fbpx
Mánudagur 20.maí 2024
Fókus

Fleiri hliðar á Reykjavík en grámi og ömurleiki

Ásgrímur Sverrisson leikstýrir sinni fyrstu mynd í fullri lengd – Reykjavík,

Kristján Guðjónsson
Miðvikudaginn 16. mars 2016 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta er eitthvað sem mig hefur mjög lengi langað að gera, að sýna borgina í örlítið hlýrra og bjartara ljósi. Það eru fleiri hliðar á borginni en grámi og ömurleiki,“ segir Ásgrímur Sverrisson sem skrifar og leikstýrir miðborgarmyndinni Reykjavík, sem var frumsýnd á föstudag.

Myndin er lágstemmd blúsuð rómantísk kómedía um tilvistarkrísu kvikmyndabúðareigandans Hrings og hrynjandi hjónaband hans og flugreyjunnar Elsu …Þegar ómögulegur og skuldum hlaðinn reksturinn virðist ætla að draga fjölskylduna niður í svaðið þurfa þau að takast á við ólíkar væntingar sínar til lífsins og tilverunnar. Hún vill „eðlilegt“ líf með öryggi, fallegu heimili og húsgögnum en hann lifir fyrst og fremst í gegnum heim klassískra kvikmynda.

Ásgrímur hefur, eins og aðalpersónan, lifað í heimi kvikmyndanna frá barnsaldri. Hann fylgdi pabba sínum í vinnuna hjá Ríkissjónvarpinu, gerði stuttmyndir og gaf út eigin kvikmyndatímarit. Hann lærði kvikmyndagerð í London á tíunda áratugnum og hefur síðan þá unnið að ótal smærri bíóverkefnum auk óþreytandi skrifa og umfjöllunar um kvikmyndir.
DV settist niður með Ásgrími og spjallaði um Reykjavík, kvikmyndagerð og rómantískar kómedíur.

Fékk að kynnast sjónvarpinu á barnsaldri

„Þegar ég var átta ára lét mamma okkur bræðurna skrifa hvað við vildum verða þegar við yrðum stórir og ég skrifaði þrennt: landafræðingur, hellarannsóknamaður og kvikmyndagerðarmaður. Það var það sem ég vildi verða,“ segir Ásgrímur sem hefur helgað líf síðastnefnda faginu.

„Sennilega kviknaði áhuginn af því að pabbi var einn af fyrstu starfsmönnum sjónvarpsins. Hann var sendur út í nám til danska ríkissjónvarpsins DR til að læra og svo vann hann ýmis störf hjá RÚV. Ég var fæddur 1964 og sjónvarpið fór í loftið 66. Þá var sjónvarpið náttúrlega óskabarn þjóðarinnar og allir mjög uppteknir af því. Á meðan ég var polli fékk ég að kynnast þessum heimi og fannst hann æðislegur,“ segir hann.

Ég gaf út mitt fyrsta kvikmyndablað, Fókus, fjórtán ára og dreifði því um allt land.

Fljótlega var hann svo farinn að fikta sjálfur, jafnt við kvikmyndagerð sem kvikmyndaumfjöllun.

„Ég byrjaði svona þrettán ára að gera mínar fyrstu myndir með félögunum. Við vorum mjög duglegir, gerðum að minnsta kosti eina eða tvær myndir á ári og héldum því eiginlega áfram út allan menntaskólann. En ég hef líka alltaf verið í einhvers konar umfjöllun um bíómyndir. Ég gaf út skólablöð þar sem ég var að skrifa um kvikmyndir, bæði gagnrýni og umfjöllun. Ég gaf út mitt fyrsta kvikmyndablað, Fókus, fjórtán ára og dreifði því um allt land. Það kom út eitt tölublað en reyndist síðan aðeins of mikil vinna fyrir okkur drengina. En okkur fannst það algjörlega sjálfsagt mál að við værum að gefa út alvöru kvikmyndablað og dreifa því um allt land. Ég rakst á þetta blað um daginn og sá þá að ég hafði til dæmis verið að skrifa um mynd sem allir voru að bíða mjög spenntir eftir: Star Wars,“ segir Ásgrímur og hlær.

Enginn eðlismunur á stuttmynd og langri

Maður tekur eitt skot í einu, svo er mismunandi hvað þau eru mörg í verkefninu og hversu flókin þau eru. Það er bara stigs- en ekki eðlismunur.

