Jökullinn logar vinsæl meðal Íslendinga sem sækja sér efni ólöglega
„Nú eru nærri 2 þúsund manns búnir ad hlaða niður bíómyndinni minni og öllu aukaefni ólöglega af íslenskum netsíðum,“ segir fjölmiðlamaðurinn Sölvi Tryggvason á Facebook-síðu sinni og vísar þar í heimildarmynd sína, Jökullinn logar, sem fjallar um íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu.
Sölvi lagði gríðarlega vinnu í myndina og vann kauplaust við gerð myndarinnar um langa hríð. Aðstandendur myndarinnar leituðu meðal annars eftir stuðningi almennings á hópfjármögnunarsíðunni Karolina fund. Myndin varð sem betur fer að veruleika enda frábær heimild um gott gengi íslenska landsliðsins sem fór alla leið í 8-liða úrslit á EM í sumar.
Eins og Sölvi bendir á er hægt að nálgast myndina á sjóræningjasíðunni Deildu.net sem þúsundir Íslendinga eru með aðgang að. Nú þegar hafa um tvö þúsund manns sótt myndina þó að hægt sé að leigja hana, til dæmis á VOD-leigu Vodafone, og þá er hún einnig komin út á DVD.
„Það er helvíti hart að geta ekkert gert í þessu, eftir að hafa unnið kauplaust í næstum heilt ár við að búa þessa mynd til frá grunni og rembast við að fjármagna hana. Vonandi áttar fólk sig á því einhvern daginn að þetta er ekkert frábrugðið öðrum þjófnaði,“ segir Sölvi og taka fjölmargir undir með honum. Einn þeirra er leikhúsrýnirinn Jón Viðar Jónsson, sem segir:
„Þetta er bara eins og hver annar ólöglegur verknaður sem samfélagið „ákveður“ að sjá í gegnum fingur með. Annað dæmi sífelld brot á banni við áfengisauglýsingum.“
Annar sem blandar sér í umræðuna er íþróttafréttamaðurinn Hörður Magnússon. „ Því miður finnst mörgum þetta í góðu lagi og ekkert hægt að gera..,“ segir hann.
Söngvarinn Bergþór Pálsson segir að eitt jákvætt sé við þetta, ef svo má segja. „Sorglegt. Þó er ein ljósglæta (ef hægt er að kalla svo) í þessu: Það er gríðarlegur áhugi fyrir myndinni.“