinni Joanna og varð vinkonan nú vitni að því hvernig Lane var að elta hana. Joanna sagði Shönu að hringja strax í lögreglu, nú hefði hún vitni. Shana vildi ekki gera slíkt. Hún vildi ekki aftur lenda í því að henni væri ekki trúað og hún sökuð um ýkjur. Hún hafði hringt fimm sinnum á sex mánuðum en ekkert hafði gerst.

Mætti ekki í vinnuna

Shana hafði byrjað í nýrri vinnu eftir að hún hætti hjá Brightons Fire Alarms. Hún hafði greint nýju samstarfsmönnum sínum frá aðstæðum hennar svo þegar hún mætti ekki til vinnu morguninn 25. ágúst óttuðust samstarfsmennirnir að ekki væri allt með feldu og höfðu umsvifalaust samband við lögreglu.

Á sama tíma höfðu nágrannar Shönu tekið eftir reyk sem barst frá íbúðinni. Faðir Ashley og tengdafaðir Shönu braust í kjölfarið inn í íbúðina og kom þar að tengdadóttur sinni þar sem hún lág í blóði sínu inni í svefnherbergi. Hún hafði verið skorin á háls og svo hafði bensíni verið hellt yfir hana og kveikt í því.

Rannsakendur voru fljótir að merkja Lane sem sakborning. Ekki reyndi heldur erfitt að safna sönnunargögnum gegn honum. Hann sást á öryggismyndavélum nokkru fyrir morðið kaupa bensín á brúsa, hann sást labba að húsi hennar í tvígang kvöldið sem hún var myrt og skömmu eftir morðið notaði hann debetkort hennar til að taka pening út úr hraðbanka.

Lygar og afneitun

Hann var því handtekinn samdægurs. Lane neitaði öllu. Hann sagðist ekki hafa komið nálægt heimili Shonu þennan dag, en þegar sönnunargögn sýndu fram á annað breytti hann framburði sínum og sagðist hafa komið að henni látinni.

Hélt hann því fram að hann hefði komist í mikið uppnám við að sjá sína fyrrverandi látna. Hann hafi því hlaupið burt og ekki þorað að hafa samband við lögreglu af ótta við að vera sakaður um morðið. Hann hafði síðan tekið kort hennar til að fara í hraðbanka og borga sér til baka fyrir allar gjafirnar sem hann hafði gefið Shonu í gegnum tíðina. En það verður seint talin eðlileg háttsemi í þessum aðstæðum. Hann útskýrði bensínkaupin sem svo að hann hefði áformað að taka eigið líf, en svo hætt við það. Lögregla, ákvað að trúa honum ekki í þetta skiptið og Lane var handtekinn og ákærður fyrir morð.

Fortíðin hefði átt að vekja grunsemdir 

Í aðdraganda réttarhaldanna kom í ljós að Lane átti langa sögu sem eltihrellir. Árið 2010 hafði hann verið handtekinn fyrir að reyna að tæla 14 ára stúlku til samræðis við sig með því að beita yfirburðastöðu sinni sem skátaforingi. Hann hafði einnig beitt minnst tólf konur umsáturseinelti frá árinu 2006. Það sem var skuggalegast í þessu öllu saman var að hann hafði aldrei verið kærður. Málum hans lauk yfirleitt með litlum áminningum, smá höggi á handarbakið og góðfúslegri beiðni um að láta af hrottaskapnum.

Eins gaf sig fram vitni sem hafði séð Lane losa sig við skópar á víðavangi skömmu eftir morðið. Lögreglu tókst að hafa uppi á þeim og reyndust þeir gegnsósa af blóði Shönu.

Að öllu þessu virtu þýddi lítið fyrir Lane að halda fram sakleysi sínu við réttarhöldin. Þó hann gerði það engu að síður. Aðeins tók það kviðdóminn tvær klukkustundir að ráða ráðum sínum og situr Lane nú í lífstíðar fangelsi og mun að lágmarki þurfa að sitja af sér 25 ár.

Eltihrellar og morðingjar

Mál Shönu vakti mikla athygli og umræðu um kvenfyrirlitningu sem grasseraði innan lögreglunnar og hvernig lögreglumenn væru ekki færir til að takast á við umsáturseinelti. Eftirlitsnefnd lögreglu var fengið að skoða málið og komast að þeirri niðurstöðu að lögregla hefði gróflega brugðist skyldu sinni til að vernda Shonu. Þeir höfðu ekki tekið nægilega mikið mark á henni og komið fram við Lane sem brotaþola málsins.

Samkvæmt breskri rannsókn á tengslum umsáturseineltis og morða eru flestir morðingjar kvenna líka eltihrellar. Allt að 9 af hverjum 10 morðingjum hafði beitt fórnarlamb sitt umsáturseinelti í aðdragandi morðsins. Svo ekki allir eltihrellar eru morðingjar, en flestir morðingjar eru eltihrellar. Þetta er tölfræði sem lögreglan í Sussex hefur verið gagnrýnd fyrir að líta framhjá. Full ástæða sé til að taka umsáturseinelti alvarlega og það hafi ekki verið gert í þessu máli. Fjöldi þolenda umsáturseineltis átti sömu sögu og Shanda. Þeir hafa leitað aðstoðar en mætt lokuðum dyrum hjá lögreglu sem tekur þau ekki alvarlega. Að minnsta kosti ekki á meðan þau lifa.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

„Ég er hætt að réttlæta það að ég pósti mynd af mér í – afsakið orðbragðið – fokking bikiníi á Instagram“

„Ég er hætt að réttlæta það að ég pósti mynd af mér í – afsakið orðbragðið – fokking bikiníi á Instagram“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Svala Björgvins og Gréta Karen slá í gegn í myndatöku fyrir kynlífstækjaverslun

Svala Björgvins og Gréta Karen slá í gegn í myndatöku fyrir kynlífstækjaverslun