„Ég var alltaf ákveðinn í því að gera kvikmyndir, en fór ekki í kvikmyndaskóla fyrr en 26 ára. Ég fór í National Film and TV School sem er stærsti skólinn í Bretlandi. Það tók mjög langan tíma að komast inn í hann, en á meðan var ég meðal annars að vinna fyrir RÚV. Ég var líka að gera auglýsingar, tónlistarmyndbönd og annað slíkt.“

Og svo tuttugu árum seinna kemur fyrsta myndin?

„Já, en mér finnst ég raunar hafa verið að gera kvikmyndir alveg frá 1978. Ég hef gert tuttugu stuttmyndir, slatta fyrir sjónvarp, starfað í dagskrárgerð, og svo gerðum við saman fimm leikstjórar myndina Villiljós árið 2001. En þetta er eitt af því sem er svo fallegt við kvikmyndagerð og sjónvarp. Það snýst bara um einn hlut í grunninn: að ná skotinu. Maður tekur eitt skot í einu, svo er mismunandi hvað þau eru mörg í verkefninu og hversu flókin þau eru. En það er bara stigs- en ekki eðlismunur. Auðvitað eru verkefnin mjög misflókin en á þessu „mólekúlar-leveli“ er enginn eðlismunur.“

Í myndinni birtist Reykjavík sem björt og sumarleg borg. Hér er Atli Rafn Viðarsson í hlutverki Hrings.
Birta og hlýja Í myndinni birtist Reykjavík sem björt og sumarleg borg. Hér er Atli Rafn Viðarsson í hlutverki Hrings.

Greint fólk sem er að klúðra lífi sínu

Reykjavík er líklega flóknasta efnasambandið sem þú hefur smíðað með mólekúlum kvikmyndavélarinnar, af hverju langaði þig að gera þessa tileknu mynd?

Hugmyndin var að gera borgarsögu um samband, um klárt og greint fólk sem er svolítið að klúðra lífi sínu.

„Hugmyndin var að gera borgarsögu um samband, um klárt og greint fólk sem er svolítið að klúðra lífi sínu. Maður sér þetta í eigin lífi, lífi vina og kunningja, og það kviknaði löngun til að takast á við þetta efni. Þetta liggur líka mjög nálægt því sem ég hef oft sjálfur gaman af í kvikmyndum, til dæmis mörgum Woody Allen-myndum og mörgum frönskum kvikmyndum, til dæmis eftir Francois Truffaut. Þetta er auðvitað bara eitt af því sem maður hefur gaman af, en ég fann sterka tengingu við efniviðinn,“ útskýrir Ásgrímur.

Hvað ertu búinn að liggja lengi á þessari hugmynd?

„Mun lengur en ég kæri mig um að nefna,“ segir Ásgrímur og hlær. „Ég var slatta af árum að dunda mér við að skrifa þetta við og við en það er eitt og hálft ár frá því að fórum í undirbúning – tökur voru síðsumars 2014. Hitt hefur örugglega tekið tíu ár eða meira. Maður tekur rispur við og við, svo fer maður í önnur verkefni, svo tekur tíma að koma þessu á koppinn. Að lokum er bara liðinn ógnarlangur tími.“

Á þessum ógnarlanga tíma hefur þú verið óþreytandi í því að fjalla um og gagnrýna kvikmyndir. Er ekkert stressandi fyrir þig að frumsýna myndir, er ekki marga sem klæjar í puttana að hefna sín?

„Maður verður bara að taka því með æðruleysi. Ég er búinn að gera myndina og hún er til sýnis. Fólki verður bara að finnast það sem það finnst. Ég sé ekkert rosalegan mun á þessu, maður er bara á kafi í kvikmyndum, hvort sem það er að fjalla um þær eða gera þær. Ég sé þetta bara sem tvær hliðar á sama peningi. Mér finnst ekkert skrýtið að ég sé að gera þetta.“

Ekki ævisöguleg

Aðalpersónan er kvikmyndaunnandi sem virðist líða betur í heimi kvikmyndanna en í raunheiminum. Er þetta einhvers konar sjálfsmynd?

