fbpx
Mánudagur 25.september 2023
Fókus

Páll fannst úti á götu þriggja mánaða gamall

Heldur til Tælands að leita að gamla barnaheimilinu sínu – Áhugasamir geta fylgst með ferðinni á Snapchat

Auður Ösp
Mánudaginn 5. september 2016 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ef ég hefði möguleika á því myndi ég vilja hitta blóðforeldra mína alveg ótrúlega mikið, en ég held að það sé ómögulegt miðað við stöðuna,“ segir Seyðfirðingurinn Páll Thamrong Snorrason sem var ættleiddur til Íslands fjögurra ára gamall eftir að hafa eytt fyrstu æviárunum á tælensku barnaheimili. Hann hyggst nú, ásamt vini sínum Helga Ómarssyni finna heimilið á ný og sjá aðstæðurnar sem hann bjó við til fjögurra aldurs en þeir félagar ætla að ferðast um Tæland í rúmlega sex vikur og upplifa ýmis ævintýri. Og að sjálfsögðu hyggjast þeir nýta nútímatækni og gefa áhugasömum tækifæri á að fylgjast með ferðinni í gegnum samskiptamiðilinn Snapchat.

Páll var aðeins 3 mánaða gamall þegar hann fannst úti á götu í Bangkok árið 1991 og var komið fyrir á barnaheimilinu. Hann var að lokum ættleiddur til Íslands árið 1995.

„Eftir að ég fannst á götunni reyndi lögreglan í Bangkok að finna blóðforeldra mína, alveg þangað til að ég var ættleiddur. Þessar upplýsingar fékk ég nýlega frá ættleiðingarstofnun á Íslandi. “ segir hann í samtali við blaðamann DV en hann og Helgi flugu til Bangkok síðastliðinn föstudag og sjá fram á sex vikna ævintýri.

„Minningarnar frá því að vera ættleiddur eru því miður ekki margar. Ég man eftir stóru herbergi með mörgum rúmum og einstaka sinnum dreymir mig eitthvað en næ kannski ekki að setja það á sinn stað sem mig dreymir. En foreldrar mínir hafa sagt mér söguna í smáatriðum nokkuð oft og fyrir það er ég rosalega þakklátur. Ég held rosalega fast í það sem þau hafa sagt mér og þykir meira segja svolítið vænt um litla drenginn sem þau segja frá. Sjálfum þykir mér skrýtið að hugsa til þess þegar ég er hér í Bangkok að ég hafi verið skilinn eftir á götunni. En ég þarf bara að segja við sjálfan mig að mín örlög voru ekki að alast upp hér í Tælandi.“

Hann kveðst alla tíð hafa verið afar áhugasamur um upprunaland sitt.

„Ég hef alltaf verið rosalega áhugasamur um Tæland og mér þykir tælenskur matur besti matur í heimi og er meira segja með margt frá Tælandi hangandi á veggjum í íbúðinni minni. Sem segir mér að ég hef alltaf verið með mikinn áhuga á kúltúrnum og svoleiðis.

Mynd/Skjáskot af Snapchat.
Mynd/Skjáskot af Snapchat.

Margra mánaða undirbúningur

Páll segir það í raun hafa verið eitt af hans stærstu markmiðum í mörg ár að heimsækja Tæland,og jafnframt finna barnaheimilið þar sem hann bjó fyrstu ár ævinnar; PayaThai Babies Home sem staðsett er í norður Bangkok. Með ferðinni rætist því langþráður draumur en undirbúningurinn hefur staðið yfir hjá þeim félögum síðan snemma á árinu.

„Ég fann nýlega upplýsingar um heimilið og hef skrifað til þeirra e-mail en án árangurs Helgi fór til Tælands í janúar og hann sagði við mig að hann hafði mikið hugsað til mín á meðan hann var þar í landi. Við höfum verið bestu vinir í 15 ár og erum eins og bræður. Helgi fann því miklar tilfinningar í minn garð þegar hann var í Tælandi og keypti fullt af minjagripum og gjöfum.