„Þótt það sé kannski ákveðin vísun í mig er þetta skáldskapur – ekki ævisöguleg mynd. Ýmsir í kringum mig muni kannski kannast við ákveðna þætti þá er þetta ekki lykilsaga, ekki um einhverjar tilteknar persónur. En þetta er auðvitað mjög algengt þegar fólk skapar, maður byggir það á einhverju sem maður þekkir, hefur ástríðu fyrir eða sterkar tilfinningar gagnvart. Maður fer af stað til að gera einhverri tilfinningu skil. Svo lætur maður efnið lúta lögmálum skáldskaparins. Því lífið er náttúrlega ekki eins og skáldskapur. Hann er þrengri í forminu, svo þú þarft að sveigja hluti, búa til nýjar aðstæður og nýjar tengingar. En það er mikilvægt að halda í þann kjarna sem er ástæðan fyrir því að maður fór af stað.“

Myndin er uppfull af tilvísunum hingað og þangað í kvikmyndasöguna. Þarna eru tilvísanir í Woody Allen, Jean-Luc Godard og Truffaut, en mann grunar að það sé aragrúi af smærri og faldari tilvísunum. Getur þú bent á eina?

„Já, það er til dæmis ein mjög lúmsk tilvísun í myndina Before Sunrise eftir Richard Linklater. Þar er kafli í lokin þegar leiðir hafa skilið hjá parinu, og þar fer hann aftur á staðina sem þau hafa verið saman á og tekur kyrrmyndir. Það er ekkert að gerast í rammanum, bara nokkrar sekúndur á hverjum stað. Þegar ég sá myndina hugsaði ég: „djöfull er þetta flott“ og þetta hefur setið í mér allar götur síðan. Ég ákvað því að kvóta svolítið í þetta atriði í lok myndarinnar,“ segir Ásgrímur.

Eins og svo margar íslenskar kvikmyndir þessa dagana er aðalpersóna Reykjavíkur karlmaður í tilvistarkrísu. Ég var beðinn um að spyrja þig hvort Reykjavík stæðist Bechdel-prófið sem er notað til að mæla hvort kvikmynd geti talist kvenréttindasinnuð?

„Já, hún sleppur fyrir horn,“ segir Ásgrímur og hlær. „Það er ein sena þar sem tvær konur tala um húsakaupasamning. Þannig að myndin rétt slefar … með góðum vilja. En prófið hefur náttúrlega ekkert að gera með gæði myndanna, persónusköpun eða eitthvað slíkt. Ég held að flesta langi fyrst og fremst að skapa heilsteyptar persónur hvort sem þær eru karlar eða konur, óháð því hverrar þjóðar þær eru eða hvernig þær eru á litinn. Bechdel-prófið er mjög gott því það er að benda á ákveðna tilhneigingu, en að nota það sem einhvern algildan dóm væri náttúrlega út í hött,“ segir hann.

Langaði að sýna borgina í bjartara ljósi

Reykjavík hefur oftar en ekki verið sýnd sem kaldur, napur og frekar ömurlegur staður, en það er greinilegt að þig langaði að sýna hana á annan hátt. Það er sumar, milt veður og bjart – hvort sem það er dagur eða nótt.

„Já, algjörlega. Mig langaði að sýna þá Reykjavík sem ég kannast við og þekki. Auðvitað hefur hún margar hliðar. Það er stundum allt ömurlegt og ekkert að gerast í þessum „one horse town,“ en hún getur líka verið skemmtileg, björt, full af áhugaverðu fólki, sem er að gera allskonar, bæði heimskulega en líka flotta og æðislega hluti. Það er mikill kraftur hérna og getur verið mikið líf og fjör. Maður fer alveg í gegnum allan skalann. Þegar einhverjir útlendingar fara að mæra Reykjavík langar mann alltaf að segja þeim að vera hérna í janúar og febrúar og ganga í gegnum það. En ef einhver er að dissa Reykjavík þarf maður að verja hana,“ segir Ásgrímur.

Í Reykjavík vitnar Ásgrímur hingað og þangað til kvikmyndasögunnar, meðal annars frægt atriði í kvikmyndinni Le Mépris eftir franska leikstjórann Jean-Luc Godard.
Vitnað í kvikmyndasöguna Í Reykjavík vitnar Ásgrímur hingað og þangað til kvikmyndasögunnar, meðal annars frægt atriði í kvikmyndinni Le Mépris eftir franska leikstjórann Jean-Luc Godard.

Lítill en harðsnúinn skæruliðahópur

Sunna Gunnlaugs djasspíanóleikari sér um tónlistina og hefur hún mikil áhrif á stemningu myndarinnar.

„Ég var búinn að ákveða að hafa djass í myndinni og Sunna blasti mjög fljótt við. Hún hefur svo góða tilfinningu fyrir melódíu, er náttúrlega frábær spilari sem og hennar fólk, en svo hefur hún þennan ofsalega fína elegans. Það fannst mér vera rétt fyrir þessa mynd. Það er æðislegt hvað hún stökk á þetta þó hún hafi aldrei gert neitt svona áður. Tónlist í kvikmyndum er gjarnan notuð til að undirstrika senur, tilfinningar, áherslur í senum eða ná utan um það, en hjá okkur var hún notuð meira eins og brú á milli sena, stemning áður en við förum úr einni senu í aðra,“ segir Ásgrímur.

Þetta var svolítið eins og skæruliðahópur sem fór af stað, lítill en harðsnúinn.

Hinn spænski Néstor Calvo, sá um kvikmyndatöku en þeir Ásgrímur lærðu saman í London fyrir þremur áratugum.

„Hann tók lokamyndina mína sem við skutum á Snæfellsnesi og var rosalega hrifinn af Íslandi. Við höfum stefnt á að vinna eitthvað saman og gera myndir saman í öll þessi ár. Á þessum tíma hefur hann skotið hátt í 30 kvikmyndir – og skotið þrjár eða fjórar myndir frá því að hann tók þessa. Ég hringdi í hann með skömmum fyrirvara og hann sagði bara „já!“ þótt þetta væru töluvert þrengri aðstæður en hann er vanur. Honum var alveg sama, og það var algjörlega ómetanlegt. Af því að þetta var svolítið eins og skæruliðahópur sem fór af stað, lítill en harðsnúinn,“ segir Ásgrímur.

Fegurðin í þessu var að þó við værum ekki með mikil auraráð vorum við með toppfólk, í því felast gæði myndarinnar.

Hann segist hrósa happi yfir góðum hóp leikara sem hafi tekist á við verkefnið af miklu áreynsluleysi. Auk þess sem gaman hafi verið að vinna með Ragnari Vald Ragnarssyni klippara. „Fegurðin í þessu var að þó að við værum ekki með mikil auraráð vorum við með toppfólk, í því felast gæði myndarinnar,“ segir Ásgrímur.

Rómantískar kómedíur

Það er merkileg tilviljun að myndin Fyrir framan annað fólk eftir Óskar Jónasson var frumsýnd í lok febrúar. Það er önnur rómantísk kómedía þar sem Reykjavík leikur stórt hlutverk – er þetta eitthvað í andrúmsloftinu?

„Það er bara algjör tilviljun og mjög skrýtin tilviljun. Óskar skaut alveg hálfu ári á eftir mér en það tók mig bara lengur að koma þessu saman. Svona verkefni eru svo langan tíma í þróun að það er erfitt að segja að þetta sé eitthvað í andrúmsloftinu. Reykjavík átti margra ára gerjunartíma og þetta tók örugglega nokkur ár hjá Óskari,“ segir Ásgrímur.

Hvert stefnir þessi mynd, fer hún á hátíðir erlendis eða er hún fyrst og fremst hugsuð fyrir íslenskan markað?

„Við erum rétt að byrja að skoða það, en ég vil endilega sýna hana sem víðast. Ég er sannfærður um að þetta sé sammannleg mynd og fólk um allan heim muni geta samsamað sig persónunum, að þetta séu aðstæður sem fólk út um allt þekki.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Fertugsafmælisferð Guðbjargar breyttist í martröð: Kom að kærastanum með annarri konu sem réðst á hana – „Síðan henti hann mér í rúmið og misnotaði mig kynferðislega“

Fertugsafmælisferð Guðbjargar breyttist í martröð: Kom að kærastanum með annarri konu sem réðst á hana – „Síðan henti hann mér í rúmið og misnotaði mig kynferðislega“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vilhjálmur standi í vegi fyrir sáttum og beri nú sjálfur sök á stöðunni

Vilhjálmur standi í vegi fyrir sáttum og beri nú sjálfur sök á stöðunni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fær annað tækifæri til að finna ástina

Fær annað tækifæri til að finna ástina
Fókus
Fyrir 4 dögum

Haukur Morthens 100 ára – Heiðurstónleikar í Hörpu sunnudaginn 26. maí

Haukur Morthens 100 ára – Heiðurstónleikar í Hörpu sunnudaginn 26. maí