Tveimur dögum eftir hann lenti í Danmörku þar sem hann er búsettur hringdi hann í mig og spurði mig hvort ég væri laus ákveðnar dagsetningar og ég svaraði játandi, þá sagði hann einfaldlega „Flott því við erum að fara til Tælands og ætlum að bóka miðann núna“ og þá var ekki aftur snúið. Þetta var í lok febrúar og við höfum verið að plana ferðina síðan.

Mynd/Skjáskot af Snapchat
Mynd/Skjáskot af Snapchat

Páll segir ferðina leggjast vel í sig en félagarnir hyggjast dvelja úti í tæpar sex vikur.

„Nú er ég búinn að vera hérna í tvo daga og mér líður bara svolítið eins og heima hjá mér verð ég að segja.
Við tökum tvo daga hér í Bangkok, næst tekur við Chiang Mai í norður Tælandi þar sem við ætlum að læra að elda, æfa íþróttir og fara í fjallgöngur um skógana. Þar næst hið fræga Full Moon partý á Koh Phangan sem er eyja í Suður-Tælandi, algjört must að prufa það. Svo ætlum við að kafa og æfa Crossfit á Koh Tao, sem er nágrannaeyja Koh Phangan. Þar næst Koh Lanta sem er hinum megin við Tæland og þar munum við búa gömlu sjómannabraggahúsi á hafinu þar sem við búum hjá kokki sem ætlar að kenna okkur að elda eins og heimamennirnir gera það og vinna með dýrum. Eftir það stefnum við á að fljúga aftur til Bangkok og erum þá vonandi búnir að ná kontakt við barnaheimilið og markmiðið er að vinna sem sjálfboðaliðar á heimilinu. Við höfum gert smá rannsókn um það og það gæti verið erfitt, en vonum það besta. Síðari hluti ferðarinnar er semsagt óráðinn.“

Frábær byrjun

Líkt og fyrr segir hyggjast strákarnir vera virkir á Snapchat í ferðinni og leyfa fylgjendum að fylgjast því sem á dga þeirra drífur.

„Ég er mikill snappari og Helgi líka svo við ákváðum að nýta þennan samskiptamiðill sem einskonar ferðablogg nema þeir sem fylgjast með fá allt saman beint í æð. Við sameinuðum krafta okkar og ætlum að vera fyndnir og skemmtilegir. Við stefnum að sjálfssögðu á að snappa daglega og held að okkur muni takast það mjög vel.

Mynd/Skjáskot af Snapchat
Mynd/Skjáskot af Snapchat

Hingað til erum við búnir að borða allskonar dýr eins og sporðdreka,krippur, engisprettur, risaruppur og allskonar pöddur, hrekkja hvern annan í svefni, dansa útá götu með gömlum körlum og svo margt fleira þó svo að ferðin sé aðeins nýbyrjuð. Við erum rosalega ánægðir með sterka byrjun en fylgjendum er búið að fjölga rosalega eftir að við fórum út,“ segir Páll að lokum og bendir um leið öllum áhugasömum að fylgjast með ævintýrum þeirra félaga í gegnum Snapchat rásina thaiboywhiteboy.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Samuel L Jackson brjálast yfir brauði – Sjáðu stórskemmtilega auglýsingu

Samuel L Jackson brjálast yfir brauði – Sjáðu stórskemmtilega auglýsingu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Nýjasta skilnaðardramað í Hollywood harðnar – Frétti af fyrirhuguðum skilnaði í gegnum slúðurmiðla og stefnir söngvaranum

Nýjasta skilnaðardramað í Hollywood harðnar – Frétti af fyrirhuguðum skilnaði í gegnum slúðurmiðla og stefnir söngvaranum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Útskýrir af hverju hún er alltaf ber að ofan og segir það „þaulskipulagt“

Útskýrir af hverju hún er alltaf ber að ofan og segir það „þaulskipulagt“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dánarorsök Angus Cloud opinberuð

Dánarorsök Angus Cloud opinberuð